Hótaði að snúa vélinni við vegna nektarmynda

Flugstjórinn hótaði að snúa vélinni við á flugbrautinni ef farþegar …
Flugstjórinn hótaði að snúa vélinni við á flugbrautinni ef farþegar hættu ekki að senda nektarmyndir sín á milli. AFP

Hótanir flugstjóra Southwest Airlines á dögunum um að snúa vélinni við ef farþegar hættu ekki að senda nektarmyndir með AirDrop sín á milli hafa vakið talsverða athygli. 

Tilkynning flugstjórans náðist á myndband og hefur farið um víða veröld á Tiktok. Flugstjórinn áminnti farþega rétt fyrir flugtak og sagðist þurfa að snúa við á flugbrautinni og allir þyrftu að fara frá borði. 

„Hvað sem þetta AirDrop-dót er, hættið að senda nektarmyndir og komum okkur til Cabo,“ sagði flugstjórinn.

Óljóst er hvort einhverjir farþegar hafi í raun verið að senda nektarmyndir sín á milli í vélinni í gegnum AirDrop í iPhone símum. Hins vegar bárust fréttir af því í júní á þessu ári að karlmaður í flugi Southwest frá Detroit til Denver hafi sent nektarmyndir í nokkra síma um borð í vélinni. 

Karlmanninum var vísað frá borði en bar hann fyrir sig að „hafa bara verið að skemmta sér smá“.

mbl.is