Mæðgur vinna saman að barnabók

Amelía Nótt Daníelsdóttir er ekkert smá montin af bókinni enda …
Amelía Nótt Daníelsdóttir er ekkert smá montin af bókinni enda ekki á hverjum degi sem fjögurra ára gömul snót gefur út bók með mömmu. Ljósmynd/Aðsend

Veróníka Björk Gunnarsdóttir gaf nýlega út bók í samvinnu við fjögurra ára dóttur sína Amelíu Nótt Daníelsdóttur. Bókin heitir Herra Blýantur og Litadýrð og er um margt óvenjuleg en hún er ætluð yngstu lesendunum til að þekkja liti og form. Veróníka segir að bókin hafi orðið til eftir föndur og sýsl þeirra mæðgna þegar hún gekk með yngra barn sitt.

Síða úr bókinni.
Síða úr bókinni. Ljósmynd/Aðsend

Dóttirin hafði áhuga á litunum og úr varð bók

„Dóttir mín var tveggja ára og nýbyrjuð á leikskóla, þannig að á þeim tíma vorum við mæðgur mjög duglegar að syngja saman litalagið og teikna. Ég var ólétt og komin langt á leið með annað barnið mitt og vorum við Amelía mikið að dúllast saman í rólegheitunum. Eftir því sem hún fór að sýna litum meiri áhuga fórum við að teikna skissur/myndir með blýanti og trélitum þá hluti sem tengjast ákveðnum litum, til dæmis banana sem er gulur. Með tímanum bættust fleiri og fleiri myndir við litina og ég sá fyrir mér að þetta gæti verið ágætis efni í bók. Þá fórum við Amelía að púsla saman myndunum á síðurnar og vinna þetta eins og bók. Dóttir mín var mikið með í ferlinu og ég var dugleg að sýna henni skissur og hvetja hana til að velja úr þeim. Við nefndum svo bókina Herra blýantur og litadýrð,“ segir Veroníka.

Amelía Nótt Daníelsdóttir er metnaðarfull myndlistarkona.
Amelía Nótt Daníelsdóttir er metnaðarfull myndlistarkona. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir markhópinn vera öll börn á leikskólaaldri, en eldri börn hafi sýnt bókinni mikinn áhuga líka, og þá hafa þau sérstakan áhuga á spurningunum aftast í bókinni sem hvetja þau til að leita að ákveðnum myndum í hverjum lit fyrir sig.

Stór harðspjaldabók með svampi í kápunni

„Markmiðið er að kenna krökkum og krílum litina með Herra blýanti á skemmtilegan hátt með því að tengja litina myndrænt við hluti sem þau þekkja. Auk þess vildi ég gefa börnunum bók sem er sérstaklega sniðin fyrir þau, þ.e.a.s. bók sem er stór, með harðspjaldasíðum og svampi í kápunni. Útkoman varð bók sem þolir betur hamaganginn í litlum krílum,“ segir Veróníka. 

Það má segja að Veróníka hafi farið ákveðna krísuvíkurleið í útgáfunni því venjulega leiti fólk til bókaútgefanda vegna bókaútgáfu.

Bókin er ætluðu yngstu lesendunum og kennir þeim á litina …
Bókin er ætluðu yngstu lesendunum og kennir þeim á litina og hvetur þá til að lesa og teikna. Ljósmynd/Aðsend

„Ég ákvað að hafa þetta 100% sjálfsútgáfu. Þetta þýddi að þegar við Amelía vorum búnar að teikna upp bókina færði ég hana sjálf yfir á tölvutækt form og undirbjó hana fyrir prentun. Ég vildi samt hafa myndirnar „upprunalegar“ og passaði mig á að tölvugera þær ekki. Að því loknu leitaði ég að aðila sem gæti prentað harðspjalda bók með svampi í kápunni. Það tók töluverðan tíma og því fylgdu líka mikil tölvupóstssamskipti, og þetta gerði ég yfirleitt á kvöldin og næturnar, með lítinn nýbura á brjósti. En þegar ég var loksins búin að finna aðila tók hann við og sá um prentun og sendingu á bókunum til Íslands.“

Ómetanleg stund að sjá afrakstur allrar vinnunnar

Biðin var býsna löng þar sem bækurnar voru prentaðar í Kína. „Þegar sendingin var svo komin sótti ég tvö vörubretti af bókum niður á höfn. Sú stund var ómetanleg því þarna sá ég afraksturinn af allri vinnunni sem ég lagði í þetta ævintýri. Það sem var erfiðast í ferlinu var fyrst og fremst að ég hafði aldrei gert þetta áður og var bókstaflega að henda mér út í djúpu laugina. Síðan var það að vita hvernig átti að tölvuvinna bókina fyrir prentun þar sem ég hafði enga fyrri reynslu heldur.

Veroníka Björk sá loksins afraksturinn af allri vinnunni þegar hún …
Veroníka Björk sá loksins afraksturinn af allri vinnunni þegar hún sótti farminn niður á höfn. Hún hefur aldrei komið nálægt bókaútgáfu áður og sagði þetta vera mikið lærdómsferli. Ljósmynd/Aðsend

Það er líka dýrara að gefa út sjáfur en að vinna með útgefanda. Ég hugsaði nokkrum sinnum á leiðinni að kannski væri betra að sleppa þessu bara, en ég fann það ekki í mér að gefast upp og hélt alltaf áfram því þetta var nokkuð sem mig langaði virkilega að gera. Og það góða var að ég fékk ráð hjá nokkrum aðilum sem þekktu til bókaútgáfu og þannig gat ég fikrað mig áfram,“ segir Veróníka sem vonandi heldur áfram að sinna yngsta lesendahópnum í framtíðinni. Hún segir að bókin fáist í Eymundsson og einnig er hægt að nálgast hana gegnum Facebook og Instagram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert