„Það jafnast ekkert á við það að vera mamma“

María Builien Jónsdóttir ásamt dóttur sinni, Avelín Emblu.
María Builien Jónsdóttir ásamt dóttur sinni, Avelín Emblu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

María Builien Jónsdóttir, tölvunarfræðingur í Arion banka, er ung sjálfstæð kona sem tekst á við móðurhlutverkið af mikilli auðmýkt. Hún er einnig fósturmóðir og segir dásamlegt að fá að æfa sig í því líka. 

María og Arnar Gunnlaugsson fótboltaþjálfari eiga dótturina Avelín Emblu saman. María er einnig stjúpmóðir tveggja barna Arnars, þeirra Alex Bergmann og Ísabellu. Hún er á því að móðurhlutverkið sé það besta í heimi og það jafnist í raun og veru fátt annað við það að vera mamma.

„Það er ótrúlegt hversu mikið það gefur manni að sjá barnið sitt brosandi og hamingjusamt eða finna litlar hendur halda þéttingsfast um sig og sjá þau læra eitthvað nýtt. Á sama tíma er þetta krefjandi, maður fær óteljandi mörg ,,mammviskubit“. Ég hef oft og tíðum verið svefnvana, sérstaklega þar sem hún var á brjósti í rúm tvö ár. Þá vissi ég ekkert í hvort fótinn ég átti að stíga. Þá er gott að eiga góða að til þess að ráðfæra sig við og ég hef hringt óteljandi oft í mömmu og í eldri systur mína til þess að fá góð mömmuráð. Það er svo annað að vera stjúpóðir en krakkarnir voru komnir vel inn á unglingsárin þegar við Arnar byrjuðum saman. Það hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með þeim taka fyrstu skrefin inn í fullorðinsárin og mér hefur þótt mjög vænt um að þau finni að þau geti leitað til mín með hin ýmsu mál. Það er alls ekki auðvelt að koma inn í fullmótaða fjölskyldu og ég rekst oft á vegg og geri mistök. Ég er hins vegar mjög heppin með að foreldrateymið sem vinnur sérstaklega vel saman í vinsemd og virðingu. Þó það séu ekki alltaf allir sammála, þá er það bara eðlilegt og mestu skiptir hvernig unnið er úr hlutunum. Ég er líka vel meðvituð um að móðurhlutverkið er forréttindi sem ég er endalaust þakklát fyrir að fá að taka að mér. Á sama tíma hefur þetta aukið meðvitund mína enn meira um þau bágu lífskjör sem börn út um allan heim lifa við og hafa meðal annars málefni Unicef snortið mig enn dýpra en hér áður fyrr. Ég hugsa oft á kvöldin hversu heppin dóttir mín er og ég sem mamma hennar. Að hún fái að sofna í heitu rúmi í fullkomnu öryggi, södd og sæl eftir góðan dag. Það er alls ekki sjálfsagt.“

María og Arnar með Avelín.
María og Arnar með Avelín.

Vann á barnaspítala í Los Angeles

María er einnig menntuð sem líffræðingur. Á tímabili bjó hún í Los Angeles þar sem hún vann á barnaspítala.

„Mér bauðst að vinna á rannsóknarstofu hjá dr. Aldrovandi á Children's Hospital í Los Angeles. Þetta var á smitsjúkdómadeild á einum fremsta barnaspítala á vesturströnd Bandaríkjanna. Þetta var mjög dýrmæt reynsla en teymið vann að því að rannsaka bæði HIV-veiruna og samband örveruflóru ungbarna og ónæmiskerfisins. Auk þess að flokka sýni og stimpla inn gögn var ég að aðstoða við sýnatökur bæði á heimilum nýbakaðra mæðra, á gjörgæslu og fæðingardeild og þar sem stór hluti þeirra sem tóku þátt í rannsókninni voru innflytjendur frá fátækari ríkjum kynntist ég alveg nýjum heimi í þessari borg sem hefur verið mitt annað heimili síðan ég var lítið barn. Þessi reynsla hefur líka mótað mig sem móður þar sem ég lærði ýmislegt af öllu því flotta fólki sem ég vann með.“

María segir að meðgangan hafi að mestu leyti gengið vel hjá sér. „Við Arnar vorum búin að plana barneignir og kom dóttir okkar á hárréttum tíma eins og við hefðum pantað hana. Ég fór reglulega í sjúkraþjálfun til snillinganna í Atlas sem hjálpaði mikið þegar grindin byrjaði að gefa sig, en ég var svo heppin að ég gat æft nokkuð reglulega í Mjölni mestalla meðgönguna og leið mér heilt yfir mjög vel þrátt fyrir að vera með reglulega samdrætti frá 20. viku.“

Dóttirin ákvað að drífa sig í heiminn

Hvernig gekk fæðingin?

„Litla daman ákvað að drífa sig og kom þremur vikum fyrir settan dag. Þetta er sá partur sem ég var minnst undirbúin undir enda var nánast ekkert tilbúið. Húsið var búið að vera undirlagt af framkvæmdum og þetta átti að vera síðasti dagurinn minn í vinnunni. Ég hafði kallað til fundar klukkan 9 um morguninn með teyminu mínu til þess að skila af mér verkefnum fyrir orlofið. Ég hafði þó verið með verki um nóttina en ætlaði samt að mæta til vinnu, sem er kannski þessi gamla góða íslenska þrjóska. Arnar stoppaði mig hins vegar af og fékk mig til að kíkja upp á fæðingardeild til að vera viss um að allt væri í lagi. Þarna höfðu verkirnir ágerst og ég fleygði einhverjum barnafötum í tösku, aukabol og buxum á sjálfa mig og því allra mikilvægasta. Fæðingin gekk vel fyrir sig en enginn tími gafst fyrir deyfingar aðrar en kæruleysisgasið enda var ég komin með 7 í útvíkkun þegar ég mætti og stelpan var komin í heiminn fjórum tímum seinna. Hún var lítil eða 2.608 grömm og við tók stíft prógramm að þyngja hana þar sem hún var einnig með gulu. Eftir sólarhringsdvöl á spítalanum fórum við loks heim og fengum síðan yndislegar ljósmæður í heimaþjónustunni. Fyrst tvisvar á dag og síðan daglega. Pabbinn tók líka mjög virkan þátt í að gefa henni úr sondu eftir hverja gjöf en þrír tímar máttu mest líða á milli gjafa og hver gjöf tók um 1,5 tíma svo fyrstu sólarhringarnir einkenndust af hér um bil engum svefni og snerust mikið um næstu vigtun þar sem hverju grammi var fagnað. Allt gekk vel og áður en við vissum af var hún orðin stór og heilbrigð lítil bolla.“

Alex, Ísabella og Avelín.
Alex, Ísabella og Avelín.

Samvinna mikilvæg

Hvernig er að sameina móðurhlutverkið og ferilinn?

„Það er óneitanlega oft pínu snúið. Sérstaklega þegar maður er með mikinn metnað á báðum vígstöðvum. Ég er ennþá að læra að aðskilja þetta tvennt. Sérstaklega á síðustu mánuðum þegar ástandið hefur verið eins og það er. Á sama tíma eru forréttindi að vera í vinnu þar sem vinnutími er sveigjanlegur og hægt er að vinna að heiman ef þess þarf. Þá er hægt að nýta góða veðrið, sem við fáum nú ekki oft hér á Íslandi, sækja fyrr úr leikskóla og eiga góðan dag saman og setjast síðan aftur við vinnuna þegar hún er sofnuð og heimilið komið í ró. Mikill skilningur er gagnvart fjölskyldufólki í vinnunni þó metnaðurinn sé einnig mikill og það er einmitt það vinnuumhverfi sem ég held að æ fleiri vinnustaðir séu að tileinka sér í dag. Ég er líka svo heppin að Arnar hefur nánast alfarið séð um að skutla í leikskólann og sækir hana oft snemma til að fara með hana í Víkingsheimili þar sem hann þjálfar. Hún elskar að fá að hlaupa um fótboltavöllinn. Æfa sig í að rekja bolta og sitja eins og drottning inni á skrifstofunni hans pabba. Ég viðurkenni þó fúslega að stundum er maður hreinlega bara á haus, kvöldmaturinn seinn og ómerkilegur, öll leikskólafötin skítug og þar fram eftir götunum. Ég hef þó komist upp á lagið með það undanfarið að taka 2 mínútur í að senda sjálfri mér ,,to-do“ lista á tölvupóstinn minn fyrir næsta dag áður en ég fer í háttinn. Þannig næ ég að halda utan um alla þá hluti sem ég þarf að gera; hvort sem það tengist vinnu eða einkalífi.“

Þegar María er spurð út í eigin æsku segist hún hafa verið mikil Ronja Ræningjadóttir í sér sem barn.

„Mér leiddist það að greiða á mér hárið og fara í fín föt. Einn morguninn þegar amma var í heimsókn spurði hún mig af hverju náttfötin stæðu upp úr fötunum mínum. Ég spurði hana á móti hver tilgangurinn væri að fara úr þeim? Þar sem ég þyrfti hvort eð er að fara aftur í þau um kvöldið. Það væri þá bara tvíverknaður. Það var sumsé ekkert verið að eyða tímanum í óþarfa, en sem betur fer átti ég stóra systur sem tók stjórnina í sínar hendur og sagði mér alltaf til syndanna þegar ég var ekki vel tilhöfð áður en foreldrar mínir komust í málið.“

Hverjar voru fyrirmyndir þínar þegar þú varst barn?

„Ég las mikið sem barn og átti það til að loka mig af í heimi bókanna. Þá voru allir raunvísindamenn og -konur mínar fyrirmyndir og þó svo að ég hafi á ákveðnum tímapunkti ætlað að stefna annað, þá hefur þetta á endanum alltaf togað aftur í mig.“

Er eitthvað sem þú ert að passa upp á sérstaklega varðandi þitt barn?

„Ég tel að eitt það mikilvægasta sem við getum kennt börnunum okkar séu þau gildi sem skipta okkur máli og ef þau komast til skila, þá reddast hitt. Mismunandi gildi virka fyrir mismunandi fjölskyldur en við Arnar erum blessunarlega nokkuð samstiga í þeim málum. Heilbrigt líferni, hjálpsemi, kurteisi, sjálfstæði, vinnusemi, metnaður og síðast en ekki síst, að vera hlý og góð manneskja. Það skiptir mig virkilega miklu máli að hún læri það að virða alla óháð stétt, stöðu og uppruna. Ég ólst sjálf upp við 5 mismunandi trúarbrögð í æsku og það voru töluð 5 mismunandi tungumál á heimilinu þannig að umburðarlyndi og tillitssemi er eitthvað sem við lærðum snemma að temja okkur. Ég vil einnig kenna henni að setja bæði sjálfri sér og öðrum heilbrigð mörk en það kemur með góðri sjálfsmynd og virðingu að ég tel. Hún er líka mikill dýravinur og tónlistarunnandi og það er mikilvægt að rækta það í henni.“

Langar að kenna dóttur sinni að vera sjálfstæð

María er lánsöm að vera umkringd sterkum og sjálfstæðum konum í stórfjölskyldunni sinni.

„Það er eitthvað sem ég vil leggja rækt við hjá mér og dóttur minni. En eðlilega verður fólkið sem stendur manni næst ákveðnar fyrirmyndir. Pabbi minn var svo heppinn að fá tækifæri til að koma hingað sem flóttamaður frá Víetnam árið 1979, eftir nokkur ár í hernum sem liðsforingi, vinnubúðir og flóttamannabúðir. Hann byggði sér upp sterkan feril sem verkfræðingur hjá Landsvirkjun eftir stutta dvöl og hefur þetta kennt mér að það eru engar afsakanir til að gefast upp. Við sköpum okkur okkar eigin framtíð með dugnaði, vinnusemi og heiðarleika. Þá kynnist þú ekki örlátari og hlýrri konu en mömmu minni. Hún vill engan auman sjá, sama hvað hún hefur sjálf gengið í gegnum, þá er hún alltaf til í að rétta hjálparhönd. Það hefur svo verið ómetanlegt að eiga eldri systur mína að sem er tveggja barna móðir og ég hefði svo sannarlega oft verið á villigötum ef ég hefði ekki átt hana að. Hún er eins og alfræðiorðabók í öllu sem viðkemur börnum og uppeldi. Þá er ekki hægt að sleppa því að nefna ömmu mína sem hefur verið mér eins og stoð og stytta alla tíð og ég hef lært svo óteljandi margt af henni en hún hefur líka alltaf verið til í að lána öxl og eyru án allrar gagnrýni og vil ég vera þannig til staðar fyrir dóttur mína.“

Þegar kemur að því að velja klæðnað á dóttur sína þá elskar María ull, silki og bambus.

„Hust & Claire, Joha, Janus, Fix, Lillelam, Uniqlo og Name it eru merki sem ég sæki mikið í. Hér á Íslandi hef ég svo mest verslað í Next, Ullarkistunni og Lindex ásamt Biomecanics-skónum úr Skórnir þínir. Ralph Lauren-flíkurnar eru líka alltaf klassískar og vandaðar. Annars erum við svo heppin að dóttir okkar er í skólabúningi í leikskólanum og það hefur svo sannarlega einfaldað lífið, þvotturinn minnkar, sparnaðurinn er mikill og við fjárfestum því frekar í gæðaútifötum og undirlagi. Hún hefur líka fengið mikið af fallegum fötum frá frænkum sínum sem eru nokkrum árum eldri og við höfum svo sannarlega nýtt okkur það.“

Hvað með þig sjálfa?

„Ég er helst að vinna með &OtherStories, Cos, Theory, Zara og All Saints í hversdagsfötum, en síðustu ár hef ég frekar viljað kaupa vönduð, klassísk föt sem endast. Ég vil síður kaupa föt sem eru í tísku eitt tímabil og fara illa í þvotti enda er fatasóun einmitt eitt af því sem við sem einstaklingar getum gert betur í til þess að minnka kolefnissporið.“

Stolnar stundir með ástinni mikilvægar

Hvað þykir þér skemmtilegast að gera í lífinu?

„Að eyða tíma með fjölskyldunni, ekki spurning. En vinkonurnar eru líka ansi dýrmætar og það er nauðsynlegt að gefa sér tíma til þess að ná góðum vinkonuhittingi þó það hafi borið minna á þeim upp á síðkastið. Þá er ég nýlega farin að taka lengri göngur en ég var vön með æðislegum hópi og fórum við meðal annars Fimmvörðuhálsinn fyrir stuttu sem var einstaklega skemmtileg upplifun. Svo er fátt skemmtilegra en að villast um í nýrri borg, kynnast menningu og daglegu lífi innfæddra og borða dýrindismat í góðra vina hópi.“

Hvernig ræktarðu ástina eftir að þið eignuðust barn?

„Við eigum oft erfitt með að ná tíma bara tvö ein þar sem vinnum mikið sitt á hvorum tímanum og sú stutta fær oftar en ekki að fljóta með í það sem aðrir myndu kalla „rómantískan dinner“, en það er líka hægt að rækta ástina á svo marga mismunandi vegu. Að vera til staðar og sýna hvort öðru stuðning er klárlega eitt af þeim atriðum. En svo er stundum stolin stund í hádeginu, farið í mat saman eða í þjálfun og þó það sé klisjukennt held ég að það sé mjög mikilvægt að hlæja saman og að koma hreint fram. Það styrkir stoðirnar í sambandinu. Við reynum að vera teymi í öllu því sem við gerum. Sumir dagar eru erfiðari en aðrir en það er líka bara partur af lífinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert