Jóhann G. Jóhannsson bæjarlistamaður Seltjarnarness

Jóhann G. Jóhannsson leikari ásamt Katrínu Pálsdóttur, formanni menningarnefndar Seltjarnarness.
Jóhann G. Jóhannsson leikari ásamt Katrínu Pálsdóttur, formanni menningarnefndar Seltjarnarness.

Jóhann G. Jóhannsson leikari var í dag útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2012. Þetta er í fimmtánda sinn sem Seltirningar útnefna bæjarlistamann, en það var gert fyrst árið 1996 og var það Gunnar Kvaran sellóleikari sem hlaut nafnbótina fyrstur.

„Þetta er mikill heiður að fá þessa nafnbót og ég mun gera það sem ég get til að koma Seltjarnarnesi á kortið og gefa til baka af minni list,“ segir Jóhann sem tók við nafnbótinni við hátíðlega athöfn í Bókasafni Seltjarnarness fyrir stundu, þar sem Katrín Pálsdóttir formaður Menningarnefndar Seltjarnarness afhenti honum heiðursskjal og starfsstyrk. Ár hvert auglýsir Menningarnefnd Seltjarnarness eftir umsóknum um nafnbótina. Listamenn sem hafa framfæri af list sinni og hafa búið á Seltjarnarnesi um tveggja ára skeið geta sótt um og í ár var í fyrsta sinn hægt að tilnefna einstaklinga.

Jóhann fæddist árið 1971 og hefur búið  á Seltjarnarnesi frá 1997. Hann er menntaður listamaður og útskrifaðist frá University of Hartford 1994 með BA-gráðu í leikhús- og kvikmyndafræðum. Aðalstarf Jóhanns er að vera leikari, leikstjóri, handritshöfundur og framleiðandi. Hann hefur fyrst og fremst unnið í leikhúsi en einnig öðrum greinum leiklistar svo sem útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum.

Hann hefur leikið í 18 kvikmyndum og 39 leikverkum, komið að 18 verkefnum í sjónvarpi auk ýmissa annarra verkefna á sínu sviði svo sem leikstjórn og handritsgerð Stundarinnar okkar, Morgunstundarinnar okkar og Sagnanna okkar fyrir RÚV.

Jóhann hefur fengið tvenn Grímuverðlaun á ferlinum. Annars vegar fyrir leikritið 39 þrep sem sett var upp af Leikfélagi Akureyrar og hins vegar fyrir leikritið  Abbababb sem sett var upp í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Einnig naut hann þess heiðurs að vera valinn úr fjölda leikara erlendra og innlendra til að leika í mynd Clints Eastwoods í framleiðslu Warner Bros, Flags of Our Fathers.

mbl.is