Fimm tíma gönguveisla um Geldingadali

Það rýkur enn úr hrauninu í Geldingadölum og þar er …
Það rýkur enn úr hrauninu í Geldingadölum og þar er fallegt um að líta. Ljósmynd/Aðsend

Ferðafélag Íslands stendur fyrir skemmtilegri göngu á laugardaginn 19. mars í tilefni af því að eitt ár er liðið frá eldgosinu í Geldingadölum. Fararstjórar eru Tómas Guðbjartsson og Salome Hallfreðsdóttir. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Um er að ræða fræðsluganga að gosstöðvunum sem tekur um fimm klukkustundir og jarðfræðingarnir Magnús Tumi Guðmundsson og Helga Kristín Torfadóttir munu annast fræðslu og svara spurningum sem kunna að vakna á leiðinni.

„Ferðafélagið langaði að marka þessi tímamót að ár sé liðið frá því að gos hófst með því að gera eitthvað skemmtilegt. Við fengum þessa flottu jarðfræðinga til liðs við okkur og þeir munu fræða okkur um allt milli himins og jarðar til dæmis allt um svæðið og eldvirknina þarna. Svo munu þeir svara þeim spurningum sem brenna á fólki. Það má því búast við fimm tíma gönguveislu,“ segir Salome sem segir að það sé virkilega gaman að sjá svæðið núna og hvernig það hefur breyst.

„Margir hafa ef til vill gengið þarna þegar gos var að hefjast og geta því nú upplifað svæðið á alveg nýjan hátt en það hefur breyst mjög mikið. Þetta var svo merkilegur tími því hægt var að komast mjög nálægt gosinu og upplifa það í rauntíma. Nú er hægt að sjá breytingarnar. Ég fór þangað sjálf í febrúar á ferðaskíðum og það var t.d. mjög fallegt að sjá þetta svæði þegar búið er að snjóa eins og núna. Hitaskilin verða svo greinileg. Hraunið er ennþá heitt og sums staðar er enn að rjúka og það er mjög gaman að sjá svæðið í vetrarklæðum.“

Salome segir mikinn feng að fá Magnús Tuma og Helgu Kristínu með í för. 

„Magnús Tumi er mörgum að góðu kunnur en svo er Helga Kristín einnig mjög öflugur vísindamaður. Hún hefur meðal annars slegið í gegn á samfélagsmiðlum undir notendanafninu Geology with Helga, en þar er hún að miðla til fólks miklum fróðleik á mannamáli og er ótrúlega fær. Það er mjög skemmtilegt að fylgjast með henni þar,“ segir Salome.

Salomé Hallfreðsdóttir fór um Geldingadali síðastliðinn febrúar og sagði upplifunina …
Salomé Hallfreðsdóttir fór um Geldingadali síðastliðinn febrúar og sagði upplifunina einstaka. Ljósmynd/Aðsend
Ferðafélag Íslands mun gefa út endurbætt göngu- og örnefnakort af …
Ferðafélag Íslands mun gefa út endurbætt göngu- og örnefnakort af svæðinu og kemur það út á sex tungumálum. Allur ágóði af sölu kortanna rennur til Landsbjargar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert