Ástfangin á Íslandi og nú trúlofuð

Rose Leslie og Kit Harington felldu saman hugi á Íslandi.
Rose Leslie og Kit Harington felldu saman hugi á Íslandi. AFP

Fyrir nokkrum árum felldu Game of Thrones-stjörnurnar Kit Harington og Rose Leslie saman hugi undir stjörnubjörtum himni á Íslandi. Skötuhjúin eru enn yfir sig ástfangin og hafa nú ákveðið að ganga í það heilaga.

„Landið er fallegt, norðurljósin eru töfrandi og þar varð ég ástfanginn. Ef þú laðast að einhverjum, sem síðan leikur ástarviðfang þitt, er afar auðvelt að verða ástfanginn,“ sagði Harington á sínum tíma í viðtali.

Fregnir herma að skötuhjúin hafi nú fest kaup á stærðarinnar sveitasetri á Englandi, en samkvæmt frétt Buzz hyggjast þau gifta sig á næstunni.

„Þau hafa enn ekki ákveðið dagsetningu, en hafa þó greint fjölskyldu og vinum frá því að þau séu trúlofuð. Kit hefur lengi vitað fyrir víst að hann vilji giftast Rose. Hann vildi þó fyrst að þau myndu kaupa sér hús og koma sér fyrir,“ er haft eftir ónefndum heimildamanni.

mbl.is