Örlögin leiddu þau saman í Berufirði

Fanný Dröfn Emilsdóttir leikur í Thriller sem leikfélag ME frumsýnir …
Fanný Dröfn Emilsdóttir leikur í Thriller sem leikfélag ME frumsýnir um næstu helgi. ljósmynd / Kox/Myndsmiðjan

Fanný Dröfn Emilsdóttir er á öðru ári í Menntaskólanum á Egilsstöðum en leikfélag skólans frumsýnir söngleikinn Thriller á laugardaginn í leikstjórn Ísgerðar Elfu Gunnarsdóttur. Fanný rakst á Ísgerði á tónleikum í Berufirði í sumar og án þess að þekkja hana spurði hún Ísgerði hvort hún vildi leikstýra leikfélagi ME í vetur. 

Fanný segir að hún og vinir hennar hafi alist upp við að horfa á Ísgerði leika í Stundinni okkar. „Hey, ert þú ekki Snæfríður í Stundinni okkar?“ sagði Fanný við Ísgerði eftir að þau sáu hana á tónleikum í Havarí.

„Hún tók okkur rosa vel og ég sá að henni þótti mjög vænt um að við komum til hennar, við enduðum svo á að tala lengi saman um allt og ekkert. Einhvern veginn fóru samræðurnar út í það að Ísgerður hafi leikstýrt úti á landi. Um leið og hún sagði það datt upp úr mér: „Þú ættir bara að koma og leikstýra okkur á næsta ári“,“ segir Fanný. Ísgerður tók strax vel í hugmyndina þrátt fyrir að vera í fullu starfi hjá RÚV og formaður leikfélagsins líka. 

„Það fyndna við þetta er það að ákvörðunin um að fara á tónleikana var skyndiákvörðun bæði hjá okkur og Ísgerði þannig að það má segja að örlögin hafi leitt okkur saman. Við bjuggumst aldrei við því að finna leikstjórann okkar á tónleikum í Berufirði. 

Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir fyrir miðju ásamt hópnum sem hún hitti …
Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir fyrir miðju ásamt hópnum sem hún hitti í Berufirðí sumar.

Thriller-söngleikur ME fjallar um krakka í menntaskóla sem eru að bugast undan álagi eftir að skólakerfinu var breytt í þrjú ár. Fanný segir söngleikinn auk þess fjalla um klíkuskap, einelti og sjúk og sæt ástarsambönd.  

Eru þrjú ár of stuttur tími til þess að standa sig vel í menntaskóla og njóta þess að vera ungur?

„Já algjörlega og þannig er þetta verk í raun tilkomið. Við skrifuðum náttúrulega verkið sjálf og í byrjun spurði Ísgerður okkur hvað skipti okkur máli og hvað við vildum segja. Þetta er mjög erfitt og margir ósáttir við breytinguna. Okkur er sagt að þetta séu bestu ár lífsins en í raun og veru erum við öll að drukkna í lærdómi og þá er erfitt að finna tíma til að njóta þeirra. Við í ME erum í áfangakerfi og ég finn sjálf fyrir mikilli pressu á að þurfa að útskrifast á þremur árum þó að ég gæti tekið það á lengri tíma. Tilfinningin er sú að ef maður myndi vera lengur en þrjú ár væri eins og maður væri tossi sem er kannski gróft til orða tekið en það er samt alveg þannig,“ segir Fanný um þriggja ára námið. 

Lög Michael Jackson eru í aðalhlutverki. Nú er mikil umræða um Jackson út af heimildarmyndinni sem var að koma út, hafið þið í leikfélaginu eitthvað rætt það?

„Ó já. Ísgerður kom og hélt námskeið áður en ferlið hófst formlega. Eftir það heyrðum við af þessari mynd og sumir fóru að hafa miklar áhyggjur af því að fólk myndi ekki mæta á sýningu með Michael Jackson-lögum. Við sögðum Ísgerði frá þessum áhyggjum okkar þegar hún kom og við stjórnin ákváðum í sameiningu við hana að spyrja hópinn strax fyrsta daginn hvort þau vildu frekar nota önnur lög. Við vorum ekki byrjuð á handritinu svo það var ekki of seint að breyta því ef hópurinn vildi. Það var ein sem var á námskeiðinu sem hafði ákveðið að vera ekki með, en allir sem höfðu ákveðið að vera með og voru mættir voru sammála um að lögin eru skemmtileg og við vildum ekki breyta þessari ákvörðun. 

Við erum ekki að nota textana hans og verkið fjallar ekki um hann að neinu leyti. Við vitum auðvitað ekkert hvað gerðist þarna og hvernig sem þetta var er þetta sorglegt mál. Við erum ekki að taka neina afstöðu með eða á móti honum með þessu verki. Það er búið að vera pínu skrítið að þurfa að pæla í kynferðisbrotamáli heimsþekktrar poppstjörnu í samhengi við hressa menntaskólasýningu úti á landi. Það að hún væri svo sýnd á RÚV í frumsýningarvikunni okkar var líka ekki það heppilegasta. Við gerðum grín að því við Ísgerði hvort RÚV væri að hefna sín á okkur fyrir að stela henni austur með þessari tímasetningu. Spurning hvað dagskrárstjóri RÚV segir um það.“

Hvað er það besta við að vera í menntaskóla á Egilstöðum?

„Það sem mér finnst best við ME er fyrst og fremst spannarkerfið, þar sem önn er skipt niður í tvær spannir. Þá tekur maður þrjá áfanga á hvorri spönn, klárar þá og tekur svo næstu þrjá í staðinn fyrir að taka 6 áfanga yfir önnina.

Auðvitað er þetta síðan gott fyrir þá sem búa á fjörðunum að hafa skólann nálægt og geta búið á heimavist. Bæði þroskandi að flytja að heiman en vera samt í vernduðu umhverfi og að þurfa að sjá um sig sjálfur. Það hefur alla vega verið mér til góðs þar sem ég er frá Djúpavogi. Það að búa með vinum sínum er náttúrulega bara geggjað,“ segir Fanný að lokum. 

Leikararnir í Thriller.
Leikararnir í Thriller. ljósmynd / Kox/Myndsmiðjan
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson