Mette-Marit greinist með lungnatrefjun

Mette-Marit greindi opinberlega frá veikindum sínum í dag, en hún …
Mette-Marit greindi opinberlega frá veikindum sínum í dag, en hún hefur fundið fyrir einkennum sjúkdómsins í nokkur ár. AFP

Norska krónprinsessan Mette-Marit hefur greinst með krónískan lungnasjúkdóm, lungnatrefjun (e. pulmonary fibrosis). Sjúkdómurinn veldur óþarfri vefjamyndun í lungunum sem leiðir af sér að það dregur úr teygjanleika lungnablaðranna með tilheyrandi öndunarerfiðleikum.

Mette-Marit er 45 ára gömul og tilkynnti veikindi sín í dag í viðtali við norska ríkisútvarpið NRK þar sem hún og Hákon krónprins ræddu um veikindin, sjúkdómsgreininguna og framtíðina.

Krónprinsessan segir að hún hafi fyrst tekið eftir því að ekki væri allt með felldu fyrir nokkrum árum og að einkennin hafi síðan ágerst síðasta árið. Stutt er síðan læknar komust að því hvað plagaði hana.

„Það kom í ljós að þetta er krónískara en við höfðum vonast eftir, en þetta útskýrir líka margt, svo [sjúkdómsgreiningin] var í raun líka mikill léttir,“ sagði Mette-Marit, sem segir að það verði krefjandi að lifa með þessum sjúkdómi og óvissunni sem honum fylgi.

Hún greindi frá því að vegna heilsu sinnar sæi hún fram á að vera töluvert frá sviðsljósinu á næstunni og að hún hefði viljað greina frá veikindunum opinberlega til þess að koma í veg fyrir að sögusagnir kæmust á kreik um heilsu hennar.

Getur leitt til öndunarbilunar

Í upplýsingabæklingi frá Landspítala um sjúkdóminn segir að bandvefsmyndun eða trefjun í lungum sé sjaldgæft sjúkdómsástand sem geti stafað af ýmsum orsökum, en langoftast er orsökin ekki þekkt.

Meðal þekktra orsaka eru þó heyryk og ýmiss konar annað ryk sem fólk andar að sér og auk þess gigtsjúkdómar.

„Það sem gerist er að í stað heilbrigðs lungnavefjar kemur bandvefur (trefjar). Þannig truflast loftskipti um lungun og súrefni fer hvorki inn né koltvísýringur út úr líkamanum á eðlilegan hátt. Þetta getur leitt til öndunarbilunar.“

Umfjöllun NRK um lungnatrefjun (með skýringarmyndum)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert