Sjálfstraustið mikilvægast

Elísabet Ronaldsdóttir er tilnefnd til fagverðlauna kvikmyndaklippara í Bandaríkjunum.
Elísabet Ronaldsdóttir er tilnefnd til fagverðlauna kvikmyndaklippara í Bandaríkjunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elísabet Ronaldsdóttir hefur klippt á fimmta tug kvikmynda, stuttmynda, heimildarmynda, sjónvarpsþátta og -mynda á ferli sínum sem spannar nú yfir 20 ár. Á undanförnum sex til sjö árum hefur hún klippt Hollywood-myndir í dýrari kantinum, kvikmyndir með þekktum kvikmyndastjörnum og má þar nefna John Wick, Atomic Blonde og nú síðast Deadpool 2 en fyrir þá síðastnefndu hlaut hún nýverið tilnefningu til Eddie, verðlauna samtaka kvikmyndaklippara í Bandaríkjunum, auk þeirra Dirk Westervelt og Craig Alpert sem tóku við verkefninu eftir að Elísabet veiktist alvarlega af krabbameini. Hún er nú blessunarlega laus við meinið og sneri aftur í klippiherbergið til að ljúka við Deadpool 2, hasargamanmynd sem segir af ódrepandi ofurhetju, hinum kjaftfora Deadpool.

Hér má sjá stiklu fyrir Deadpool 2:

Blaðamaður hitti Elísabetu í Vesturbænum fyrr í þessum mánuði en hún býr að mestu erlendis starfs síns vegna.

Aðeins meiri lúxus

Elísabet hefur klippt bæði hér á landi og erlendis og blaðamanni leikur forvitni á því hvort mikill munur sé á því að klippa íslenskar kvikmyndir og erlendar og þá sérstaklega Hollywood-myndir, líkt og hún hefur nú gert nokkrum sinnum. „Nei, vinnan er sú sama en það er alls konar lúxus í kringum að klippa úti sem er ekki hérna heima; það eru betri laun og betri aðstæður að mörgu leyti en ég nota sama forritið og allt þetta fólk sem ég vinn með vill segja sögu,“ segir Elísabet.

Hún segist reyna að fylgja ákveðinni áætlun þegar kemur að klippingu og tímaplani. „Ef við sjáum að við erum ekki að ná henni þarf að breyta einhverju eða gera eitthvað til að það sé hægt. En myndir hérna heima eru fjármagnaðar á annan hátt en úti, hér eru þetta skattpeningar sem koma úr Kvikmyndasjóði en úti eru þetta prívat peningar. Og þegar þetta eru prívat peningar, hvort heldur þeir koma frá stúdíói eða einstaklingum, vill fólkið sem leggur til fjármagnið hafa meira að segja um verkið. Að því leyti er þetta öðruvísi, valdapíramídinn er annar.“

Elísabet með leikaranum Ryan Reynolds í búningi ofurhetjunnar Deadpool.
Elísabet með leikaranum Ryan Reynolds í búningi ofurhetjunnar Deadpool.

Góð hrynjandi mikilvæg

– Einn leikstjóri vill taka hvert atriði upp 50 sinnum en annar vill gera það tíu sinnum. Það hlýtur að bitna á þér?

„Já, auðvitað er þetta alla vega. Sumir leikstjórar eru skipulagðari en aðrir og allt hefur sína kosti og galla og maður tekur því bara eins og það er,“ svarar Elísabet og segist hafa átt í góðu samstarfi við alla þá leikstjóra sem hún hefur unnið með. „En auðvitað hefur maður lent í bæði erfiðum aðstæðum og auðveldum og það getur ýmislegt gert vinnuna erfiða en í mínu tilfelli hefur það aldrei verið leikstjórinn,“ bætir hún v ið.

