Egill og Tanja láta draumana rætast í Tyrklandi

Egill Fannar Halldórsson flutti til Tyrklands í byrjun árs með …
Egill Fannar Halldórsson flutti til Tyrklands í byrjun árs með kærustu sinni Tönju Ýr Ástþórsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Egill Halldórsson og Tanja Ýr Ástþórsdóttir fluttu nýverið til Kas í Tyrklandi. Þaðan reka þau fyrirtæki sín og njóta sólarinnar og rólegheitalífsins við Miðjarðarhafið. Egill segir að þau hafi alltaf dreymt um að búa erlendis en rekstur fyrirtækis hans, Gorilla vöruhúss, hafi haldið þeim á Íslandi. 

Í lok árs 2020 ákváðu þau hins vegar að láta draumana rætast og bókuðu sér flug aðra leið til Tyrklands. Þau settu íbúðina sína í miðbæ Reykjavíkur á leigu, pökkuðu niður í tösku og drifu sig út. Ferðalagið mótaðist aðeins af heimsfaraldrinum og síðast en ekki síst veðrinu því þegar þau lentu í Norður-Tyrklandi var snjór. Þau keyrðu svo suður á bóginn til Miðjarðarhafsins þar sem veðrið er notalegt og gott. 

Af hverju ákváðuð þið að flytja út?

„Okkur hefur dreymt um það að flytja utan síðustu ár en við höfum alltaf verið á miklu flakki saman og verið dugleg að fara í frí á spennandi staði og skoða heiminn.

Við erum bæði í eigin rekstri og það getur flækt dæmið svolítið – það er svolítið eins og að eiga lítið barn, eða maður er alla vega að skjóta niður dálítið föstum rótum. Það hefur því helst verið vöruhúsið okkar – Górilla – sem hefur haldið okkur á Íslandi undanfarið og þess vegna erum við ekki löngu farin.

Við elskum Ísland og allt fólkið okkar heima en finnum að heimurinn hefur alltaf kallað á okkur og við höfum bæði mjög sterka ferðaþrá. Okkur langar að skoða allan heiminn en það er kannski sérstaklega Miðjarðarhafið sem hefur talað til okkar og þar sjáum við fyrir okkur að setjast að einn daginn. Það sem heillar okkur hvað mest er að sjálfsögðu þetta hlýja loftslag allan ársins hring, æðislegur matur, aðgangur að ferskum hráefnum og svona aðeins „rólegri“ lífsstíll en á Íslandi og Vesturlöndum almennt.“

Miðjarðarhafið hefur alltaf togað í Egil.
Miðjarðarhafið hefur alltaf togað í Egil. Ljósmynd/Aðsend

Hvert fluttuð þið nýlega og af hverju völduð þið þennan stað?

„Við erum núna í alveg dásamlegum litlum smábæ sem heitir Kas og er á suðurströnd Tyrklands. Hér búa aðeins um 7.500 manns og er alveg rosalega rólegt yfir vetrartímann. Þegar þetta er skrifað sit ég með fæturna upp í loft úti á svölum í 20°C hita og er að vinna í sólinni – með útsýni yfir sjóinn. Þetta er algjör paradís og draumur sem við höfum gengið með í maganum í nokkur ár sem er að rætast.

Við fundum Kas reyndar upphaflega fyrir algjöra tilviljun. Við vorum að leita okkur að spennandi og öðruvísi stað til þess að fara í frí haustið 2018 og þá kom Tyrkland fyrst á kortið hjá okkur. Það var kannski fyrst og fremst vegna þess að hér er enn þá heitt á haustin og nær allt árið. En ekki síður vegna þess að hér getur verið alveg rosalega ódýrt að vera.

Við komum sem sagt hingað í frí árið 2018 og urðum alveg dolfallin af Kas. Og þegar við vildum fara eitthvað út núna í janúar – yfir kaldasta mánuð ársins alls staðar í Evrópu, fannst okkur tilvalið að kíkja aftur hingað þar sem hitinn er um 16-20°C alla daga.“

Bærinn Kas í Suður-Tyrklandi varð fyrir valinu.
Bærinn Kas í Suður-Tyrklandi varð fyrir valinu. Ljósmynd/Aðsend

Hverjir voru helstu kostirnir sem þú/þið sáuð við að flytja út? En gallarnir?

„Eins og ég segi þá er það hlýtt Miðjarðarhafsloftslag sem heillar okkur alveg rosalega mikið. En sömuleiðis hugsa ég sjálfur mikið um fjármál og það gleður mig alveg rosalega mikið að geta lifað vel hér úti fyrir töluvert minna en við gerum í venjulegum mánuði heima á Íslandi. Það sem ég finn þó mest fyrir er hvað lífið verður einhvern veginn hægara – og rólegra – þegar ég kúpla mig út úr næstum því öllu. Hér er ég ekki með neinar skyldur eða hluti sem ég „verð að gera“ nema bara að opna fartölvuna mína og vinna í nokkra klukkutíma á dag. Svo við erum bæði að gefa okkur betri tíma til þess að hugsa vel um okkur sjálf, elda góðan mat, hreyfa okkur og njóta lífsins. Mér finnst það algjörlega vera stærsti kosturinn.

Ég kalla það kannski ekki galla, vegna þess að við getum farið heim hvenær sem við viljum – en það sem við erum auðvitað að fórna er að geta hitt fólkið okkar daglega. Við eigum náttúrulega bæði frábæra vini og fjölskyldur sem við hittum venjulega daglega og maður saknar þeirra vissulega.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig eru dagarnir ykkar í Tyrklandi?

„Við vöknum alla morgna milli klukkan 6 og 7. Við erum þremur klukkustundum á undan Íslandi – svo klukkan er þá 3-4 um miðja nótt heima. Okkur finnst best að byrja daginn mjög snemma og ná að vinna í um það bil 3 tíma áður en við borðum góðan morgunmat og förum í jóga. Við fundum alveg ótrúlega skemmtilegan hóp af fólki sem hittist alla morgna í 2000 ára gömlu rómversku leikhúsi og stundar jóga saman undir berum himni. Svo við byrjum daginn klárlega af krafti og það er undantekningalaust einn skemmtilegasti partur dagsins.

Næst fáum við okkur hollan morgunverð og kaffi á svölunum okkar og höldum áfram að vinna eins og þörf krefur hverju sinni.

Þar fyrir utan erum við almennt bara að taka því rólega og hafa það svolítið gott. Við erum mikið úti að labba, lesa, ég fer svolítið að synda í sjónum og svo erum við að reyna að skoða Suður-Tyrkland aðeins fyrst við erum hérna svo við erum dugleg að fara í bíltúra. Við erum mest að njóta þess að vera saman tvö en við höfum líka kynnst skemmtilegu fólki hér sem við förum með í partý, í göngur eða slíkt. Um helgina höfum við til dæmis nokkur saman leigt okkur bát og ætlum í siglingu um eyjarnar hér í kring.

Og já, við erum líka búin að ættleiða kött sem birtist einn daginn á svölunum okkar. Við köllum hana Guðrúnu, hún er mikil kelirófa og er yfirleitt sofandi í sófanum okkar meira og minna allan daginn. Svo það er víst komið inn í rútínu núna að dekra aðeins við hana.“

Bærinn er einstaklega fallegur.
Bærinn er einstaklega fallegur. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig hefur fyrsti mánuðurinn verið?

„Alveg æðislegur! Hugmyndin okkar var að vera úti í mánuð og koma heim í mánuð. Og skiptast svoleiðis á allt árið. En við fundum það alveg um leið og við komum hingað að hér líður okkur svo rosalega vel að við getum eiginlega ekki ímyndað okkur að fara alveg strax heim.

Núna eftir að verða mánuð í Kas erum við komin í góða rútínu og líður alveg æðislega.“ 

Segðu mér frá Gorilla vöruhúsi. Er ekkert mál að reka svona fyrirtæki hvaðan úr heiminum sem er?

„Nei, nei. Það virðist vera að ganga alveg ágætlega bara, alla vega hingað til. Það sem skiptir mig náttúrulega öllu máli að reksturinn gangi vel og að bæði viðskiptavinir okkar og starfsfólk séu ánægð og fái alla þá athygli og ást sem þau þurfa og eiga skilið. Svo ég pæli mikið í því og vona að það sé allt eins og það eigi að vera. Mér líður alla vega mjög vel með þetta enn sem komið er. Það sem ég sakna kannski mest er að geta verið að rugla í samstarfsfólkinu mínu og hitta þau, það er eiginlega alltaf gaman hjá okkur.

