Lítur ekki út eins og alvöruprins

Ungi drengurinn trúði ekki að Harry væri alvöruprins.
Ungi drengurinn trúði ekki að Harry væri alvöruprins. AFP

Harry Bretaprins varð fyrir óskemmtilegri uppákomu í skóla í London í vikunni þegar ungur aðdáandi spurði hvenær alvöruprinsinn kæmi. Harry heimsótti St. Vincent-leikskólann í London í vikunni.

Fjögurra ára drengur í skólanum trúði ekki sínum eigin augum þegar hann hitti Harry og spurði kennarann sinn hvenær alvöruprinsinn kæmi. Harry svaraði að sögn People að hann hefði verið í klippingu. Drengnum unga var ekki skemmt og spurði aftur hvenær raunverulegi prinsinn kæmi. Kennarinn útskýrði það svo að börnin héldu að alvöruprinsar væru með kórónu.

Harry hefur áður lent í svipuðum uppákomum í gegnum tíðina. Hann sagði í viðtali við People árið 2016 að börn yrðu oft fyrir vonbrigðum þegar þau hittu hann. Hann sagði að börn teldu að hann ætti að ganga um með kórónu eða skikkju til að sýna að hann er alvöruprins.

mbl.is