En hver er galdurinn við góða klippingu? „Það er mjög persónubundið en það sem skiptir mig máli er góð hrynjandi í frásögn, að fá söguna til að fljóta vel þannig að allir skilji, án þess að maður sé að mata fólk, og fá karakterana sterka, ná þeim í gegn,“ svarar Elísabet. Blaðamaður telur líklegt að fólk taki frekar eftir slæmri klippingu en góðri og Elísabet virðist vera á sama máli. „En það er mjög fyndið að þá er það alltaf klipparanum að kenna en ef myndin er góð er það alltaf einhverjum öðrum að þakka,“ segir hún sposk og bætir við að ef fólk eigi erfitt með að fylgja ákveðnum takti í frásögninni þýði það ekki endilega að myndin sé illa klippt. Fólk geti til dæmis verið illa fyrir kallað þá stundina eða mismóttækilegt fyrir því sem fyrir augu ber.

Vörumerkið skekkir myndina

Elísabet segir aðsókn að kvikmyndum sýna að sagan þurfi ekki endilega að vera áhugaverð eða góð til að fólk kaupi sér bíómiða. Oft snúist hún einfaldlega um vörumerki, „brand“ eins og það heitir á ensku og ofurhetjumyndir gott dæmi um slíkt. Fólk fari í bíó út af aðdáun sinni á tiltekinni persónu og söguheimi hennar, t.d. Deadpool.

Elísabet segir þetta ákveðið vandamál þegar komi að prufusýningum á kvikmyndum, t.d. þeirri sem haldin var á Deadpool 2. Fólk hafi fengið að vita hvaða kvikmynd ætti að sýna þegar það var búið að koma sér fyrir í bíósalnum og fagnað myndinni ógurlega. Þannig hafi allir verið ofboðslega glaðir og í miklu stuði áður en sýningin hófst. „Fólk var í adrenalínvímu að horfa á tveggja klukkustunda langa mynd og svakalega ánægt á eftir. Stúdíóið hafði aldrei séð svona tölur áður og það er svo erfitt að eiga við þetta því allir urðu rosalega glaðir, héldu að myndin væri bara tilbúin en mér fannst við ekki hálfnuð,“ segir Elísabet. Lítið sé því að marka viðbrögð gesta á slíkum prufusýningum og varasamt að treysta á þau.

Mjög hröð vinnsla

„Það er mjög flókið að eiga við þessa stóru „blockbustera“,“ segir Elísabet og á þar við kvikmyndir sem líklegar eru til að mala gull í miðasölu, kvikmyndir á borð við Deadpool 2, „og ég er búin að gefa þá upp á bátinn.“ Hún segir annan galla á slíkum kvikmyndum vera hversu hratt þær séu unnar. Þá séu framleiðendur lafhræddir um að þær leki á netið og vilji koma þeim sem fyrst í bíó.

„Þú sérð að myndin var tekin upp sumarið 2016 og við frumsýndum hana um páskana 2017. Þetta er geggjuð keyrsla á mynd sem er með svona mörgum tæknibrellum,“ segir Elísabet og nefnir sem dæmi að andlitinu á Deadpool hafi til að mynda verið breytt með tölvutækni. „Þannig að þetta var mikið álag og stress,“ segir hún.

– Er erfiðara að klippa kvikmyndir með svo mörgum tæknibrellum?

„Það er öðruvísi. Það þarf að gera allt í góðri samvinnu við „visual effects“ gæjana,“ svarar Elísabet og bætir við að vinnslan sé afar lagskipt og lögin ótalmörg.

Elísabet á vinnustofunni með kvikmyndina Reykjavík - Rotterdam eftir leikstjórann …
Elísabet á vinnustofunni með kvikmyndina Reykjavík - Rotterdam eftir leikstjórann Óskar Jónasson í tölvunni árið 2008. mbl.is/Ómar Óskarsson

Betur sjá augu en auga

Elísabet hefur kynnst nokkrum kvikmyndastjörnum í starfi sínu og þremur mjög vel, þeim Ryan Reynolds sem leikur Deadpool, Charlize Theron sem lék í aðalhlutverkið í Atomic Blonde og Keanu Reeves sem lék í John Wick en öll komu þau að framleiðslu kvikmyndanna og fylgdust því með vinnslu þeirra eftir að tökum lauk.

Síðastnefnda kvikmyndin, hefndartryllir með miklum blóðsúthelllingum og hasar, sló óvænt í gegn.

„Við fengum alveg að vera í friði með þá mynd því enginn átti von á því,“ segir Elísabet um hinar óvæntu vinsældar og það sama megi segja um Atomic Blonde en í henni má finna magnað slagsmálaatriði, margra mínútna langt, sem lítur út fyrir að vera ein löng taka. Svo er þó ekki, að sögn Elísabetar, og kemur þar til list klipparans. Elísabet segir að þar sem Theron sé stórstjarna og verðmæt eftir því hafi hún alls ekki mátt rúlla niður tröppur eða leggja sig í hættu yfirleitt. „Tryggingafélagið sagði bara nei,“ segir Elísabet og því hafi áhættuleikkona tekið mesta hasarinn að sér.

Elísabet var viðstödd tökur á þessu tiltekna atriði og segir hún það hafa hjálpað til þegar kom að því að klippingu. Hún ber leikstjóra myndarinnar, David Leitch, vel söguna. „Hann er svo opinn fyrir tillögum, fyrir þátttöku,“ segir hún og að hún hafi m.a. bent honum á hvað mætti betur fara þegar kom að kvikmyndatökunni, þ.e. hvað mætti betur fara út frá sjónarhorni klipparans. „Betur sjá augu en auga,“ bendir Elísabet á.

Hér má sjá stiklu fyrir Atomic Blonde: 

Egóinu strokið

Við víkjum talinu að Eddie-verðlaununum fyrrnefndu og segir Elísabet tilnefninguna mikinn heiður. „Ég er náttúrlega tilnefnd með tveimur öðrum því ég var í fjóra mánuði á sjúkrahúsi, það þurfti að ráða aðra klippara til að halda vinnunni áfram,“ segir hún. Hún hafi svo haldið áfram þegar heilsan leyfði.

Elísabet hefur fimm sinnum verið tilnefnd til Edduverðlauna og hefur hlotið þau þrisvar. Hún er spurð að því hvernig verðlaun leggist almennt í hana, bæði að vera tilnefnd og hljóta þau og segir hún þau vissulega hvatningu. „Þetta peppar mann upp þegar maður hangir stundum algjörlega á nöglunum. Þetta er líka einmanalegt starf,“ svarar hún og líkir kvikmyndaverkefnunum við börn sem hún hafi tekið í fóstur.

„Maður gerir sitt besta og ferlið vekur mestan áhuga hjá mér. Verðlaunaafhendingar eru svona egó-klapp því það er enginn að halda því fram að sú kvikmynd sem fær verðlaun fyrir bestu klippingu sé endilega sú best klippta heldur einfaldlega hvatning til þess að fólk kíki í þessa átt. Maður eyðir öllu árinu einn inni í þessu herbergi,“ bendir Elísabet á og hlær að einverunni, að enginn komi að sjá hana og blaðamanni dettur í hug leikurinn „Ein ég sit og sauma“. Kannski litla músin kíki stundum í heimsókn?

Elísabet með leikstjóra Atomic Blonde, David Leitch, við upptökur á …
Elísabet með leikstjóra Atomic Blonde, David Leitch, við upptökur á samtali þeirra um gerð myndarinnar. mbl.is

Varð ástfangin af ferlinu

Elísabet nam kvikmyndagerð í London Film School og lagði sérstaka áherslu á kvikmyndatöku og út á hana gekk lokaverkefnið hennar. Að loknu námi fór hún strax að vinna fyrir sér, framan af sem aðstoðartökumaður hjá Karli Óskarssyni. „Ég tók reyndar upp eitt vídeó með Aha í London,“ segir hún sposk og á þar við norsku poppsveitina margfrægu. Sjá má af svip hennar að það var mikið fjör.

En hvenær hófst þá klippiferillinn?

„Í rauninni þegar Kalli Óskars og þeir komust að því að ég væri gengin sex eða sjö mánuði á leið með annan son minn. Ég var að setja upp ljós, klifra upp vinnupalla og svona,“ segir Elísabet sposk. Körlunum hafi þótt óþægilegt að horfa upp á þetta og sent hana inn í klippiherbergi hjá fyrirtækinu Sýn sem framleiddi m.a. þættina Maður er nefndur. „Ég varð bara ástfangin af klippiferlinu, fannst það ótrúlega skemmtilegt og þetta gerðist allt á réttum tíma,“ rifjar Elísabet upp. Þá varð ekki aftur snúið. Seinustu myndir Elísabetar, þær sem hafa verið gerðar í Hollywood, eru allar hasarmyndir og segist hún ekki vilja fá þann merkimiða á sig að vera eingöngu hasarmyndaklippari.

„Mér er alveg sama hvort þetta er ástarsaga eða eitthvað annað,“ segir Elísabet, klippilistin snúist um ákveðinn takt.

Hún segist hafa ákveðnar áhyggjur af hlutverki klipparans nú um stundir. „Það er að verða sífellt tæknilegra og ég er ekki tæknimanneskja, ekki frekar en rithöfundur er tæknimaður,“ segir Elísabet. Hún sé sögumaður, ekki tæknimaður. „Ástæðan fyrir því að það eru til svona rosalega margar illa klipptar bíómyndir er að þar hafa verið einhverjir tæknigaurar á ferð,“ bætir hún við. Góðir klipparar þurfi að hafa brennandi áhuga á kvikmyndagerð og sinni starfi sínu af ástríðu.

Ólík sjónarhorn

En getur hún gefið dæmi um illa klippta kvikmynd og vel klippta?

Elísabet svarar því til að þegar hún sé að kenna kvikmyndanemum mæli hún með því að þeir horfi á illa klippta sjónvarpsþætti eða kvikmyndir. Og þar sé af nógu að taka.

„Horfðu bara á The Bold and the Beautiful, það er viss taktur í þáttunum sem höfðar til fólks. Fólk hefur mismunandi sjónarhorn á kvikmyndir og sumir geta horft á, að mínu mati, ömurlegar kvikmyndir af því búningarnir eru æðislegir eða leikararnir skemmtilegir eins og Ryan Reynolds er í Deadpool 2. Auðvitað er myndin skemmtileg en það er ekki mér að þakka!“ segir Elísabet og hlær.

„Ég átti erfitt með að yfirgefa klippið á Deadpool 2 og fannst ég ekki ná að klára það sem ég vildi gera en ég er líka haldin alvarlegri þráhyggju!“ segir Elísabet og hlær. Hún bendir á að klipparinn sé að vinna bæði með eigin tilfinningar og annarra og að starfið sé því snúið og flókið en líka afar skemmtilegt og gefandi.

„Það mikilvægasta sem klippari þarf að hafa er gott sjálfstraust og það brotnaði dálítið upp úr því hjá mér af því ég varð svo veik og taugakerfið var ekki alveg upp á sitt besta. Þannig að ég hafnaði því að fara með David [Leitch] í næstu mynd sem hann er að kvikmynda núna, ég þurfti að komast aftur upp á þennan hest. Ég klippti því tvo þætti í Netflix-seríu og ætla að taka að mér litla gamanmynd í L.A.,“ segir Elísabet að lokum.

Hér má að lokum sjá stiklu fyrir John Wick:

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu það ekki bíða að segja þeim sem þú elskar hversu miklu máli þeir skipta þig. Einhver sýnir sinn innri mann og það kemur þér ekki á óvart.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu það ekki bíða að segja þeim sem þú elskar hversu miklu máli þeir skipta þig. Einhver sýnir sinn innri mann og það kemur þér ekki á óvart.