Hollywoodstjörnu rænt í Mósambík

Rebel Wilson lenti í ævintýrulegum atburðum á ferð sinni um …
Rebel Wilson lenti í ævintýrulegum atburðum á ferð sinni um Afríku. AFP

Rebel Wilson, grínleikkona og Íslandsvinur, hefur ferðast víða. Fyrir nokkrum árum lenti hún í stórhættu þegar var hún á ferðalagi um Afríku. Hún var stödd í Mósambík þegar henni var ógnað með byssu og rænt. 

„Ég var einu sinni í Afríku og mér var rænt. Ég var úti á landi í Mósambík,“ rifjaði Wilson upp í breskum sjónvarpsþætti að því er fram kemur á vef Daily Mail. Wilson var ásamt ferðafélögum sínum í hálfgerðum flutningabíl og komu menn með stórar byssur og skipuðu fólkinu að fara út úr bílnum. 

Farið var með leikkonuna og félaga hennar í hús „úti í buskanum“ eins og hún lýsir því. Þar þurftu þau að dúsa yfir nótt. „Þeir létu okkur setjast niður og ég sagði öllum að krækja saman höndum af því ég var skíthrædd um að þeir myndu ræna einni af stelpunum um nóttina eða eitthvað.“

Sem betur fer sluppu þau öll ómeidd en um morguninn fengu þau að fara í bílinn sem þau komu á. Þau komust síðan fljótlega yfir til Suður-Afríku. Wilson segist ekki hafa hugmynd um af hverju þeim var rænt. Hún telur ekki ólíklegt að mennirnir með byssurnar hafi reynt að smygla einhverju ólöglegu með bílnum þeirra.

mbl.is