Kurt Nilsen gestadómari í úrslitum Idol-Stjörnuleitar?

Kurt Nilsen kom sá og sigraði í Heimsstjörnuleitinni yfir hátíðirnar.
Kurt Nilsen kom sá og sigraði í Heimsstjörnuleitinni yfir hátíðirnar.
Undanúrslit í Idol-Stjörnuleit fara fram í Vetrargarði Smáralindar í kvöld og verða vitanlega í beinni útsendingu á Stöð 2. Eins og alþjóð veit þá halda þau enn velli Anna Katrín, Arndís, Jón Sig. og Kalli. En eftir kvöldið standa einungis þrír keppendur eftir sem munu keppa til úrslita næstkomandi föstudag. Í kvöld þurfa keppendur að syngja lög sem valin voru af dómurum; Anna Katrín þarf að syngja "Don't Speak", Arndís Bítlalagið "The Long and Winding Road", Jón Elton John-lagið "Sorry Seems To Be The Hardest Word" og Kalli U2-lagið "I Still Haven't Found What I'm Looking For". Gestadómari kvöldsins verður engin önnur en Birgitta Haukdal úr Írafári.

Löngu er orðið uppselt á undanúrslitakvöldið og ekki nóg með það heldur seldist upp á sjálft úrslitakvöldið á 12 mínútum á miðvikudag. Að sögn Pálma Guðmundssonar markaðsstjóra Norðurljósa hefur áhuginn á því að vera viðstaddur úrslitin verið svakalegur og aðspurður vildi hann því ekki útiloka að viðburðurinn yrði færður til að svara þessum mikla áhuga.

Í úrslitunum munu allir þrír keppendurnir syngja sama lagið og heyrst hefur að verið sé að reyna að fá sjálfan sigurvegara Heimsstjörnuleitarinnar, norska snillinginn Kurt Nilsen, til að vera gestadómari í úrslitunum.

Idol-Stjörnuleitin er á dagskrá Stöðvar 2 kl. 20.30 og Stöðvar 2+ kl. 21.30.