Gríðarlega þakklát og spennt

Anna Þorvaldsdóttir tónskáld.
Anna Þorvaldsdóttir tónskáld. mbl.is/Kristinn

„Ég er gríðarlega þakklát og mjög spennt að takast á við þetta verkefni,“ segir Anna Þorvaldsdóttir, en í gær var tilkynnt að hún hefur verið útnefnd staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) til næstu tveggja ára. Hún tekur við af Daníel Bjarnasyni, sem hefur gegnt stöðunni síðustu þrjú ár. Þegar blaðamaður náði tali af Önnu í gær var hún stödd í Kaupmannahöfn þar sem hún tekur þessa dagana þátt í nútímatónlistarhátíðinni NJORD Biennale, en Anna er staðartónskáld hátíðarinnar í ár.

Samkvæmt upplýsingum frá SÍ verður hlutverk Önnu margþætt. Hún mun semja ný tónverk fyrir hljómsveitina, auk þess sem hljómsveitin mun flytja önnur nýleg verk Önnu, m.a. hljómsveitarverkið Metacosmos sem Fílharmóníuhljómsveit New York-borgar frumflytur undir stjórn Esa-Pekka Salonen í apríl. „Hljómsveitin mun einnig hljóðrita verkið fyrir bandaríska forlagið Sono Luminus, en nýr hljómdiskur SÍ þar sem m.a. var að finna verk eftir Önnu hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda. Anna mun einnig eiga sæti í verkefnavalsnefnd SÍ og vera í forsvari fyrir tónskáldastofuna Yrkju, sem er samstarfsverkefni SÍ og Íslenskrar tónverkamiðstöðvar og miðar að því að veita ungum tónskáldum reynslu í að semja fyrir sinfóníuhljómsveit,“ segir í tilkynningu.

„Það er mjög mikilvægt að geta verið í samstarfi við SÍ með fókus á nýja tónlist,“ segir Anna og bendir á að með samstarfinu muni SÍ koma að stórum verkefnum sem hún er að skrifa fyrir erlendar hljómsveitir.

„SÍ verður þannig hlutaðeigandi að verkunum og stefnan sett á að flytja þau hér heima,“ segir Anna og tekur fram að hún hlakki einnig til að taka sæti í verkefnavalsnefnd hljómsveitarinnar. „Það verður mjög áhugavert og spennandi að fá að vera hluti af þeirri nefnd,“ segir Anna og bendir á mikilvægi þess að í nefndinni heyrist ólíkar raddir, m.a. frá tónskáldum sem hafi innsýn í tónlistarsenu samtímans.

Gaman að geta deilt víðtækri reynslu

Um aðkomu sína að Yrkju segir Anna: „SÍ hefur á undanförnum árum staðið fyrir frábæru starfi með Yrkju fyrir yngri tónskáld. Það stendur mér mjög nærri og mér finnst mikilvægt að fá að taka þátt í því starfi. Sjálfri reyndist mér ómetanlegt þegar ég var yngri að geta leitað í reynslubrunn annarra þegar kom að tónsmíðum, því að semja fyrir sinfóníuhljómsveitir og fóta sig í tónlistarbransanum til að skilja hvernig kerfin virka. Það er gaman að geta deilt víðtækri reynslu jafnt sem reynslu á sviði tónsmíða.“

Í tilkynningu frá SÍ segir að Anna sé eitt virtasta tónskáld samtímans og hafi hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir tónlist sína. Verk hennar eru flutt reglulega víðsvegar um heim og hafa hljómað á tónleikastöðum og hátíðum eins og Mostly Mozart-hátíðinni í New York, í Walt Disney Hall í Los Angeles og í Kennedy Center í Washington DC. Anna var handhafi Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2012, hlaut verðlaunin Kravis Emerging Composer Prize frá Fílharmóníuhljómsveitinni í New York 2015, og fyrr á þessu ári hlaut hún tvenn verðlaun frá Lincoln Center: Emerging Artist Award og The Martin E. Segal Award.

Anna hefur sent frá sér þrjár plötur, sem allar hafa hlotið góðar viðtökur. Rhízoma var m.a. valin á lista yfir bestu plötur ársins 2011 hjá TimeOut New York og TimeOut Chicago. Aerial, sem kom út hjá Deutsche Grammophon árið 2014, var valin á fjölda lista yfir bestu plötur ársins, t.a.m. hjá The New Yorker Magazine og iTunes Classical. In the Light of Air var m.a. valin á lista yfir bestu plötur ársins hjá Alex Ross hjá The New Yorker og hjá The New York Times.

Spurð hvort einhver verðlaun eða plata hafi öðrum fremi hjálpað henni að koma sér á tónlistarkortið, svarar Anna: „Þegar ég horfi til baka sé ég ekki beinlínis einn ákveðinn vendipunkt, þótt vissulega auki verðlaun og slíkt sýnileika tónlistarinnar og þannig hefur hver og ein viðurkenning auðvitað áhrif sem síðan safnast saman. En það snýst auðvitað allt um það að vinna mikið að tónsmíðunum,“ segir Anna, sem hefur nóg að gera því hún er bókuð út árið 2021 með tónsmíðapöntunum.

Ráðningin brýtur blað í sögu SÍ

„Það hefur verið magnað að fylgjast með þeirri alþjóðlegu athygli sem íslensk samtímatónlist og tónlistarmenn hafa verið að fá síðustu misseri,“ segir Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri SÍ. „Anna á þar stóran hlut að máli en ferill hennar er einstaklega glæsilegur. Margar af helstu sinfóníuhljómsveitum heims hafa pantað og frumflutt eftir hana verk, auk þess sem hún hefur hlotið fjölda alþjóðlegra viðurkenninga og verðlauna,“ segir Arna Kristín og bendir á að að mati tónlistargagnrýnanda Washington Post sé Anna talin ein af 35 áhrifamestu og mikilvægustu klassísku kventónskáldum 20. og 21. aldar. „Það er mikill fengur fyrir SÍ að fá Önnu til liðs við sig og við bindum miklar vonir við samstarfið. Tilkoma Önnu brýtur blað í sögu hljómsveitarinnar en hún er fyrsta konan sem mun starfa með hljómsveitinni sem staðartónskáld. Það er aldeilis kominn tími til,“ segir Arna Kristín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson