Fjallabakið fallega

Fátt er fallegra en miðnætursól á hálendinu. Gígar, fjöll og vötn fá á sig annan blæ. Birtan verður mjúk og hlý. 

Fjallabak, eins og svæðið er kallað, er náttúruverndarsvæði sem nær yfir Landmannalaugar, Jökulsárgljúfur, Torfajökul og Hrafntinnusker og er meira en 47.000 hektarar að stærð. Helsti áningarstaður ferðalanga er í Landmannalaugum þar sem skálar, salernisaðstaða og tjaldsvæði eru ásamt heitri náttúrulaug sem svæðið er kennt við. Landmannalaugar eru líka oft upphafspunktur þeirra sem ætla að ganga hin svokallaða Laugaveg, milli Landmannalauga og Þórsmerkur.

Á leið inn í Landmannalaugar liggur vegurinn fram hjá Frostastaðavatni sem er talið eitt fallegasta vatn landsins. Það er eitthvað ævintýralegt við að sjá hvernig hraunið hefur runnið í vatnið sunnan megin og mótað landslagið, gert það einstakt. Ég legg til að þú stoppir uppi á hæðinni, stígir út og takir inn landslagið, fegurðina. Þegar yfir hæðina er komið er gígur sem heitir Stútur og ég get viðurkennt að ég hafði keyrt ótal sinnum fram hjá honum áður en ég áttaði mig á hversu magnaður hann er úr lofti. Að rölta upp á Stút tekur um 10 mínútur og er hverrar mínútu virði.

Gott að vita:

  • Að jafnaði opnast fyrir bílaumferð inn í Landmannalaugar um miðjan júní.
  • Breyttir jeppar geta keyrt alla leið að skálum og tjaldsvæði með því að fara yfir á en minni bílar verður að leggja og ganga síðan síðasta spölinn yfir brú.
  • Hægt er að koma að Landmannalaugum úr þremur áttum. Vestan megin eftir fjallvegi 208 sem ég fer oftast og einnig framhjá Heklurótum eftir fjallvegi 225. Austan megin er farið upp frá Skaftársveit á fjallvegi 208. Þeim megin er keyrt framhjá Eldgjá sem betur verður fjallað um í sumar. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert