Einkaeyjur Epsteins til sölu

Einkaeyjur Jeffrey Epstein eru til sölu.
Einkaeyjur Jeffrey Epstein eru til sölu. AFP

Einkaeyjur kynferðisafbrotamannsins og auðkýfingsins Jeffrey Epstein er nú til sölu. Um er að ræða tvær eyjur, Litla St. James og Stóra St. James, í Karíbahafi en ásett verð er 125 milljónir bandaríkjadala eða rúmir sextán milljarðar króna. 

Lögmaður dánarbús Epsteins staðfestir við BBC að eyjarnar séu til sölu og að nota eigi hagnaðinn af sölunni til að ná sáttum í útistandandi lögsóknum gegn dánarbúinu. 

Epstein keypti smærri eyjuna fyrir um 25 árum síðan á tæpar 8 milljónir bandaríkjadala. Hann keypti stærri eyjuna árið 2016 fyrir 22,5 milljónir og hafði í huga að byggja eyjuna upp. 

Ep­stein lést í fanga­klefa árið 2019 á meðan mál hans beið meðferðar. Hann var sakfelldur árið 2008 fyrir að brjóta kynferðislega á stúlku undir lögaldri. Auk þess hefur hann verið sakaður um mansal og að hafa brotið á tugum kvenna og stúlkna undir lögaldri. 

Var Epstein sakaður um að hafa meðal annars brotið á ungum stúlkum á eyjunni Litlu St. James. Í einu málanna sem höfðað var fyrir tveimur árum sagði 15 ára stúlka frá því að hún hefði reynt að flýja eyjuna með því að synda þaðan, en var hún handsömuð og vegabréf hennar tekið af henni. Fleiri mál tengd Epstein og samverkamanna hans eru sögð hafa gerst á eyjunni. 

Litla St. James í Karíbahafi.
Litla St. James í Karíbahafi.
mbl.is