„Ljóðið er mitt líf“

„Ljóðið er mín heild í lífinu. Ljóðið er mín staðfastasta …
„Ljóðið er mín heild í lífinu. Ljóðið er mín staðfastasta fylgikona og fyrir þá fylgd er ég óendanlega þakklát,“ segir Steinunn Sigurðardóttir skáld. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég sé það á sumum bókunum mínum að þær eru mjög innblásnar af biblíumáli,“ segir Steinunn Sigurðardóttir, sem sent hefur frá sér ljóðabókina Að ljóði munt þú verða. Tvö ár eru síðan hún sendi frá sér ljóðabókina Af ljóði ertu komin og því liggur beint við að spyrja hvort hún hafi meðvitað lagt drög að ljóðaþríleik með vísun í texta moldunar. 

„Mér vefst tunga um höfuð þegar ég á að segja hvað er meðvitað og hvað ekki. Oft koma hlutirnir bara til mín og ég gríp þá,“ segir Steinunn og bendir á að titlarnir passi einstaklega vel við hana, þar sem hún hafi byrjað að yrkja þegar hún var unglingur. „Ljóðið er mitt líf. Mér finnst ég gerð úr orðunum sem ég sýsla með, hvort sem það er í ljóðum eða skáldsögum,“ segir Steinunn og tekur fram að hún hugsi aðeins eina bók í einu og því sé hún ekki enn farin að leiða hugann að næstu bók.

„Varðandi trúarþemun þá þakka ég guði fyrir það að hafa fengið menningarlegt trúaruppeldi, því það er okkur nauðsynlegt til að skilja menningarlegar vísanir og tákn í textum og málverkum, svo ekki sé talað um tónverkin. Þetta trúarlega menningarlæsi hefur ekkert með trúarbrögðin eða trúna að gera.“

Líf á hreyfingu

Líkt og í fyrri bókum þínum eru ástin, dauðinn og tíminn fyrirferðarmikil þemu, en samtímis kveður við nýjan tón.

„Ég vil meina að í þessari bók kveði við allt annan tón miðað við það sem ég hef verið að gera áður. Það fer til dæmis mikið fyrir sólinni í þessari bók, en hún kemur með skáldkonunum,“ segir Steinunn og vísar þar til kafla sem nefnist: „Skáld konur í sólinni“. „Mér verður sífellt meira umhugað um að það sé varðveitt það sem skáldsystur mínar gera vel, eins og Gabrielle Roy og Edith Södergran.

Ég verð æ meira handgengin mínum skáldsystrum, bæði innlendum og erlendum, eftir því sem líður á bæði hvað varðar lestrarupplifunina og svo finn ég auðvitað fyrir því að þær standa höllum fæti. Þær fá minni athygli og minni lestur og eru í miklu meiri hættu á því að sökkva í gleymsku heldur en dauður karlrithöfundur. Það er almennt miklu minni samstaða um verk kvenrithöfunda – því miður. Það er vegna þess að karlar stjórna bókabransanum og þeir halda með sínum og konurnar eru að öðru jöfnu ekki nógu öflugar til að standa vörð um sínar kynsystur,“ segir Steinunn og þakkar fyrir hvað bókmenntafræðingarnir Helga Kress og Dagný Kristjánsdóttir hafi verið duglegar að draga fram í dagsljósið skáldverk kvenkyns rithöfunda á borð við Ragnheiði Jónsdóttur og Málfríði Einarsdóttur.

Annar kafli bókarinnar nefnist „Farandljóð“ og þar undir eru „Tvær skekkjur frá Japan“ og „Kínversk tvenna“. Hvað getur þú sagt mér um þennan kafla bókarinnar?

„Í ljóðum mínum er ég mjög mikið á hreyfingu. Það er í stíl við mitt líf. Ég hreyfi mig mikið milli staða, hef á síðustu árum verið að flytja milli borga og landa. Þegar ég er á Íslandi bý ég á Selfossi þannig að þegar ég ætla að koma til Reykjavíkur verð ég að flytja mig yfir heiðina. Þessi hreyfing hentar mér mjög vel. Ég held að hún sé einn liður í átaki gegn stöðnun og ég held að mitt líf og rithöfundalíf hafi meira eða minna verið eitt átak gegn stöðnun. Ég lít svo á að enn sem komið er hafi ég yfirhöndina gegn stöðnunardraugnum. Ef það er eitthvað sem ég er virkilega hrædd við þá er það að festast í sama farinu,“ segir Steinunn og bendir á að ljóðin úr austurátt séu splunkuný.

