48 tímar í Vestmannaeyjum

Helgarferð til Vestmannaeyja er alltaf góð hugmynd.
Helgarferð til Vestmannaeyja er alltaf góð hugmynd. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Það er alltaf góð hugmynd að skella sér í helgarferð til Vestmannaeyja, sama hvort það hittir á verslunarmannahelgina eða ekki. Vestmannaeyjabær iðar af lífi og ættu veitingastaðirnir í bænum ekki að valda neinum vonbrigðum.

Vestmannaeyjar sjálfar eru undursamlega fallegar og kjörið tækifæri að skella sér í göngu um eyjuna. Það er hægt að fara í margar göngur um eyjuna sem býður upp á bæði erfiðar fjallgöngur og léttari gönguleiðir.

Saga Vestmannaeyja er eitthvað sem allir verða að kynna sér í sinni fyrstu heimsókn til eyjanna og enginn má láta mjaldrasysturnar Litlu-Hvít og Litlu-Grá fram hjá sér fara.

Ferðavefurinn mælir með að ferðalangar fletti afgreiðslutímum veitingastaða og safna upp á Facebook en þeir geta verið breytilegir vegna ástandsins í þjóðfélaginu.

Vestmannaeyjar fagrar og grænar.
Vestmannaeyjar fagrar og grænar. mbl.is/Árni Sæberg

Að gera

Ganga upp á Eldfell

Eldfell myndaðist í gosinu árið 1973. Við lok gossins var fjallið um 220 metra hátt en það hefur sigið um 18-20 metra síðan þá. Það tekur um hálfa til eina klukkustund að ganga á topp Eldfells og þaðan er frábært útsýni yfir Vestmannaeyjar.

Ribbátaferðir

Það er gífurlega skemmtilegt og spennandi að skella sér í ribbátaferð í kring um eyjarnar. Í boði eru bæði eins og tveggja klukkustunda ferðir. Í þeirri lengri er farið í um allar eyjarnar en í þeirri styttri er farið út í smáeyjarnar sem eru nálægt Heimaey. Hægt er að bóka á netinu hjá Ribsafari.is og bjóða þau 20% afslátt út sumarið 2020.

Sund

Það er fátt betra en að skella sér í sund eftir góða fjallgöngu. Sundlaugin í Vestmannaeyjum er einstaklega notaleg og skemmtileg en þar má finna margrómaða rennibraut.

Spranga

Að spranga er eitt af því sem margir prófa sem heimsækja Vestmannaeyjar. Eyjamenn státa af yfirburðum sínum í sprangi en gestir ættu þó ekki að vera feimnir við að spreyta sig á spranginu. 

Að spranga er góð skemmtun.
Að spranga er góð skemmtun. mbl.is/Ómar Óskarsson

Að skoða

Eldheimar og Sagnheimar 

Í Vestmannaeyjum er að finna frábær söfn um eldgosið í Vestmannaeyjum og sögu Vestmannaeyja. Eins og nöfnin gefa til kynna er hægt að fræðast um eldgosið í Eldheimum og sögu Vestmannaeyja í Sagnheimum.

Heimsækja Litlu-Hvít og Litlu-Grá

Mjaldrasysturnar Litla-Hvít og -Grá gerðu allt vitlaust með komu sinni á síðasta ári. Hægt er að kynna sér sögu systranna á Sea Life Trust Beluga Whale Sanctuary en þar er einnig hægt að skoða lunda og önnur sjávardýr. Síðan er hægt að fara í siglingu út í Klettsvík og sjá systurnar í eigin persónu. 

Litla-Grá og Litla-Hvít.
Litla-Grá og Litla-Hvít. Ljósmynd/Sea Life Trust

Matur & drykkur

Pítsugerðin

Á Pítsagerðinni er hægt að fá einar bestu pizzur á Íslandi. Staðurinn er í hjarta bæjarins en flytur hjartað og magann beint til Ítalíu með pizzunum sínum.

Á Pítsugerðinni má finna heimsklassa pítsur.
Á Pítsugerðinni má finna heimsklassa pítsur. Ljósmynd/Facebook

The Brothers Brewery

The Brothers Brewery er lítið og skemmtilegt brugghús. Þeir brugga sinn eigin bjór sem þeir bjóða upp á á ölstofunni sinni en þar má líka finna eðal bjóra frá öðrum brugghúsum. 

Tanginn

Ef þú velur að fara sjóleiðina með Herjólfi til Vestmannaeyja er Tanginn það fyrsta sem blasir við þér á höfninni. Þar er notalegt að setjast niður, fá sér hádegismat og njóta þess að fylgjast með lífinu á höfninni. 

Slippurinn

Veitingastaðurinn Slippurinn er í elsta steinsteypta húsinu í Vestmannaeyjum. Matargerðin þar er bæði staðbundin og árstíðabundin og matseðillinn breytist viku frá viku. 

Slippurinn í Vestmannaeyjum.
Slippurinn í Vestmannaeyjum. Ljósmynd/Aðsend

Gisting

Hótel Vestmannaeyjar

Hótel Vestmannaeyjar er staðsett á besta stað í miðbænum og er fullkominn kostur fyrir þá sem vilja gera vel við sig. Á hótelinu er heilsulind fyrir þá sem vilja taka slökunina alla leið. 

Glamping & Camping

Glamping er dregið af enska orðinu camping (útilega) og glamorous (dýrðarljóma) og á við útilegu sem inniheldur lúxus. Glamping & Camping er staðsett inni í Herjólfsdal og er án efa ein áhugaverðasta gistingin sem í boði er á eyjunni. 

Glamping & Camping í Herjólfsdal.
Glamping & Camping í Herjólfsdal. Skjáskot/Instagram
mbl.is