Fjölgun flugfarþega verði minni vegna „flugviskubits“

Einn af hverjum fimm hefur fækkað flugferðum sínum.
Einn af hverjum fimm hefur fækkað flugferðum sínum. AFP

Niðurstöður rannsóknar svissneska bankans UBS gefa til kynna að fjölgun flugfarþega verði minni á næstu árum en spár hafa gert ráð fyrir. BBC greinir frá.

Bankinn rekur það meðal annars til aukins „flugviskubits“ á meðal flugfarþega en einn af hverjum fimm sem svöruðu könnuninni sögðu að þeir hefðu fækkað flugferðum sínum vegna þeirra áhrifa sem þær hafi á umhverfið. 

Rannsókn UBS náði til yfir 6 þúsund manns í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi. 

Flugfarþegum hefur fjölgað um 4 til 5 prósent á milli ára síðustu ár, sem þýðir að fjöldinn tvöfaldast á hverjum 15 árum. UBS segir að miðað við niðurstöður könnunarinnar muni fjölgunin verða helmingi minni en spár gera ráð fyrir. 

Framtíðarspár frá fyrirtækjum í iðnaðinum höfðu gert ráð fyrir að fjölgunin verði stöðug til ársins 2035. UBS-rannsóknin gefur hins vegar til kynna að áhrifamiklar hreyfingar, líkt og loftslagsverkfall hinnar sænsku Gretu Thunberg, geti haft mikil áhrif á flugferðir fólks. Þá sérstaklega í Evrópu og Bandaríkjunum. 

UBS rekur áhrifin meðal annars til loftslagsverkfalls Gretu Thunberg.
UBS rekur áhrifin meðal annars til loftslagsverkfalls Gretu Thunberg. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert