Hleyptu af stað hringferð um landið

Verkefninu Upplifðu Ísland var hleypt af stað í síðustu viku.
Verkefninu Upplifðu Ísland var hleypt af stað í síðustu viku. Ljósmynd/Aðsend

Verkefninu Upplifðu Ísland! var nýlega hleypt af stað, en verkefnið er átak sem  á að hvetja landsmenn til að ferðast innanlands. Farið verður í fjögurra daga hringferðir umhverfis Ísland í þægilegri smárútu. Gist verður á hótelum Icelandair á Höfn í Hornafirði, Egilsstöðum og á Akureyri. Leiðsögumaður verður með í för og stoppað verður á fjölmörgum stöðum. Ferðirnar standa yfir í allt sumar. Bóka þarf ferðirnar með að minnsta kosti 48 klukkustunda fyrirvara og hægt er að nota ferðaávísun ríkisins við bókunina.

„Upplifðu Ísland verkefnið hefur hlotið frábærar viðtökur, enda um einstakt tækifæri að ræða til að skoða Ísland að afstöðnu því hléi á milljóna ferðamennsku sem senn færist aftur til fyrra horfs. Það að eiga þess kost að fara með svo frábærlega þægilegum og ódýrum hætti um landið er líka afar óvenjulegt ekki síst þegar litið er til þeirra gæða hótela og ökutækja sem um ræðir. Eru þá ótaldir þeir samfélagslegu þættir sem hér koma við sögu og tengjast bæði skógrækt, geðrækt og ljósmyndasamkeppni,“ Jakob Frímann Magnússon, einn af aðstandendum verkefnisins.

Við skráningu í ferðina fá ferðalangar úthlutað einu tré sem þeir gróðursetja í Tómasarlundi á leiðinni, en það er verkefni sem tileinkað er tónlistamanninum Tómasi Magnús Tómassyni heitnum. Markmið verkefnisins er að hvetja fólk til að tileinka sér jákvætt, örvandi og uppbyggjandi hugarfar.

„Þetta er eitt af þeim verkefnum sem við höfum hleypt af stað til að efla ferðalög landsmanna innanlands og auka um leið vitund um landið okkar og náttúru,“ segir Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa, en fyrirtækið er eitt af styrktaraðilum verkefnisins. „Umhverfisvitund er okkur mikilvæg. Við viljum leggja okkar af mörkum til unhverfismála og hvetja fólk til að gera slíkt hið sama. Þess vegna ætlum við að gefa fólki tré þegar það mætir í ferðina, sem það má svo gróðursetja í Tómasarlundi,“ segir Ingibjörg Ásta. 

Dagksrá ferðarinnar má finna á vefsíðunni Upplifðu Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert