Frá ballarbeltum til Beyoncé: Fimm femínísk poppkorn

Drottningin Beyonce sveik ekki aðdáendur sína á árinu 2016 frekar …
Drottningin Beyonce sveik ekki aðdáendur sína á árinu 2016 frekar en fyrri daginn. AFP

Þó að margir vilji gleyma því að 2016 hafi nokkru sinni átt sér stað verður að segjast að það hafði í för með sér ýmislegt ágætt. Femínískir popp-hápunktar ársins voru fjölmargir, jafnvel fleiri en hægt er að telja, en það er vel þess virði að draga nokkra fram til að hugga sig við á þessum síðustu og verstu.

Ruglað ár Reykjavíkurdætra

Á árinu sem leið gáfu Reykjavíkurdætur út sína fyrstu plötu, hlutu glimrandi dóma fyrir framkomu sína á Airwaves, ræddu við fjölmarga af helstu tónlistarmiðlum heims og frelsuðu rímurnar sem og „geirurnar“ við fögnuð þúsunda gesta á Roskilde Festival. Ekki slæmt það.

Stærsta opinbera augnablik þeirra átti sér þó stað í Vikunni með Gísla Marteini, sællar minningar, þar sem þær skóku mjaðmir og beltisböll framan í hrekklausa áhorfendur í setti og sófa. Stórum hluta þjóðarinnar þótti gjörningurinn ósæmilegur en annar hluti sá hann sem valdeflandi. Í raun varð sú svívirðing sem beindist að dætrunum aðeins til þess að dreifa boðskap þeirra enn frekar og hvetja ungar konur til óþekktar.

Hver á að hamra á feðraveldinu ef ekki íslensk rappkvendi?
Hver á að hamra á feðraveldinu ef ekki íslensk rappkvendi? mbl.is/Eggert

Ef undirritaðri skjátlast ekki ætla dæturnar að leggja land undir fót á nýju ári og vonandi hneyksla þær heimsbyggðina. Hver á annars að hamra á feðraveldinu ef ekki þrettán íslensk rappkvendi?

Límonaði drottningarinnar

Það er óhætt að segja að Beyoncé hafi stolið senunni á Ofurskálinni þar sem hún flutti í fyrsta skipti lagið „Formation“ opinberlega. Með dönsurum klæddum í stíl við uppreisnar- og mannréttindahópinn Svörtu pardusana og sterka sósu í töskunni sprengdi hún umræðuna um það hvort „svört líf skipti máli“ upp á gátt. Hún lét þó ekki þar við sitja heldur færði heiminum fljótlega femíníska (ef eilítið markaðsvædda) límonaði-gjöf.

Lemonade er einstakt listaverk, bæði fyrir eyru, augu og sál. Hver annar en Beyoncé gæti dregið fram persónulega þjáningu innan gullslegins forrréttindalífsstíls og endurspeglað í henni undirokun allra þeirra kynslóða svartra kvenna sem á undan komu? Kallað fram marglaga reiði, sorg, sátt og upphafningu í svo fáum orðum?

Enginn hefur hlotið eins margar tilnefningar til Grammy-verðlaunanna og drottningin en enn sem komið er hefur hún ekki unnið fyrir plötu ársins. Ef það er ekki komið að því nú hljótum við að klappa Kanye á svið.

Beeflugan stingur

Þeim sem segjast sækja fréttir til grínista og kvöldþáttastjórnenda fer fjölgandi. Það eru slæmu fréttirnar. Góðu fréttirnar eru þær að frá og með 2016 er Samantha Bee meðal umræddra grínista.

Grínistinn Samantha Bee er hárbeitt og hjólar í Trump.
Grínistinn Samantha Bee er hárbeitt og hjólar í Trump. AFP

Full Frontal with Samantha Bee hefur hlotið verðskuldað lof fyrir að draga ekkert undan í sótsvartri samfélagsgagnrýni. Hennar var ein háværasta og beittasta röddin í kórnum sem reyndi að kæfa Trump og þó það hafi ekki tekist stendur hún enn, sterk sem áður, og grillar hann og alla þá menn og málefni sem misbjóða henni, okkur hinum til skemmtunar.

Bee er því miður eina brauðið í troðfullu pulsupartíi kvöldþáttastjórnenda, enn sem komið er. Haldi hún áfram sínu striki munu þó sjónvarpsstöðvarnar vonandi brátt söðla um og finna fleiri sterkar konur í kvöldþáttastöður.

Árið hennar Övu

Leikstjórinn Ava DuVernay þótti illa svikin þegar hún hlaut ekki tilnefningu fyrir Selmu á sérlega hvítþvegnum Óskarsverðlaunum árið 2015. DuVernay lét það þó lítið á sig fá og rúllaði þess í stað árinu 2016 upp svo um munaði. Hún framleiddi þáttaröðina „Queen Sugar“ þar sem allir leikstjórarnir eru konur og sló rækilega í gegn með heimildarmyndinni 13th en hún fjallar um hvernig réttar- og fangelsiskerfið í Bandaríkjunum vinnur gegn svörtu fólki.

Leikstjórinn Ava DuVernay vakti mikla athygli á liðnu ári.
Leikstjórinn Ava DuVernay vakti mikla athygli á liðnu ári. AFP

Margir vilja þó meina að eitt mikilvægasta afrek DuVernay á árinu sé hinsvegar það að hún varð fyrsta þeldökka konan til að leikstýra stórmynd sem hefur yfir 100 milljónir Bandaríkjadala í fjárhagsáætlun. Svo eru næstu Óskarsverðlaun nú bara handan við hornið.

Þar sem allir eru „keen“(varúð: textinn inniheldur spilliefni)

Norsku unglingarnir í Skam trylla nú ungt fólk um allan heim og skyldi engan undra, þættirnir eru dáleiðandi. Undan ýmsu er þó hægt að kvarta, ef maður endilega vill. Til að mynda snýst líf þeirra Vilde, Noora, Eva, Sana og Chris kannski fullmikið um stráka og þær láta þá hafa of mikil áhrif á sig. Líklega gefur það hinsvegar ansi góða mynd af því hvernig það er að vera ung stúlka í Fuccboy-heimi. Öllu undarlegra val þykir undirritaðri að Sönu og öðrum múslimastúlkum í þættinum sé gefin klisjan um reiðu svörtu konuna, en vonandi verður kafað dýpra í líf þeirra í næstu þáttaröðum.

SKAM. Kannski RÚV ætti að huga að framleiðslu á svipuðu …
SKAM. Kannski RÚV ætti að huga að framleiðslu á svipuðu efni um íslenska unglinga?

Þegar upp er staðið eru allar stúlkurnar sterkar, einstakar og ólíkar en kunnuglegar persónur sem lifa í rauninni voðalega venjulegu lífi og styðja hver aðra án þess að úr því sé gert stórmál. Það, í heimi brjálæðislegra útlitsstaðla og endalausrar sjónvarpsdramatíkur, er stórmál. Það að #squadgoals séu norskar táningsstúlkur en ekki Kardashian-klanið er eitthvað sem allir ættu að geta fagnað.

Önnur ástæða fyrir því að Skam ratar á þennan lista snýr svo að unglingsdrengnum Isak sem er aðalhetja nýjustu þáttaraðarinnar. Femínismi er eftir allt marglaga og tekur til hverskonar jafnréttisbaráttu og sagan af því hvernig Isak kemur út úr skápnum er einstök í vestrænu sjónvarpi. Nú er bara að spenna greipar og vona að Ríkisútvarpið íhugi framleiðslu á sambærilegu efni um unga Íslendinga.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson