Krónprinsessan á spítala eftir skíðaslys

Hákon krónprins Noregs og eiginkona hans og Mette-Marit. Krónprinsessan slasaði …
Hákon krónprins Noregs og eiginkona hans og Mette-Marit. Krónprinsessan slasaði sig rétt fyrir jól. AFP

Mette-Marit krónprinsessa Noregs er sögð hafa brotið rófubeinið þegar hún var á skíðum rétt fyrir jól í Noregi. Krónprinsessan var á skíðum á skíðasvæðinu Uvdal hinn 21. desember þegar óhappið átti sér stað en norska konungsfjölskyldan á skíðakofa á svæðinu. 

Hin 47 ára gamla Mette-Marit var að koma úr lyftunni með Ingiríði Alexöndru Noregsprinsessu þegar atvikið átti sér stað að því er fram kemur í frétt norska slúðurblaðsins Se og Hør. Skíði mæðgnanna flæktust saman og missti Mette-Marit jafnvægið og datt. Mette-Marit meiddist í rófubeininu og á að hafa borið sig vel þrátt fyrir að hafa þurft að dúsa á spítala eina nótt.

Áætlanir fjölskyldunnar yfir jólin breyttust vegna slyssins. Hákon, Mette-Marit og börn ætluðu sér að verja jólunum í skíðakofanum en ákváðu að vera í Skaugum með stórfjölskyldunni vegna óhappsins.  

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem krónprinsessan meiðir sig á skíðum. Í mars árið 2002 fótbrotnaði Mette-Marit í skíðaferðalagi í Sikkilsdalen í Noregi. Þá var hún flutt á spítala í Lillehammer og sett í gifs.

Hákon krónprins, Ingiríður Alexandra, Sverrir Magnús og Mette-Marit.
Hákon krónprins, Ingiríður Alexandra, Sverrir Magnús og Mette-Marit. AFP
mbl.is