Finndu drauminn þinn í draumaferð á Lanzarote

Valgerður H. Bjarnadóttir og Elísabet Lorange.
Valgerður H. Bjarnadóttir og Elísabet Lorange.

Draumsaga stendur fyrir ferð til Lanzarote í janúar á næsta ári. Um er að ræða þriðju ferð Draumsögu til þessarar ævintýraeyju sem tilheyrir Kanaríeyjunum. Elísabet Lorange, listmeðferðarfræðingur og kennari, og Valgerður H. Bjarnadóttir, draumfræðingur og félagsráðgjafi, eru konurnar á bakvið Draumsögu og þær nýta heildræna og skapandi nálgun í þessari vinnu. Elísabet segir að þetta sé tilvalin ferð fyrir þá sem vilja hlúa að sínu eigin draumalífi og dýpka tengsl við bæði draum- og vökuvitundir í þeim tilgangi að auðga lífið og tilveruna. 

„Þetta eru tvö vikulöng námskeið annars vegar fyrir hóp kvenna og hins vegar hóp fyrir öll kyn, þar sem unnið verður með drauma dags og nætur í sól og sælu. Dvalið verður saman í „draumahöll“ áLanzarote þar sem við fáum tækifæri að læra að hlusta á draumana, dekra við okkur og næra tengslin. Þetta er tilvalin ferð fyrir þau sem vilja hlúa að tengslum sín á milli, eins og  vinkonur, systur, mæðgur, samstarfskonur, maka, systkin, vini, feðga, feðgin og svo framvegis. Auðvitað getur líka verið gott og gaman að fara einsömul í svona ferð og rækta tengslin inn á við,“ segir Elísabet.

Hvers vegna varð Lanzarote fyrir valinu?

„Valgerður kynntist þessariLanzarote árið 2016 þegar hún sjálf var á námskeiði þar og fann hún hvernig kraftur hennar,  fegurð og friður var bæði gefandi og hvetjandi. Andstæð náttúruöfl, umvefjandi andrúmsloft og ævintýralegt umhverfi gera innri vinnu aðgengilegri. Lanzarote er sérstök að því leyti að ferðamennskan þar er meðvitað og gætilega löguð að náttúrulega umhverfinu, náttúran og menningarhefðir eyjaskeggja hafa forgang og ferðafólk lagar sig að því,“ segir Elísabet.

Hvað finnst þér skipta mestu máli í svona ferðum?

„Að öll þau sem taka þátt fái tækifæri til taka á móti nýjum upplifunum og að það sem unnið er með hreyfi við hverju og einu og að þau fái tækifæri til að hreyfa við öðrum. Við leggjum mikla áherslu á að hópurinn virki vel saman, að öll fái að njóta sín á sinn hátt. Sum hafa unnið með drauma sína lengi og hafa sínar aðferðir við það, en læra þá nýja möguleika og geta dýpkað sig. Önnur eru að taka fyrstu skrefin í að læra að muna og virða draumana og átta sig á því hvernig hægt er að nýta þá í daglegu lífi.“

Hvaða vonir bindur þú við þessa ferð?

„Þar sem síðustu draumaferðir tilLanzarote hafa farið fram úr öllum væntingum varðandi hversu gefandi, nærandi, heillandi og skapandi þær voru, bindum við miklar vonir við þessa ferð. Það er okkar að leggja grunninn, skapa stemninguna og hlúa að öruggu umhverfi, þar sem ólíkar manneskjur með sína ófyrirsjáanlegu drauma geta blómstrað og skapað saman heildarupplifun. Við bindum alltaf vonir við að þau sem koma með okkur vilji þiggja það sem við og umhverfið höfum upp á að bjóða. En svo koma draumarnir og í þeim felast auðvitað mestu töfrarnir,“ segir Elísabet. 

Elísabet og Valgerður eru búnar að þekkjast lengi. Þær hittust fyrst í Námsflokkum Reykjavíkur fyrir áratug þegar þær voru fengnar til að leiða Kvennafræði fyrir Kvennasmiðju, endurhæfingar úrræði fyrir konur.

„Þar komust við fljótt að því að við værum afmælissystur og eftir fyrsta hóp þá fundum við hvað við værum miklar starfssystur. Upphaf Draumsögu kom til okkar, nokkrum árum síðar, í draumi.  Í gegnum árin hafði Valgerður verið með draumanámskeið og leitt draumahópa, og ég hafði verið að vinna markvisst með mína drauma. Í draumnum kom fram að ég ætti að taka við draumahópi sem Valgerður var að leiða og ég var þátttakandi í. Þarna var Valgerður búsett í Reykjavík og var að flytja norður. Svo varð úr að ég tók við hópnum og útfrá því ófum við saman okkar draumaþræði.

Á síðustu árum höfum við í Draumsögu boðið upp á lengra nám, allt að heilum vetri; helgarnámskeið utan þéttbýlis; mörg styttri námskeið; og svo þessar ferðir til Lanzarote, sem hafa alltaf verið í upphafi árs og eru dýrmæt næring fyrir líkama og sál á miðjum vetri. Þetta hefur verið bæði lærdómsríkt og gefandi samstarf, sem hefur dýpkað okkar eigin vinnu með draumana,“ segir Elísabet. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert