Gefa gömul hús í niðurníðslu

Castropignano á Ítalíu.
Castropignano á Ítalíu.

Ítalska þorpið Castropignano leitar nú allra leiða til að fjölga íbúum í þorpinu og stefnir á að selja gömul hús í niðurníðslu á aðeins eina evru. Aðeins 923 búa í Castropignano sem er í Molise-héraði á Suður-Ítalíu. 

Fjöldi húsa í bænum er í mikilli niðurníðslu en þorpið hefur að geyma söguleg hús og einnig kastala frá 14. öld. 

Castropignano er alls ekki fyrsti bærinn á Ítalíu til að gera slík tilboð en bæirnir Cinquefrondi, Teora, Bivona og Cammarata hafa til að mynda gert sambærileg tilboð þeim sem vilja flytja til bæjanna. 

Þeir sem vilja búa í Castropignano þurfa að senda bæjarstjóranum, Nicola Scapilati, bréf um af hverju þeir vilja flytja til bæjarins og hvað þeir hyggjast gera þar í framtíðinni. Bæjaryfirvöld eru einnig opin fyrir umsóknum frá fyrirtækjum, en þau þurfa að vera ítölsk.

Fái tilvonandi íbúi úthlutað hús á eina evru þarf hann að greiða tvö þúsund evrur í tryggingafé sem hann fær aftur þegar hann hefur lokið við endurbætur á húsinu sínu.

mbl.is