Hópur kvenna dansaði um Reykjafjörð

Ídýfurnar sýna listir sínar
Ídýfurnar sýna listir sínar Skjáskot

Hópur vinkvenna ferðaðist saman um landið tóku sig til og stofnuðu sunddanshóp sér til skemmtunar. Bjarney Lúðvíksdóttir er ein þeirra, en hún birti myndskeið á Facebook af þessum skemmtilega hóp í Reykjafirði á Ströndum.

„Hvað gera konur sem ferðast í Reykjarfjörðinn á Ströndum og fá fallegustu sundlaug Íslands til afnota!? Nú þær stofna „synchronised swimming“ danshóp og skýra hann “Ídívurnar”, kaupa litríkar sundhettur og æfa dans! Afrakstur þrotlausra æfinga má sjá í þessu myndbandi. Ég vil taka það sérstaklega fram að kríurnar sem bjuggu á sundlaugarbakkanum og voru að verja ungana sína voru ekki par ánægðar með okkur, við lögðum okkur í lífshættu við að taka þetta myndband upp. Fyrir ofan okkur var bólsturský af kríum sem kepptust við að gera árás á litríku kollana okkar og gerðu sér lítið fyrir og skitu á okkur. En við höfum það frá fyrstu hendi að heimamenn voru mjög ánægð með gjörninginn okkar og buðu okkur að koma aftur þegar við værum orðnar örlítið meira frægar,“ skrifar Bjarney á Facebook.

Ídívurnar skipa; Ágústa Sigrún Ágústsdóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Bjork Hakansson, Björk Norðdahl, Elínborg Ragnarsdóttir, Erna Thorarinsdottir, Ingibjörg Gréta Gisladottir, Kolbrún Bergmann Björnsdóttir, Kristín Svanhildur Helgadóttir, Ragnhildur Vigfúsdóttir, Sigridur Emilía Bjarnadottir, Sigríður Sía Jónsdóttir, Sóley Guðmundsdóttir, Ragnheiður Aradóttir, Margrét Birgisdóttir, Anna Björg Petersen, Sara Rut Sigurðardóttir og Bjarney Lúðvíksdóttir.

Sundlaugin sem þær dönsuðu í var byggð árið 1938 og svo endurbyggð árið 1988. Heimamenn hafa hugsað vel um laugina og séð til þess að göngufólk sem á leið í fjörðinn geti notið hennar. 

mbl.is
Loka