Besta djammið á Flateyri í sumar

Hlynur Helgi Hallgrímsson, Geir Magnússon, Steinþór Helgi Arnsteinsson, Sindri Páll …
Hlynur Helgi Hallgrímsson, Geir Magnússon, Steinþór Helgi Arnsteinsson, Sindri Páll Kjartansson, Ásgeir Guðmundsson og Ragnheiður Ólafsdóttir. Samkvæmt heimildum sprittuðu þau sig vel eftir myndatöku. Ljósmynd/Aðsend

Hið geysivinsæla reykvíska öldurhús, Röntgen, mun í sumar sjá um rekstur menningarhússins, knæpanna og veitingastaðarins Vagnsins á Flateyri. Samningar um slíkt tókust fyrr í mánuðinum eftir drykklanga fundarstund forsvarsmanna staðanna tveggja.

Vagninn er draumaverkefni

Steinþór Helgi Arnsteinsson hefur verið reglulegur gestur á Flateyri síðustu sumur þar sem hann hefur staðið fyrir tónleikum með hljómsveitinni GÓSS og heillaðist af stemningunni í Önundarfirði. Mbl.is heyrði í Steinþóri Helga sem er mjög spenntur fyrir þessu verkefni: „Þegar Vagninn hafði samband við okkur og viðraði þessa hugmynd þá stukkum við strax á vagninn, það má segja að þetta sé algjört draumaverkefni,“ sagði hann.

Röntgen við Hverfisgötu 12
Röntgen við Hverfisgötu 12 Skjáskot/Instagram

Röntgen mun formlega taka yfir þann 1. júní en ekki er stefnt að því að miklar breytingar verði gerðar á rekstri Vagnsins heldur gera þeir ráð fyrir að styðja við það frábæra starf sem unnið hefur verið á staðnum undanfarin ár. „Ég er kominn með íbúð og við fjölskyldan flytjum á Flateyri í lok maí og ætlum að vera þarna í sumar,“ segir Steinþór Helgi.

Steinþór Helgi fytur með fjölskylduna í Önundarfjörð í sumar
Steinþór Helgi fytur með fjölskylduna í Önundarfjörð í sumar Skjáskot/Instagram

Spænskt eldhús og gæðaviðburðir

Stefnt er að því að hafa staðinn opinn alla daga vikunnar og að fjölbreyttir viðburðir verði í hverri viku, t.d. tónleikar, uppistand, bingó, pub quiz og fleira. Það ríkir gríðarleg eftirvænting vegna umsjónar veitingarstaðarins en hún verður í höndum spænska parsins Álvaro Andrés og Inma Verdú. Munu þau töfra fram mikilfenglegan tapas/pintxos að spænskum sið og ætti það að þykja nægjanlega ástæða ein og sér til að heimsækja Vagninn í sumar.

Hljómsveitin Góss.
Hljómsveitin Góss. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bókanir á staðinn eru nú þegar komnar á flug samkvæmt fréttatilkynningu. Meðal þeirra listamanna sem eru nú þegar staðfestir eða eru í viðræðum um að koma fram má nefna KK, Ari Eldjárn, Jógvan & Friðrik Ómar, Ragnheiður Gröndal, GÓSS, Mugison, Blaz Roca, Jakob Birgis, Snorri Helgason & Saga Garðars, Ylja, Moses Hightower, Lay Low og Emmsjé Gauti.

mbl.is