Leigði einkaeyju fyrir alla nema Bill

Bill og Melinda Gates.
Bill og Melinda Gates. AFP

Skilnaður hjónanna Bills og Melindu Gates hefur legið fyrir í nokkra mánuði hjá fjölskyldunni. Til stóð að tilkynna skilnaðinn í mars og var Melinda búin að undirbúa sig og fjölskylduna fyrir það. Til að mynda hafði hún tekið einkaeyju á leigu fyrir alla fjölskylduna, nema Bill, til að geta forðast áreiti fjölmiðla. 

Samkvæmt heimildum TMZ hafði Melinda tekið Calivigny-eyju í Grenada á leigu. Nóttin á eyjunni kostar um 16 milljónir króna. Melinda hafði gert ráð fyrir því að hún, börnin þeirra þrjú og makar þeirra gætu dvalið á eyjunni þegar skilnaðurinn yrði opinberaður. 

Heimildir herma að ráðabrugg Melindu hafi ekki gengið upp vegna þess að hún hafi þurft að vera til staðar á fundum með lögfræðingum sínum.

mbl.is