Sumargleðin hefur Innrás innanlands

Tónlistarsjóðurinn Kraumur kynnti í gær áætlun sína um stuðning við tónleikahald innanlands sem ber nafnið Innrásin, þar sem 14 flytjendur verða styrktir til fimm tónleikaferða um landið með Rás 2 og Sumargleði Kimi Records.

„Þó svo að útrás íslenskra hljómsveita á erlendri grund sé af hinu góða, þá mega heimahagarnir ekki gleymast,“ segir Eldar Ástþórsson, framkvæmdastjóri Kraums.

„Tilgangur Kraums er að styðja við ungt tónlistarfólk í landinu og Innrásin hefur það að markmiði að auka möguleika tónlistarmanna til tónleikahalds, sérstaklega á landsbyggðinni, og létta undir öllum kostnaði sem því fylgir. Í kjölfarið fá sveitirnar reynslu og vonandi dyggan aðdáendahóp,“ sagði Eldar.

Fyrsta tónleikaferðin verður Sumargleði Kimi Records, en þar eru á mála hljómsveitirnar Hjalta-lín, Hellvar, Morðingjarnir, Borko, Benni Hemm Hemm og Reykjavík!

Baldvin Esra Einarsson er framkvæmdastjóri og eigandi Kimi Records. Hann segir það mikilvægt fyrir útgáfufyrirtæki af þessari stærðargráðu að komast í slíkar álnir. „Það er mikilvægt að geta skipulagt svona viðburði, til að fá athygli alls almennings, en ekki bara fámenns, en góðmenns vinahóps hljómsveitanna. Það er nauðsynlegt að geta tengst svona sjóði sem hefur álíka vigt og Kraumur,“ segir Baldvin sem óttast ekki hörð viðbrögð frá Ragga Bjarna, Hemma Gunn og öðrum upprunalegum meðlimum Sumargleðinnar. „Nei, nei, ég held að orðið sumargleði sé ekki skrásett vörumerki. Er sumargleði ekki bara hugtak yfir gleðilegt sumar?“

mbl.is