Sparaðu þér hótelið og passaðu hús

Vilt þú passa hús á sólríkum stað?
Vilt þú passa hús á sólríkum stað? Ljósmynd/Pexels

„Húsa-pössun“ hefur rutt sér til rúms innan ferðamennskunnar á síðustu árum. Það felur í sér að ferðalangur tekur það að sér að dvelja í húsi einhverra í lengri eða skemmri tíma og passa húsið eða eignina. Stundum, ekki alltaf, er það einnig hluti af „pössuninni“ að hugsa um dýr húsráðanda eða sinna viðhaldi eða garðverkum. 

Það lækkar augljóslega ferðakostnaðinn töluvert mikið ef þú þarft ekki að greiða fyrir gistingu. Það er hinsvegar allt önnur upplifun, jafnvel fyrir þá sem eiga þykk veski, að gista í heimahúsi. Auk þess gefur það ferðalangnum tækifæri á að lifa lífinu eins og heimamaður. 

Fréttaritari New York Times Travel hefur nokkurra reynslu af húsapössun. Hún vinnur fyrir fjölmiðilinn á ferðinni og eyðir aldrei löngum tíma á hverjum stað. Síðustu þrjú ár hefur hún passað bæði hús og dýr víða um heiminn, þar á meðal Kanada, Grikklandi, Englandi, Skotlandi og Kýpur. 

Að minnsta kosti sex vefsíður halda utan um auglýsingar fyrir húsapössun á alþjóðavísu auk fjölda annarra sem einblína á sérstök lönd. Fréttaritari NYT Travel kýs helst að nota TrustedHousesitters. Misjafnt er hvort borga þurfi fyrir aðgang að síðunum en það getur verið allt að 150 bandaríkjadölum á ári. 

Hún segir að það geti verið erfitt að komast af stað í húsapössuninni en um leið og fyrstu meðmælin séu komin í hús sé það lítið mál. Hún bendir á að ef ferðalangar leitist eftir því að passa dýr, sé til dæmis skynsamlegt að setja inn myndir af sér með dýrum á prófílinn sinn á síðunum.

Líkt og með Airbnb er lykilatriði að skapa traust á milli eiganda hússins og „pössunarpíunnar“. Margir vilji til dæmis ná að hitta viðkomandi fyrir fram eða þegar gesturinn tekur við húsinu. Ef það er ekki möguleiki er mjög góður kostur að geta talað við húsráðendur á Skype eða FaceTime. 

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að maður er einnig að fara dvelja á heimili ókunnugrar manneskju og því sé mikilvægt að stilla væntingar sínar. Hún mælir með að ræða við húsráðendur hvað fylgi því að dvelja á heimilinu, hvort gestir séu velkomnir eða ekki og hvort fjölskylda eða vinir muni fylgjast með dvölinni. 

mbl.is