„Elstu ljóðin í bókinni eru um tíu ára gömul. Ég á alltaf mikinn stafla af ljóðum, því ég er sífellt að yrkja meðfram öllu öðru sem ég geri. Mér finnst nauðsynlegt að ljóðin mín fái að liggja í pækli. Stundum geri ég ekkert meira við þau þó að ég breyti yfirleitt einhverju smá. En mér finnst pækillinn svo áríðandi. Þegar ég yrki um eitthvað sem ég hef upplifað, hvort heldur það er dásamlegt eða hræðilegt, þá yrki ég ekki um það daginn eftir heldur kannski eftir tvö ár. Mér finnst ég þurfa ákveðna fjarlægð,“ segir Steinunn og tekur fram að yngstu ljóðin í bókinni séu hins vegar samin á þessu ári.

Sælan að skrifa ljóð

„Þar er um að ræða japönsk og kínversk ljóð sem eru innblásin af bók sem Þorsteinn [Hauksson] minn gaf mér með teikningum eftir japanska meistarann Katsushika Hokusai. Þetta veitti mér svo mikinn innblástur að ég fór að yrkja upp úr því. Í raun má segja að það sé tilviljun sem ráði því hvenær mér finnst vera komin einhver þannig heild að það sé tímabært að senda frá sér ljóðabók,“ segir Steinunn og bætir við: „Þegar ég tala um heild þá er ég ekki að tala um að bókin sé ein heild, heldur að það sé ákveðin heild innan hvers kafla. Ég treysti því að það sé einhver samfella í stemningu bókarinnar, ósýnilegur þráður sem heldur þessu saman. Samt eru ljóðin allt frá því að vera fjögurra lína örmynd sem brugðið er upp yfir í að vera lengri ljóð sem er nokkurs konar heimsósómi,“ segir Steinunn og tekur fram að sér finnist gaman að geta brugðið sér milli ólíkra forma.

Í ljósi orða þinna áðan um að ljóðið væri líf þitt liggur beint við að spyrja hvort þér finnist aldrei erfitt að senda frá þér ljóð þín?

„Að sumu leyti kemst þetta upp í vana – en þó ekki. Þetta er mjög góð spurning, því ég er ekki viss um að ég hefði þorað að senda frá mér fyrstu tvær ljóðabækur mínar sem komu út 1969 og 1971 ef ég hefði ekki verið stödd á annarri eyju,“ segir Steinunn og rifjar upp að hún hafi verið í háskólanámi í Dublin þegar fyrstu ljóðabækur hennar komu út. „Vegna fjarlægðarinnar var ég stikkfrí,“ segir Steinunn og tekur fram að hún upplifi sig miklu berskjaldaðri í ljóðunum en í skáldsögum sínum.

„Í skáldsögunum notar þú sjálfa þig sem viðfangsefni á alls konar hátt sem lesanda gæti ekki órað fyrir. Það er að sumu leyti svolítið skrýtið að maður láti hafa sig út í það að vera afhjúpaður með þeim hætti sem ljóðið gerir. Það að semja löng prósaverk er mjög mikil pína sem jaðrar við masókisma. Fyrir mér felst hins vegar sæla í því að skrifa ljóð,“ segir Steinunn og bætir við að hún sé þakklát fyrir að ljóðaskrifin myndi órofinn þráð gegnum líf hennar frá unglingsárum til dagsins í dag.

„Ljóðið er mín heild í lífinu. Ljóðið er mín staðfastasta fylgikona og fyrir þá fylgd er ég óendanlega þakklát,“ segir Steinunn og tekur fram að í skáldskapnum finnist henni hún mun andlega skyldari pólsku skáldunum Zagajewski, Szymborska og Milosz en norrænum skáldum. „Það er eitthvað í hugsanaganginum og húmornum. Ég var að lesa nýjustu ljóðabók Zagajewski, sem er góður kunningi minn. Hann yrkir um foreldra sína á stórkostlegan og persónulegan hátt,“ segir Steinunn og tekur fram að bók hans hafi kveikt hjá henni löngun til að lýsa í ljóði eigin foreldrum, sem bæði eru látin. „Það munu ekki líða níu ár þar til ég sendi frá mér mína næstu ljóðabók!“

Viðtalið við Steinunni Sigurðardóttur birtist í Morgunblaðinu 1. nóvember. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kemst ekki upp með neitt þessa dagana og á því að leggja spilin á borðið. Treystu innsæi þínu og láttu það eftir þér að gera það sem þig langar.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Jojo Moyes
5
Moa Herngren
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kemst ekki upp með neitt þessa dagana og á því að leggja spilin á borðið. Treystu innsæi þínu og láttu það eftir þér að gera það sem þig langar.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Jojo Moyes
5
Moa Herngren