Svali dvelur á Íslandi um jólin og byrjar með hlaðvarp

Svali ætlar að verja jólunum á Íslandi.
Svali ætlar að verja jólunum á Íslandi. Ljósmynd/Gassi

Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali eins og hann er kallaður, ætlar að byrja nýja árið með trukki en hann vinnu nú að hlaðvarpsþáttum sem munu líta dagsins ljós í janúar. Í þáttunum ætlar hann að tala við allskonar fólk um áhugaverð málefni. Svali, sem er þekkt útvarpsstjarna, flutti til Tenerife 2017 ásamt eiginkonu sinni og börnum en flakkar nú á milli landa. Hann ætlar til dæmis að verja jólunum á Íslandi. 

„Ég er mjög spenntur fyrir að verja jólunum á Íslandi en þetta er í fyrsta sinn í nokkur ár sem við erum á landinu,“ segir Svali. 

Þegar Svali er spurður út í nýja hlaðvarpið segist hann vera að vinna að tveimur ólíkum þáttum. Annars vegar ætlar hann að tala við Íslendinga og hinsvegar fólk sem hefur flutt til Tenerife. 

„Þetta verða nokkrar útfærslur. Fyrst um sinn verð ég með hefðbundið spjall við þá sem mér þykja áhugaverðir og umfram allt skemmtilegir. Ég tek upp bæði hljóð og mynd. Umræðuefni er í rauninni allt sem viðkemur einstaklingnum í spjallinu,“ segir Svali. 

Hér eru Svali og Jóhanna með þrjú af börnum sínum …
Hér eru Svali og Jóhanna með þrjú af börnum sínum árið 2017.

Ertu að flytja heim til Íslands?

„Nei, en ég stefni á að vera meira á Íslandi eða svona 50/50. Ég er líka að fara að taka upp hlaðvarp úti á Tene sem er eingöngu tengt Tenerife. Það verð ég að ræða við þá fjölmörgu sem hafa flutt út. Þar eru allir með sína sögu til að segja,“ segir Svali. 

Þegar Svali og fjölskylda fluttu til Tenerife seldu þau eigur sínar á Íslandi. Þar á meðal íbúðina. Aðspurður hvort þau hafi fest kaup á annarri íbúð hérlendis segir hann svo ekki vera. 

„Við erum í leiguíbúð og ætlum ekkert að stressa okkur á kaupum strax. Vonandi opnast svo tækifæri til þess að kaupa þegar vaxtaumhverfið lagast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert