Hvað getur fjölskyldan gert saman um helgina?

Það verður nóg um að vera á höfuðborgarsvæðinu um helgina!
Það verður nóg um að vera á höfuðborgarsvæðinu um helgina! Samsett mynd

Það þarf engum að láta sér leiðast um helgina enda er nóg af hátíðlegri afþreyingu í boði á höfuðborgarsvæðinu fyrir alla aldurshópa. 

Jólamarkaður í Heiðmörk

Töfrandi jólamarkaður verður í Heiðmörk fyrstu þrjár aðventuhelgarnar, en þar er hægt að skoða sig um á handverksmarkaðinum, ylja sér með heitu kakói eða kaffi og velja sér fallegt jólatré svo eitthvað sé nefnt.

Það verður opið á laugardag og sunnudag frá klukkan 12:00 til 17:00. 

Jólamarkaðurinn í Heiðmörk.
Jólamarkaðurinn í Heiðmörk. Eggert Jóhannesson

Baka smákökur

Það er tilvalið að nýta helgina í skemmtilegan bakstur, en á matarvef mbl.is má finna fjölda girnilegra uppskrifta sem munu slá í gegn hjá öllum aldurshópum.

Jólagarðurinn

Í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík er sérstök jóladagskrá fram að jólum á milli klukkan 10:00 og 20:00 frá föstudegi til sunnudags. Það er margt spennandi að gera í garðinumm, en þar er til dæmis boðið upp á piparkökuskreytingar og ratleiki.

Jólalundur í Kópavogi

Guðmundarlundur í Kópavogi breytist í töfrandi jólalund yfir hátíðirnar. Þar er boðið upp á skemmtilega dagskrá fyrir fjölskylduna alla sunnudaga fram að jólum á milli klukkan 13 og 15. 

Það verður jólaball, spurningakeppni, rjúkandi heitt kakó, ratleikir og jólaföndur. 

Sykurskreytt jólaepli

Sunnudaginn 10. desember mun lista- og skreytikonan Sæunn Þorsteinsdóttir kenna gestum Borgarbókasafnsins Árbæ að skreyta epli með sykurmynstrum. Viðburðurinn er á milli klukkan 13:00 og 15:00 og hentar fyrir alla fjölskylduna. 

Jólaþorpið í Hafnarfirði

Jólaþorpið á Thorsplani í Hafnarfirði er opið allar helgar til jóla. Um helgina verður líf og fjör í þorpinu, en á laugardaginn byrjar dagskráin klukkan 11:00 á kórtónleikum í Hafnarborg. Síðan er skemmtileg dagskrá á sviðinu sem endar á jólalest Coke Cola. Á sunnudaginn byrjar dagskráin svo klukkan 11:00 á Jólaballi Fríkirkjunnar á Thorsplani.

Jólaþorpið í Hafnarfirði.
Jólaþorpið í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jólamarkaður í Hlégarði

Laugardaginn 9. desember verður jólamarkaður í Hlégarði Mosfellsbæ. Fjörið verður á milli kluklan 14:00 og 18:00, en auk fjölda sölubása verða uppákomur á sviðinu, jólasveinar á vappi, ristaðar möndlur, heitt kakó, kaffi og að sjálfsögðu piparkökur. 

Fara á skauta

Það fylgir því mikil jólastemning að skella sér á skauta í desember, en þá opnar einmitt hátíðlegt skautasvell á Ingólfstorgi sem er töfrum líkast – með 100 þúsund jólaljósum, jólatónlist, jólaskreytingum og jólaveitingum!

Svellið er opið frá klukkan 12:00 til 22:00 alla daga í desember og í kvöld, föstudaginn 8. desember, mun tónlistarmaðurinn Patrik Atlason, betur þekktur sem Prettyboitjokko, halda uppo stuðinu á svellinu.

Skautasvell á Ingólfstorgi.
Skautasvell á Ingólfstorgi. mbl.is/Árni Sæberg

Aðventuhugleiðsla í Lótushúsi

Sunnudaginn 10. desember verður aðventuhugleiðsla í Lótushúsi í Garðabæ frá klukkan 11:00 til 11:30. Það er mikilvægt að gefa sér tíma til að staldra við í amstrinu sem fylgir jólamánuðunum og því tilvalið að gefa sér tíma til að hlúa að innri frið með hugleiðslu. Eftir hugleiðsluna verður í boði te og smákökur.

Jólamarkaðurinn Hjartatorgi

Á jólamarkaðinum á Hjartatogi í Reykjavík er að finna fjölbreytt úrval af skemmtilegum sölubásum, en það verða einnig ýmis skemmtiatriði á svæðinu. Á laugardaginn verður markaðurinn opinn frá 13:00 til 18:00 og frá 13:00 til 17:00 á sunnudaginn. 

Jólamarkaður á Hjartatorgi.
Jólamarkaður á Hjartatorgi. mbl.is/Árni Sæberg

Jólakósí á Borgarbókasafni Kringlunnar

Laugardaginn 9. desember verður jólakósí í barnadeild Borgarbókasafnsins í Kringlunni á milli klukkan 13:30 og 15:00. Það verður notaleg jólastemning með jólasögum, piparkökum og huggulegheitum. 

Jólaganga í Hafnarfirði

Í Hafnarfirði verður jólaganga fyrir ferfætlinga og fjölskyldur þeirra á sunnudaginn klukkan 12:00. Gangan hefst á bílastæðinu fyrir framan Hafnarfjarðarkirkju og Tónlistarskólann og endar á heimsókn í jólaþorpið. Allir hundar verða að vera í taumi og eru bæði hundar og menn hvattir til að mæta í einhverju jólalegu.

Jólakortasmiðja á Hönnunarsafni Íslands

Sunnudaginn 10. desember verður jólaleg stemning á Hönnunarsafni Íslands í Garðabæ og nóg af pappír, pennum og umslögum fyrir þá sem vilja gera jólakort. Þá verður jólatónlist og heitt súkkulaði á boðstólnum.

Jólaljósagöngutúr í Hellisgerði

Hellisgerði í Hafnarfirði breytist í sannkallað jólaævintýraland yfir hátíðirnar og er skreytt með ótal töfrandi jólaljósum. Það er tilvalið að skella sér í göngutúr um garðinum, en þar er Álfabúðin opin allar aðventuhelgar frá klukkan 12:00 til 17:00 og hægt að gæða sér á álfakakói og piparkökum. 

Jólaljós í Hellisgerði.
Jólaljós í Hellisgerði. Ljósmynd/Hafnarfjordur.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert