„Mér finnst ótrúlega gaman að finna nýja staði“

Arnar Freyr Tómasson tekur myndir og myndbönd í íslenskri náttúru.
Arnar Freyr Tómasson tekur myndir og myndbönd í íslenskri náttúru. Ljósmynd/Arnar Freyr Tómasson

Kvikmyndagerðarmaðurinn Arnar Freyr Tómasson heillaðist af náttúrufegurð Íslands þegar hann var að læra kvikmyndagerð. Hann hefur meðal annars starfað fyrir auglýsingastofuna Sahara og ferðaþjónustufyrirtækið Guide to Iceland sem ljósmyndari og tökumaður. Nú nýtur Nova hæfileika hans en í gegnum störf sín hefur Arnar Freyr fengið að kynnast Íslandi vel. Hann á marga uppáhaldsstaði en segist jafnframt eiga enn margt inni. 

„Ég hef ekki alltaf verið jafn duglegur að ferðast innanlands og ég er núna. Áhuginn kviknaði í raun þegar ég byrjaði í kvikmyndaskólanum. Þá þurfti maður oft að finna staðsetningar sem hentaði hverri senu fyrir sig. Þær staðsetningar voru oft úti á landi. Svo þegar ég byrjaði í Sahara kynntist ég frábæru fólki sem ferðast mikið. Þá fékk ég að fara með þeim í ýmsar ferðir um land allt og þá byrjaði ljósmyndaáhuginn að myndast,“ segir Arnar Freyr þegar hann er spurður hvort að hann hafi alltaf verið duglegur að ferðast innanlands. 

„Þegar ég ferðast um Ísland þá er mér fremst í huga kvikmyndagerð. Ég hugsa alltaf hvernig ég get nýtt mér þetta einstaka landslag fyrir stuttmyndir, já eða jafnvel heila bíómynd ef af því kemur einn daginn. Margar hugmyndir hafa kviknað einungis útfrá því hvernig landið okkar er.“

Fer á víkingaslóðir

Arnar Freyr segir helst mynda í íslenskri náttúru þar sem honum finnst íslensk náttúra einstök. 

„Mér finnst ótrúlega gaman að finna nýja staði sem ég hef aldrei farið á og ná að ljósmynda þá og taka myndbönd. Yfirleitt reyni ég að gera eitthvað aðeins öðruvísi en venjulegt er. Mér finnst gaman að fara út fyrir boxið og finna ný sjónarhorn á ákveðnum stöðum. Síðan er ég alltaf svo spenntur að koma heim og „edita“ myndirnar og setja minn eigin stíl á þær. Ég hugsa að minn stíll á ljósmyndun sé kannski svolítið í áttina að kvikmyndum. Ég reyni að hafa ekki of sterkan lit í myndunum og hef þær svolítið „moody“ef ég leyfi mér að sletta.

Síðan hef ég einstaklega mikinn áhuga á víkingasögum og leita ég mikið uppi gömul víkingahús og ljósmynda þau. Einnig hef ég gert stuttmynd sem tekin var upp í víkingahúsinu á Eiríksstöðum á Vesturlandi. Þá hjálpaði að vita mikið um landið okkar.“

Arnar Freyr er áhugasamur um víkingahús.
Arnar Freyr er áhugasamur um víkingahús. Ljósmynd/Arnar Freyr Tómasson

Aðdáendur úti í heimi

Arnar Freyr er með fjölda fylgjenda á Instagram en þar birtir hann aðallega fallega landslagsmyndir og myndbönd. Fylgjendur hans eru margir hverjir útlenskir en Arnar Freyr segist ekki alveg vita hvernig það æxlaðist að fylgjendahópurinn stækkaði svona rosalega en þess má geta að hann er einnig með marga fylgjendur á TikTok-samfélagsmiðlinum. 

„Ég hef oft fengið spurningar frá Íslendingum hvernig ég fæ þennan fylgjendahóp en ég hef ekki beint eitthvað ákveðið ráð. Eina sem ég get sagt er að ég hef alltaf haft það sem reglu að gera það sem mér sjálfum þykir flott. Ég veit að það er ekki það töffaralegasta í heimi að keyra í marga klukkutíma til að ná mynd af einhverju ákveðnu víkingahúsi og búa til efni í kringum það. En ég geri það og ég hef trú á því að ég geti gert það flott, þá held ég að fólk fíli það líka og það kannski vekur áhuga þeirra á íslensku landslagi og hvað landið okkar hefur upp á að bjóða.

Ég veit ekki mikið um þetta fólk sem er að fylgja mér en ég svara samt sem áður öllum sem hafa samband við mig í gegnum Instagram og þykir það bara gaman. Fylgjendurnir vilja oftast vita hvaða staðir þeir verða að sjá á Íslandi, hvaða kamerubúnað ég er að nota og sumir vilja vita um staði sem ekki margir túristar eru á. Ég held þeim stöðum oftast fyrir sjálfan mig,“ segir Arnar Freyr og hvetur áhugasama um að senda sér skilaboð á Instagram ef það hefur einhverjar spurningar. 

Glymur í uppáhaldi

Áttu þér uppáhaldsstað á landinu? 

„Það er mjög erfitt að velja einn uppáhalds stað á landinu. En Glymur er staður sem ég hugsa líklega oftast um þegar ég fæ þessa spurningu. Gönguleiðin er ótrúlega falleg og skemmtileg. Klárlega fyrir alla og ég mæli með að fólk kíki þangað í sumar. Þú labbar yfir viðardrumb sem liggur yfir á. Svo áttu virkilega fallega göngu framundan og efst uppi tekur einmitt á móti þér fossinn Glymur. Hann er 198 metrar á hæð sem gerir hann að næst hæsta fossi landsins á eftir Morsárfossi.

Glymur er í uppáhaldi.
Glymur er í uppáhaldi. Ljósmynd/Arnar Freyr Tómasson

Aðrir staðir sem ég fæ alltaf sömu góðu tilfinninguna á að koma á og eru í uppáhaldi eru Hjörleifshöfði, þjóðveldisbærinn Stöng, Dyrhólaey, Fjaðrárgljúfur, Svartifoss og Hengifoss. En ef ég á að segja uppáhalds landshluta, þá verð ég að hafa Austurlandið í fyrsta sæti. Það er eiginlega bara risastór paradís í gegn, ekki bara landslagið heldur allir litlu bæirnir eru ótrúlega fallegir.“

Fjaðrárgljúfur.
Fjaðrárgljúfur. Ljósmynd/heiti Arnar Freyr Tómasson

Er eitthvað sem þú átt enn eftir að gera á Íslandi og langar til að gera?  

„Það er sko sannarlega hellingur sem ég á eftir að gera og fara á Íslandi. Ég á eftir að skoða norðurhluta landsins betur. Ég er alltaf á leiðinni þangað og ég held ég nýti sumarfríið mitt í eina ljósmynda-og myndbandaferð þangað. Ég er líka með skrifað niður í bók heima alla þá staði sem ég veit að ég á eftir að sjá og ég mun gera það einn daginn. Suma staðina er pínu erfitt að komast að og það þarf rétta bílinn til að keyra að þeim.

Einnig á ég eftir að taka upp alvöru bíómynd sem gerist að langmestu í íslenskri náttúru. Það er minn draumur og hann mun rætast einn daginn. “

Er oft á hótelum

Þegar Arnar Freyr er spurður að því hvers konar gistingu hann kýs helst þegar hann ferðast um landið segir hann að hótel verði oft fyrir valinu. 

„Það er mjög hentugt fyrir mig af því að ég þarf alltaf að hlaða öll myndavélabatteríin eftir langan dag í tökum. Einnig hef ég nýtt mér tjöld, bústaði og bíla með koju aftur í. 

„Ég ferðaðist til dæmis um allt Austurlandið síðasta haust með kærustu minni, þá sváfum við á hótelum og ég varð virkilega heillaður af Fosshótelinu á Fáskrúðsfirði. Það var gert úr gömlum byggingum frá því að franskir fiskvinnslumenn unnu hérna á árum áður. Virkilega huggulegt hótel og gaman að læra söguna í leiðinni. Það er minn uppáhalds svefnstaður á landinu eins og er.“

Vestfirðir.
Vestfirðir. Ljósmynd/Arnar Freyr Tómasson

Hvað ætlar þú að gera í sumar?  

„Í sumar ætla ég að halda áfram að ferðast um landið. Eins og ég nefndi áðan þá er stefnan tekin norður. Mér langar einnig á Vestfirðina og upplifa þá aftur. Ég og kærastan mín erum að vinna að stuttmynd sem gerist einungis í íslenskri náttúru en hún tengist örlítið bráðnun jökla og hvernig við mannfólkið lifum í dag. Við erum búin að taka upp allar senurnar nema tvær. Ein senan á að gerast hjá Dynjanda. Þannig við gætum nýtt ferðina á Vestfjörðum í það meðal annars.

Einnig ætla ég að undirbúa mig fyrir komandi hlutverk sem foreldri en við eigum von á okkar fyrsta barni í September. Við erum mjög spennt fyrir því og ætlum að halda áfram að ferðast um landið með einn lítinn dreng í för næsta haust.“

View this post on Instagram

The crazy landscape of Thorsmork! 😍 Have you been? #iceland

A post shared by Arnar Freyr (@arnar.tomasson) on Oct 28, 2019 at 4:54am PDT



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert