Seiðandi Siglufjörður

Fyrst fór síldin, svo peningalyktin en við tók næstum því fimm stjörnu hótel, hágæða marokkóskur veitingastaður, brugghús, golfvöllur, fyrirtaksskíðasvæði og bakarí sem selur geggjað döðlu- og trönuberjabrauð, bara svona til að nefna sumt en alls ekki allt.

Já, Siglufjörður varð snemma eftir aldamótin 1900 og langleiðina að 1970 að vöggu íslenskrar síldarvinnslu. Norskir frumkvöðlar komu Íslendingum á bragðið og við tók ævintýri sem ekki einu sinni H.C. Andersen hefði getað skrifað. Síldarævintýrið mikla þar sem sjómenn og tunnustelpur féllust í faðma og eitthvað meira í Hvanneyrarskálinni. Skarðið var gert bílfært svo aðföng og fólk ættu greiðara aðgengi að siglfirska draumnum.

Í dag er Siglufjörður annars konar ævintýri. Frumkvöðlastarfið sem áður dreif áfram síldarvinnslu hefur fundið sér farveg í ferðamennsku, upplifunarhönnun. Að skapa hughrif og ró í bland við hreyfingu og útivist. Í raun er Siglufjörður staður þar sem allir geta fundið sér eitthvað við hæfi. Gönguferðir um fjöll og snjóflóðagarða. Skíðamennska og þá bæði uppi í fjalli á svigskíðum eða vítt og breitt um láglendið inni í dal á gönguskíðum og ef ævintýraþráin er slík að ekki verði við hana ráðið þá er þyrluskíðamennska að verða að stórum atvinnuvegi á Tröllaskaga og er Siglufjörður sá staður þar sem flest slík fyrirtæki hafa starfsstöðvar.

Já, hvort sem það er vetur, sumar, vor eða haust þá finnur þú þér eitthvað að gera, upplifa og iðka á Siglufirði. Mælt er sérstaklega með að skoða Síldarminjasafnið, borða marokkóskan mat á Hótel Siglunesi og ganga upp í Hvanneyrarskál. Um kvöldið, hvort sem þú ert gestur eða ekki, er Sigló hótel staðurinn til að tylla sér niður og fá sér drykk eða þrjá.

mbl.is