Mitt starf er í stuttu máli fólgið í því að þjónusta okkar viðskiptavini, taka á móti nýjum fyrirtækjum, stýra framþróun, leysa vandamál og vera til staðar fyrir alla sem koma að rekstrinum – hvort sem það eru viðskiptavinir eða starfsfólk. Og alla þessa vinnu er meira eða minna hægt að vinna í gegnum tölvu svo ég held að það skipti ekki öllu máli hvar ég er staddur í heiminum.

Covid hefur líka sýnt okkur að mörg störf eru unnin nákvæmlega jafn vel heima og á skrifstofunni. Og ef þú getur unnið heima, af hverju ekki í Tyrklandi? Ég er viss um að flestir sem ég tala við á daginn hafa enga hugmynd um að ég sé erlendis – og ef þeir vissu það þá væri þeim örugglega líka alveg sama.“

Ljósmynd/Aðsend
Egill og Tanja eru með gott útsýni til sjávar.
Egill og Tanja eru með gott útsýni til sjávar. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig var grunnhugmyndin að Gorilla vöruhúsi og hvernig þróaðist hún?

„Við opnuðum Górillu vöruhús sumarið 2018 og hugmyndin er frekar einföld – og hún er sérhæfing, að fyrirtæki geti einbeitt sér eingöngu að því sem skiptir þau mestu máli. Ef þú ert fyrirtæki sem til dæmis selur æfingaföt, vítamín eða gefur út bækur – þá ættir þú fyrst og fremst að sérhæfa þig algjörlega í því að búa til vandaðar vörur og selja þær. Málið er að hjá okkur, þá er þetta það eina sem þú þarft að hugsa um. Górilla vöruhús sérhæfir sig nefnilega í öllu hinu. Og það er hvernig er best að flytja inn vörur, geyma þær, afgreiða pantanir hratt og örugglega – og koma réttum vörum til skila til viðskiptavina á mettíma.

Erlendis er þetta fyrirkomulag mjög þekkt og nær öll stóru fyrirtækin sem þú verslar við á netinu til dæmis eru að nýta sér miðlægt vöruhús eins og Górillu. Verslanir einbeita sér að því að selja og svo eru vöruhús sem sérhæfa sig í því að koma vörum til viðskiptavina. Við sáum þessa þróun og töldum að þetta væri það sem koma skyldi hér heima líka, engin spurning. Svo við keyrðum á þetta. Og 2-3 árum síðar erum við enn hér og á fleygiferð með mörg ánægð fyrirtæki með okkur í liði.“

Varstu alltaf með það að markmiði að geta unnið hvaðan úr heiminum sem er?

Nei, reyndar ekki. Við Daníel, sem á fyrirtækið með mér, erum báðir svo ruglaðir, ég held að við höfum aldrei hugsað dæmið lengra en nokkra daga fram í tímann þegar við vorum að byrja. Við höfðum báðir bara tröllatrú á hugmyndinni og keyrðum á þetta til þess að vera orðnir bestir þegar fyrirtæki kveiktu á því að þetta sé framtíðin í verslunarrekstri.

Með hvernig fyrirtækjum vinnur Gorilla vöruhús?

„Hópurinn af fyrirtækjum sem nýta sér þjónustu Górillu er svo sannarlega fjölbreyttur. Í dag eru 50 fyrirtæki í þjónustu hjá okkur og þau eru eins misjöfn og þau eru mörg. Við erum að afgreiða út kattasand, kynlífsleikföng, vítamín, bækur, raftæki, fatnað, snyrtivörur, matvæli, húsgögn og allt þar á milli.

Við erum að þjónusta netverslanir og heildsölur af öllum stærðum og gerðum. Það skiptir í raun engu máli hver varan er eða hvert hún er að fara – ef fyrirtæki vilja einfalda og hagræða vöruhýsingu, afgreiðslu og dreifingu, þá er það venjulega aðstaða þar sem við getum komið inn og hjálpað.“

Egill og Tanja eru komin í jógahóp sem stundar jóga …
Egill og Tanja eru komin í jógahóp sem stundar jóga á morgnana. Ljósmynd/Aðsend
Útsýnið af svölunum.
Útsýnið af svölunum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert