Falin merking í lógói flugfélagsins

Merki flugfélagsins táknar írska gyðju úr goðafræði og strengjahljóðfærið hörpu.
Merki flugfélagsins táknar írska gyðju úr goðafræði og strengjahljóðfærið hörpu. AFP

Hægt er að sjá margt úr merki írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair. Sumir vilja meina að merkið innihaldi kvenkyns ofurhetju en svo er í raun ekki. 

Bláa og gula flugfélagsmerkið ætti að vera vel kunnugt öllum þeim sem hafa valið að ferðast á ódýran hátt innan Evrópu. Flugvélar Raynair kunna oft að líta áþekkjanlega út og vélar Icelandair en þar er það ráðandi litaþemað sem blekkir augað en vélar beggja flugfélaga hafa hingað til verið hvítar með bláum og gulum merkingum. 

Netverjar hafa undanfarið velt merki flugfélagsins Rayanair fyrir sér og eru skiptar skoðanir um innihald og merkingu vörumerkisins. Margir hafa haldið því fram að um sé að ræða ofurhetju sem býr yfir flugkröftum á meðan aðrir segja það engil og hljóðfærið hörpu sem prýðir vörumerkið, sem gæti þótt skrýtin ágiskun miðað við starfsemina sem Ryanair gegnir. Fljúgandi kona hefur einnig verið algeng getraun netverja en engin af þessum getgátum er í meginatriðum rétt.

Tákn úr goðafræði

Sumar ágiskanirnar eiga þó við einhver rök að styðjast. Saga vörumerkisins á sér langa sögu og nær aftur til uppruna flugfélagsins á Írlands. Flugfélagið var stofnað árið 1984 af Tony Ryan, Liam Lonegran og Christopher Ryan og eru höfuðstöðvarnar staðsettar í Swords á austur Írlandi. 

Af virðingu við Írland ákváðu forsprakkar flugfélagsins á sínum tíma að tileinka írskri goðafræði vörumerkinu. Strengjahljóðfærið harpa er sterkt tákn Írlands og hefur verið frá allt frá 13. öld.  

„Þetta er harpa og einhvers konar kvenkyns skuggamynd. Ég geri ráð fyrir að þetta sé vísun í Ériu Írlandsgyðju og hörpu hennar,“ sagði einn netverji á félagsmiðlinum Reddit á dögunum. Hefur hann á réttu að standa ef marka má frétt frá Daily Star. Vísaði netverjinn til heimilda sér til stuðnings sem komu mörgum á óvart - en sitt sýnist hverjum.  

mbl.is