„Ekki frábær þegar kemur að því að skipuleggja mig fram í tímann"

Bókin Ég þori! Ég get! Ég vil! er komin í …
Bókin Ég þori! Ég get! Ég vil! er komin í bókabúðir. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Linda Ólafsdóttir myndhöfundur fagnaði útgáfu bókar sinnar, Ég þori! Ég get! Ég vil! í gærdag, á sjálfan kvennafrídaginn. Linda er þekkt fyrir listræna hæfileika sína og hefur myndlýst fjölda bóka sem hafa verið gefnar út hérlendis og erlendis. Hún á tvö börn ásamt eiginmanni sínum, Eggerti Gíslasyni, og ætlar fjölskyldan að njóta vetrarfrísins til hins ýtrasta en á sem rólegastan hátt. 

Ég þori! Ég get! Ég vil!

„Þetta hefur verið annasamur tími en bókin er nú komin í búðir. Hún kom upphaflega út í Bandaríkjunum í mars, þar sem ég vann hana með bandarísku forlagi, í fyrstu. Ég þori! Ég get! Ég vil! kom út á Íslandi hinn 19. október en það var haldið útgáfuhóf í fyrradag í tilefni af kvennafrídeginum,“ segir Linda, en bók hennar fjallar bæði um sögu kvennafrídagsins og baráttu kvenna í gegnum söguna. 

Bókin er fallega myndlýst af Lindu og er sögð henta börnum sex til tólf ára, en aðspurð segir Linda bækur af þessum toga um svona málefni vera fjölskyldubækur fyrir allan aldurshóp. 

Í bókinni er farið yfir sögu kvennafrídagsins og langa baráttu …
Í bókinni er farið yfir sögu kvennafrídagsins og langa baráttu kvenna. Ljósmynd/Linda Ólafsdóttir

„Aðalatriðið er samveran“

Ásamt því að starfa sem myndhöfundur þá er Linda tveggja barna móðir. Sonur hennar, Dagur, er 22 ára, og dóttir hennar, Lára Rún, er 15 ára gömul. Bæði búa þau í foreldrahúsum og er fjölskyldan dugleg að njóta samverustunda. 

Er vetrarfríið að koma aftan að ykkur foreldrunum?

„Ekki í þetta sinn en ég man vel að þegar þau voru yngri þá kom þessi tími oft aftan að manni. Ég er ekki frábær þegar kemur að því að skipuleggja mig fram í tímann og það var nú ekki oft að ég var búin að panta sumarbústað eða álíka í svona fríum," segir Linda og hlær.

Linda ásamt fjölskyldu sinni.
Linda ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Linda Ólafsdóttir

Eru þið með einhver fjölskylduplön í fríinu?

„Bara já og nei. Þau eru auðvitað orðin svo stór í dag, en við sóttum mikið listasöfn þegar þau voru yngri og eyddum hluta úr degi þar. Ég man til dæmis að við heimsóttum Landnámssýninguna og Hvalasafnið saman í vetrarfríinu. Ég var að vísu að vinna að bókum um efnið á þeim tíma þannig að heimsóknirnar nýttust mér sem rannsóknarvinna,“ útskýrir Linda.

Eru börnin teiknarar?

„Þau eru bæði mjög listræn og skapandi, en ekkert endilega teiknarar. Þau eru bæði á fullu í tónlist og Dagur leggur stund á nám í grafískri hönnun. Kannski hafa allar heimsóknirnar á listasöfnin í vetrarfríunum ýtt undir sköpunargleðina,“ segir hún í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert