Eiginkonan fallegasta útsýnið

Einar Bárðason ferðaðist um Vestfirði með fjölskyldunni í sumar.
Einar Bárðason ferðaðist um Vestfirði með fjölskyldunni í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Einar Bárðarson framkvæmdastjóri Votlendissjóðs átti gott sumar á Íslandi í sumar með fjölskyldunni. Utanlandsþráin er ekki að fara með hann en hann kann vel að meta það sem Ísland hefur upp á að bjóða. Heimsókn á Vestfirði í sumar situr fast í huga hans. 

„Ég blandaði saman vinnu og fjölskylduferð og við fórum á Vestfirðina. Gistum í húsi sem góð vinkona okkar hjóna á á Patreksfirði og það var dásamlegt að vera þar. Við keyrðum vestur í gulri viðvörun en svo lék veðrið við okkur og við áttum alveg dásamlega daga. Með því að gista svona gafst okkur kostur á að vera miklu lengur fyrir vestan og gera skemmtilega hluti saman. Ég var að skoða verkefni á vegum Votlendissjóðs en um leið áttum við frábæra daga. Skoðuðum Rauðasand, ýmis söfn, heimsóttum Jón forseta á Hrafnseyri, dáðumst að Dynjanda og svo sáum við hluti sem eru vel úr alfaraleið eins og Fífustaðadal, Ingjaldssand og fleiri staði. Fórum í berjamó, lautarferðir og nutum lífsins í botn.“ 

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„Ég á nú kannski ennþá eftir að finna hana, en ég nýt þess yfirleitt bara að vera þar sem ég er. Ég fékk eiginlega nóg af London á sínum tíma þegar ég vann þar en mér er mjög minnisstæð heimsókn til Dresden í Þýskalandi fyrir nokkrum árum en sú heimsókn kom mér gjörsamlega í opna skjöldu hvað fegurð varðaði. Ég myndi gera mér ferð þangað aftur til að njóta enn meira.“ 

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Það eru nú allir staðir á Íslandi svo fallegir en á móts við konuna mína má yfirleitt sjá fallegasta útsýnið á landinu hverju sinni.“  

Besti maturinn á ferðalagi?

„Ég er enn þá svolítið með hugann við ferðina vestur en við gerðum okkur far um að borða á veitingastöðunum þar sem voru í eigu heimamanna þar sem eldað var úr hráefni úr héraði og við vorum svo heppin að borða fisk þar nánast upp á hvern dag. Fiskisúpan á Flaki á Patreksfirði var ævintýralega góð. Fish and chips á Vegamótum á Bíldudal var svo gott að við gerðum okkur tvær ferðir inn á Bíldudal að borða hjá Gísla Ægi Ágústssyni og Önnu Vilborgu Rúnarsdóttur. Síðan heimsóttum við Tjöruhúsið og borðuðum á hlaðborði sem var gjörsamlega himneskt. Þetta er matur sem gerir það að verkum að maður er að reyna að finna glufu í dagatalinu til að fara aftur vestur.“ 

Einar veiddi á sjóstöng með syni sínum fyrir vestan. Drengurinn …
Einar veiddi á sjóstöng með syni sínum fyrir vestan. Drengurinn veiddi eins og kvótakóngur og þegar komið var í land fengu þeir Gísla á Vegmótum til þess að flaka fiskinn og elda hann. Ljósmynd/Aðsend

Mesta menningarsjokkið?

„Ég hef svo innilega gaman af því að láta lífið koma mér á óvart en mér er minnisstætt þegar ég var með Björgvini Halldórssyni á ferðalagi snemma á þessari öld, þá lá leið okkar í veiði í Fljótunum yst í Skagafirði. Björgvin sagði mér að stilla væntingum um umferð og vestræn gæði í hóf. „Þetta er bara eitt kaupfélag og svo er veiðihúsið hinum megin við veginn,“ sagði hann. Ég sofnaði þarna í framsætinu með Björgvini þar sem hann keyrði svo fagmannlega.

Þegar ég rumskaði vorum við stopp. „Af hverju erum við að stoppa?“ spurði ég Bó þar sem mér fannst við ennþá vera á miðri leið. „Við erum komnir,“ sagði hann og benti til hægri og sagði „þarna er kaupfélagið“ og svo benti hann yfir götuna og sagði „þarna er veiðihúsið“, það virtist vera eina lífsmarkið í öllum dalnum. Þrátt fyrir viðvaranir stórsöngvarans átti ég von á þó ekki væri nema einu útihúsi í viðbót.“ 

Hvert dreymir þig um að fara þegar bóluefni er komið? 

„Ég veit það ekki, kannski bara á tónleika með Helga Björns með fleirum en reiðmönnunum,“ segir Einar og hlær. „Ég er ekkert að sperra mig þannig en ég á inni heimboð til Aspen og Breckenridge í Colorado sem mig langar mikið að innheimta. Sjáum til, það liggur ekkert á.“ 

Ætlarðu að reyna að ferðast innanlands í vetur?

„Ég mun gera það klárlega, bæði vegna vinnu og svo örugglega í vetrarfríi barnanna og þá förum við örugglega á Akureyri. Það er langt síðan ég fór í sushi á Rub23 til Einsa vinar míns. Jú og svo þarf að skíða eitthvað á milli sushibita vitanlega.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert