Úr svefnherberginu á stærsta sviðið

Eilish þegar hún kom fram á Grammy-verðlaunaafhendingunni á dögunum.
Eilish þegar hún kom fram á Grammy-verðlaunaafhendingunni á dögunum. AFP

Fáir hafa náð að koma með jafn miklum látum inn í alþjóðlegt tónlistarlíf og bandaríska tónlistarkonan Billie Eilish. Auðvitað er erfitt að tala um konu í hennar samhengi þar sem hún er rétt nýorðin nítján ára gömul og platan hennar WHEN WE ALL FALL ASLEEP; WHERE DO WE GO? var gerð á árunum 2016-2019. Hún var sum sé fimmtán ára gömul þegar fyrstu upptökur voru gerðar.

Auðvitað er fullt af unglingum að gera tónlist heima hjá sér og aldur einn og sér gerir upptökurnar ekki merkilegar. Frekar sú staðreynd að platan og lög af henni fengu á dögunum fimm Grammy-verðlaun. Í flokkunum besta platan, besta sungna popp-platan, upptaka ársins, lag ársins var lagið bad guy“ og sjálf var hún valin besti nýi listamaðurinn.

Í raun væri hægt að eyða miklu púðri í að skrifa bara um öll verðlaunin sem platan hefur fengið. Þeir sem hafa áhuga á þeim lestri eru hvattir til að kíkja á Wikipediu-færsluna um verðlaunin sem Eilish hefur hlotið. Það er furðulega langur lestur. Verðlaun eru eitt en hlustun er annað og platan hefur náð toppi vinsældalista í 22 löndum og á þessu tæpa ári síðan platan kom út hefur „bad guy“ verið streymt 1.160 milljón sinnum, sum sé 1,16 milljarðar spilana bara á Spotify.

Á Youtube er talan 740 milljónir spilana og þessar tölur hækka verulega með hverri vikunni sem líður. Það er óhætt að slá því föstu að Billie Eilish sé langheitasti tónlistarmaður samtímans. Sjálfur man ég ekki eftir annarri eins innkomu í tónlistarbransann síðan Nirvana sneri honum á hvolf fyrir þrjátíu árum.  

Líkindin með Billie Eilish og Kurt Cobain eru ekki augljós …
Líkindin með Billie Eilish og Kurt Cobain eru ekki augljós en þó má finna eitt og annað sem þau eiga sameiginlegt. Samsett mynd

Það er því eðlilegt að spyrja hvað valdi þessum ótrúlegu vinsældum. Sjaldan er það bara tónlistin ein og sér sem nær að vekja athygli af þessu tagi á tónlistarfólki. Á þessu sviði er ímyndin ekki lítið atriði. Ég man eftir fyrsta samtalinu um Eilish við unglinginn á heimilinu fyrir tæpu ári þar sem mér var tjáð að Eilish væri þunglynd. „Já, OK,“ sagði ég og hugsaði með mér að þeir væru nú nokkrir unglingarnir sem myndu falla í þann flokk á einhverjum tímapunkti. Og eðlilega þar sem það er verðugt verkefni fyrir hvern sem er að átta sig á tilverunni á þessum árum.

Teenage angst has paid of well,söng Kurt Cobain á In Utero, annarri breiðskífu Nirvana, og vísaði í yfirþyrmandi vinsældir Nevermind. Plötunnar sem gerði hann að einum frægasta manni heims við upphaf tíunda áratugarins. Eilish með grænu strípurnar sínar og kæruleysislegt yfirbragðið er nefnilega ekki ólík týpa og Cobain var. Þótt hann hafi óneitanlega verið reiðari og hrárri og hljóðheimurinn sé gjörólíkur. „I wanna end me,“ syngur Eilish í smellnum lágstemmda „bury a friend“. Sjálfur samdi Cobain lagið „I hate myself and want to die“. Yngri kynslóðirnar eru mikilvægasti hlustendahópurinn og þær tengja vel við hádramatískan tóninn. Einn og sér fer hann ekki langt en þau Cobain og Eilish eru og voru bara „með’etta“ eins og einhver myndi orða það.

Útsetningarnar á plötunni eiga stóran þátt í vinsældum Eilish en bróðir hennar Finneas O’Connell á stóran þátt í því. Platan er tekin upp í svefnherberginu hans í Los Angeles þar sem Billie sat á rúminu hans á meðan hún söng lögin inn og bætti við röddunum. Mun erfiðara eða útilokað hefði verið að ná fram sömu nálægð í tónlistinni hefðu systkinin farið í hljóðver til að taka upp.

Platan líður algerlega áreynslulaus í gegn og án tilgerðar þar sem hlustandinn fær oft á tilfinninguna að Eilish sé að hvísla lögin í eyrun á honum. Og er það ekki það sem þetta snýst allt saman um? Að kalla fram tilfinningar hjá hlustendum, skapa tengingar og augnablik í hlustuninni? Það væri áhugavert að sjá hvert hlutfallið er hjá þeim sem hlusta í heyrnartólum eða eyrnahylkjum (e. earpods) af þessum hlustunum sem skipta milljörðum. Þar sem hlustandinn er einangraður í þessum hljóðheimi þar sem lágstemmd smáatriði fá mikið vægi. Áherslan á nálægðina er mikil. Öndunin hjá Eilish heyrist gjarnan greinilega og ekki myndu allir upptökustjórar sem eru vanari meiri dívum leyfa smellunum í munninum að heyrast eins og oft er raunin. Hljóðblöndunin á plötunni er einfaldlega mikið listaverk og öllum hljóðum er fundinn hárréttur staður.  

Uppskeran af svefnherbergisupptökunum er ágæt. Billie Eilish Pirate Baird O'Connell …
Uppskeran af svefnherbergisupptökunum er ágæt. Billie Eilish Pirate Baird O'Connell og Finneas Baird O'Connell með Grammy-verðlaunin sem þau fengu á dögunum. AFP

Tækjabúnaðurinn sem þau Eilish og O’Connell höfðu til umráða við gerð plötunnar er til þess að gera fábrotinn og ódýr. Eitthvað sem flestir sem hafa áhuga á að gera tónlist hafa ráð á að eignast. Þarna réðu tveir unglingar ríkjum og gerðu hlutina nákvæmlega eftir eigin höfði og sú tilfinning skilar sér í tónlistinni. Þannig hefur Eilish náð að verða einn af lykillistamönnum sinnar kynslóðar.

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan gefur Finneas innsýn í það hvernig þau nálguðust gerð plötunnar í fábrotnu svefnherberginu sínu.   


       

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú finnur til einmanaleika og einangrunar. Biddu um aðstoð, það er engin skömm að því. Börnin krefjast athygli þinnar sem aldrei fyrr.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Ragnar Jónasson
3
Sólveig Pálsdóttir
4
Moa Herngren
5
Jojo Moyes