Stórhættulegir ástarlásar

Ástarlásar eru krúttlegir en eru að sliga mannvirki víða um …
Ástarlásar eru krúttlegir en eru að sliga mannvirki víða um heim. Ljósmynd/Snæfriður Ingadóttir

Ástarlásar hafa undanfarin ár orðið sífellt vinsælli meðal para á ferðalögum sem nota tækifærið og innsigla ást sína á ákveðnum stöðum. Þótt lásarnir líti út fyrir að vera frekar saklausir geta þeir sannarlega verið varasamir.

Ástarlásar finnast orðið í öllum stórborgum heims, þ.e.a.s ef það er brú í borginni. Þeir eru venjulega festir á brúarhandriðið af pörum sem ganga yfir brúna, kela þar aðeins, festa lásinn á brúna og kasta lyklinum í vatnið. Nöfn viðkomandi og dagsetning er yfirleitt líka skráð á lásinn en með því að gera þetta trúir fólk að ást þess endist að eilífu.

Gamall siður

Þessi siður kemur upphaflega frá bæ sem heitir Vrnjačka Banja í Serbíu en stuttu fyrir fyrri heimsstyrjöldina hittist ástfangið par alltaf á Most Ljubavi-brúnni. Maðurinn var hins vegar kallaður í herþjónustu utanlands og varð þar ástfanginn af annarri konu. Unga konan sem beið hans heima dó úr sorg þegar hún heyrði fréttirnar. Ungar konur í Vrnjačka Banja tóku í kjölfarið upp á því að skrifa nöfn sín og ástmanna sinna á lása sem þær læstu á brúna svo þær myndu ekki lenda í því sama og kærasta hermannsins. Siðurinn hefur síðan breiðst út til annarra landa og fékk byr undir báða vængi þegar ítalski rithöfundurinn Federico Mocca gaf út bók árið 2006 þar sem ástarlásar á Ponte Milvio-brúnni í Róm komu við sögu.

Ástfangnir ferðamenn sem heimsækja Luzhkov-brúna í Moskvu geta hengt ástarlása …
Ástfangnir ferðamenn sem heimsækja Luzhkov-brúna í Moskvu geta hengt ástarlása á þar til gerð tré. Með því að bjóða upp á þessa lausn sliga lásarnir ekki brúarhandriðið. Ljósmynd/Dreamstime.com/Pavel Losevsky

Skemma og sliga brýrnar

Ástarlásarnir virðast í fyrstu vera mjög krúttlegir en eru í raun stórhættulegir, því þeir þyngja mannvirki og brúarhandrið hafa hreinlega hrunið vegna þeirra. Víða hafa lásarnir því verið fjarlægðir og bannaðir. Borgaryfirvöld í París fengu til að mynda nóg af ástarlásunum á Pont des Arts-brúnni árið 2015 og létu þá fjarlægja nokkur hundruð kíló af lásum og settu þar upp glerveggi. Lásarnir hafa víðar verið til vandræða, til að mynda á Heimsálfubrúnni á Reykjanesi þar sem þeir ryðga og tæra út frá sér. Sums staðar, eins og í Moskvu, hafa borgaryfirvöld þó séð lásana sem tækifæri til þess að laða að ferðamenn. Þannig hafa verið sett upp sérstök tré á Luzhkov-brúnni sem fólk er hvatt til þess að festa lásana á í stað handriðanna á brúnni en með þessu móti nær fólk að innsigla ástina án þess að stofna brúnni í hættu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert