Telur dóttur sína vera dauðhrædda

Pabbi Meghan telur hana vera dauðhrædda.
Pabbi Meghan telur hana vera dauðhrædda. AFP

Faðir hertogaynjunnar af Sussex, Thomas Markle, sagði í viðtali við The Sun að hann sæi það á dóttur sinni að hún væri dauðhrædd. „Ég held hún sé dauðhrædd. Ég sé það í augum hennar, ég sé það á andliti hennar og ég sé það á brosinu hennar,“ sagði Thomas. Hann segist þekkja brosið hennar og séð hana brosa í gegnum árin. Núna segir hann hana brosa af angist.

Sviðljósið hefur stöku sinnum beinst að Thomas Markle síðan dóttir hans giftist inn í konungsfjölskylduna í vor. Þá leiddi hann dóttur sína ekki upp að altarinu vegna heilsu sinnar og var ekki viðstaddur brúðkaupið. Nokkrum vikum eftir brúðkaupið fékk hann greitt fyrir viðtal í sjónvarpsþættinum Good Morning Britain. 

Thomas Markle sagði einnig í viðtalinu við The Sun að hann hafi ekki talað við Meghan og Harry síðan daginn eftir brúðkaupið þeirra, 19. maí. Það eru því tæpir tveir mánuðir síðan feðginin töluðu saman, en Thomas segir að hún svari ekki þegar hann hringir í símanúmerið hennar sem hún var með fyrir brúðkaupið.

mbl.is