Binda endi á lekamál

Auglýsingar fyrir síðustu þáttaröð Game of Thrones.
Auglýsingar fyrir síðustu þáttaröð Game of Thrones. AFP

Til þess að halda söguþræðinum í nýjustu þáttaröð Game of Thrones eins leyndri og mögulegt er hefur HBO gripið til örþrifaráða. Sjónvarpsstöðin hyggst ekki senda eintök af þáttunum til fjölmiðla áður en þeir eru frumsýndir.

„Við ætlum ekki að senda út fjölmiðla-eintök í ár, nokkurs staðar í heiminum,“ sagði dagskrárstjóri HBO Michael Lombardo við Entertainment Weekly. Lombardo sagðist telja að fjölmiðlar myndu skilja ákvörðunina og að skaparar sjónvarpsþáttanna, David Benioff og D.B. Weiss hefðu talað fyrir þessari nýrru herkænsku til að koma í veg fyrir leka og spilliefni (e. spoilers).

Fjölmiðlar fá yfirleitt eintök af þáttum og kvikmyndum til að eiga auðveldara með að skrifa dóma eða upprifjanir. Eins og Huffington Post bendir á þá geta fjölmiðlar sjálfum sér um kennt þar sem fjölmiðlaeintök af fyrri hluta fimmtu þáttaraðarinnar láku á veraldarvefinn í fyrra. Þannig var ljóstrað upp um ýmsa mikilvæga hluta þáttanna og þeim spillt fyrir milljónum aðdáenda.

Aðdáendur í leit af spilliefni hafa þó úr nógu að spila. Plaköt af sprelllifandi Jon Snow hafa þegar sprottið upp víða, myndir hafa komið fram sem sýna óvænta óléttu og þess utan hefur ýmislegt lekið af tökustað.

Þeir sem eru að drepast úr spenningi geta einnig huggað sig við að nákvæmlega þannig vill George R.R. Martin hafa það.

mbl.is