Íslendingar óhræddir við sýnatöku á Keflavíkurflugvelli

Komufarþegar í Leifsstöð.
Komufarþegar í Leifsstöð. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Salóme Steindórsdóttir, verkefnastjóri sýnatöku á Keflavíkurflugvelli, segir Íslendinga ekki veigra sér við því að þurfa að fara í skimun við heimkomu eftir ferðalög erlendis. Aðeins sé lítill minnihluti einstaklinga sem óttist það að fara í sýnatöku en það séu þó alltaf einhver örfá frávik.

„Það er stöðugur straumur og hann fer frekar vaxandi heldur en hitt finnst manni,“ segir Ingibjörg, spurð um stöðuna uppi á velli. „Það hafa fáar sem engar uppákomur orðið og allt gengið vonum framar í rauninni.“ 

Haustferðir utan landsteinana eru afar vinsælar um þessar mundir og hefur sætanýting flugfélaganna verið að aukast jafnt og þétt. Það segir mikið til um ferðahug Íslendinga sem segja má að hafi legið í dvala síðustu misseri. Þráin eftir heitu loftslagi og menningar innblæstri annarra þjóða er mörgum hverjum Íslendingnum orðin kærkomin.

Ferðalögum nú til dags geta þó fylgt einhverja kvaðir, frábrugðnar þeim sem áður voru til staðar. Eins og flestum er orðið kunnugt um er Íslendingum sem ferðast til útlanda gert að fara í sýnatöku við komuna til landsins á innan við 48 klukkustundum frá lendingu. 

„Fólk hefur um tvennt að velja. Annaðhvort fer það í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli um leið og það lendir en þeim stendur líka til boða að fara í hraðpróf hjá heilsugæslunni,“ segir Ingibjörg. „Það er allt skráð og því er fylgt eftir. Fólk fær þá nýtt strikamerki í símann sinn og getur farið á sína heilsugæslustöð innan þess tímaramma.“

Ekki mikill kvíði sjáanlegur 

Hafið þið fundið fyrir því að einstaklingar upplifi kvíða við það að þurfa að fara í sýnatöku?

„Nei, ég get ekki sagt að það sé stór hópur sem sé kvíðinn fyrir þessu. Fólk bara fer þarna í gegn og klárar þetta í langflestum tilfellum. Þetta er partur af því að ferðast og eitthvað sem okkur er skylt að gera. En það hefur komið fyrir að fólki finnist þetta óþægilegt og þá erum við alltaf tilbúin til þess að reyna að mæta hverjum og einum og reyna að gera þetta ferli bærilegra. Reynum að tala fólk til og sannfæra það um að það sé ekkert að óttast. Stundum bjóðum við fólki að fara afsíðis, þegar við getum boðið upp á slíkt, og þá ljúkum við þessu af þar. Sumum finnst það betra.“

Ingibjörg Salóme segist nánast geta talið það á fingrum annarrar handar hversu oft það hefur reynst erfitt að fá einstaklinga til þess að fara í sýnatöku á Keflavíkurflugvelli. Langflestir séu samvinnufúsir og hlynntir fyrirkomulaginu þar. Það komi þó stundum fyrir að börn séu smeyk en þegar þau hafa lokið við skimunina eigi þau það til að vera hissa yfir því hversu vel það hafi gengið. Það sama eigi í raun við um þá fullorðnu. Það sé þekkt að ákveðnir aðilar stríði við afmarkaða fælni við ýmis fyrirbæri og að sýnatakan geti flokkast undir slíkt.

„Það hefur komið fyrir að börn taki sér tíma í að vilja að leyfa manni að taka sýnið. En það hefur ekki gerst oft. Það er aldrei betra að bíða of lengi með þetta, það eykur bara á kvíðann. Það er langbest að þeir sem eru kvíðnir fyrir þessu láti okkur vita af því, sama hvort þeir séu stórir eða smáir. Þá reynum við að umgangast þá með öðrum hætti. Margir hafa fóbíur fyrir hinu og þessu, eru hræddir við blóðprufur eða eitthvað svoleiðis. Sýnatakan getur alveg eins verið þannig fyrir einhverja. En ég vil koma því á framfæri að heilbrigðisstarfsfólk er ekki þekkt fyrir það að vilja fólki mein heldur þvert á móti. Við erum að þessu að því okkur er annt um fólk. Það er ekkert að óttast og ég held að fólk viti það. Alla vega er ekki að sjá að Íslendingar séu að neita sér um ferðalög vegna sýnatökunnar,“ segir Ingibjörg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert