Laugardagskvöld í sófanum. Aftur.

Kamelljónið David Bowie svífur yfir tónleikasal árið 1974 og flytur …
Kamelljónið David Bowie svífur yfir tónleikasal árið 1974 og flytur Space Oddity. Það ágæt uppskrift að laugardagskvöldi að horfa á tónleikaupptökur á netinu. Skjáskot

Laugardagskvöld í sófanum. Aftur. Það er þó algjör óþarfi að láta sér leiðast. Á youtube er líklega nægt safn tónleikaupptökum með mögnuðu tónlistarfólki sem gæti dugað okkur fram á næsta árþúsund. Vandinn getur þó verið að velja úr réttu tónleikana því margt er símadrasl eða í slökum gæðum og með vondu hljóði.  

Hér er safn nokkurra magnaðra tónleika tekið saman af manni sem er með svarta beltið í tónleikaglápi í sófanum. Góð heyrnartól eru skilyrði til að njóta greinarinnar.

Talking Heads í Róm 1980

Við byrjum á kraftmikilli bombu frá einni allra bestu tónleikasveit sem hefur komið fram. Líklega myndu harðir aðdáendur velja Stop Making Sense tónleikamyndina sem sneri hugmyndum fólks um hvað væri hægt að gera á tónleikum á hvolf. Þessir tónleikar eru aðeins hrárri en sýna vel galdurinn sem var í gangi hjá sveitinni á þessum tíma. Þarna var sveitin að fylgja eftir Remain in Light plötunni og í ótrúlegu formi. Við fyrirgefum ítölsku myndatökumönnunum fyrir að reyna að afklæða Tinu Weymouth bassaleikara með myndavélum sínum. Hún var funheit og nokkrir áratugir í #metoo.  

The Cure 1989 - Disintegration í heild sinni

Rétta augnablikið til að sjá Cure. Nýtúberaðir og nýbúnir að skella í eina bestu plötu áratugarins. Fyrstu lögin á tónleikum eru mikilvæg og byrjunin á þessum tónleikum sem voru að ég held í París er ein sú svakalegasta sem ég hef séð. Rosalegt dæmi. 

Nina Simone í Montreux 1976

Því miður er ekki til nægilega mikið af upptökum með elsku Ninu á netinu en þessi er góð og sýnir hversu ótrúlegur listamaður hún var. Hún var líka ólíkindatól sem heldur manni alveg á brúninni allan tímann og það er greinilegt að áhorfendur vita varla hvaðan á sig stendur veðrið þegar hún byrjar að lesa yfir fólki á milli laga eða jafnvel í miðju lagi. Þeir sem eiga eftir að sjá myndina um hana á Netflix ættu að bæta úr því hið snarasta og þá skilur maður betur hvaðan þessi ótrúlega frammistaða kemur. Gæðin gætu verið meiri, en hægt er að finna einstök lög af tónleikunum sem búið er að hreinsa til og bæta þau.   

David Bowie flytur Space Oddity árið 1974

Svífur yfir áhorfendum og syngur eitt besta lag allra tíma í síma. Það þarf varla að hafa fleiri orð um það.

Þaktónleikar Bítlanna 1969

Bítlarnir voru náttúrulega fyrst og síðast frábær hljómsveit. Í janúar 1969 skelltu þeir sér upp á þak Apple-plötufyrirtækisins og töldu í. Eflaust er búið að skrifa doktorsritgerð um þýðingu tónleikanna sögufrægu af einhverjum Bítlasagnfræðingnum en umfram allt er bara gaman að sjá strákana í svona miklu stuði. 

Sly & The Family Stone 

Sly Stone er goðsögn sem hvarf úr sviðsljósinu þegar honum virtust allir vegir færir. Sem betur fer er til talsvert af upptökum af tónleikum með honum og hljómsveit hans sem sýna vel hvað þetta var magnaður sviðsmaður. Það var náttúrulega ofan á að finna upp fönkið og semja grípandi lög. Ótrúlegur snillingur. 

Fela Kuti Music Is The Weapon

„Þegar þú ert konungur afrískrar tónlistar, þá ertu kóngurinn. Af því að tónlist er konungar allra starfsgreina.“ Það er erfitt að mótmæla þessari fullyrðingu frá Fela Kuti í upphafi myndar sem fjallar um hann og andóf hans gegn herforingjastjórninni í Nígeríu. Við leyfum þessu að fljóta með af því að það er fullt af frábæru tónleikaefni í myndinni og líka af því að hann var kóngurinn. Það er líka smá sóttkvíarbragur á lífsstílnum hjá kappanum í myndinni.

Klúbbakvöld með Aphex Twin í London

Þeir sem eru með fráhvörf frá skemmtistöðum ættu að kunna að meta þessa nýlegu upptöku af tónleikum/plötusnúðasetti meistarans. Í takt við annað sem hann gerir er býsna víraður bragur á tökunum, sem voru umfangsmiklar. Myndavélar voru í öllum krókum og kimum og það má fylgjast með fólki í miklum ham á dansgólfinu eða bara á trúnó. Krakkar, haldið ykkur heima og tékkið bara á þessu. 

Sigur Rós með Fílharmóníunni í Disney Hall

Frábærar upptökur af þessum mögnuðu tónleikum sem ég var svo heppinn að vera sjálfur á. Fyrri hlutinn er með Fílharmóníunni sem er auðvitað skothelt dæmi. Henni er svo skipt út af og eftir það sést vel að Sigur Rós fúnkeraði frábærlega sem tríó. Einfaldlega rosalegt dæmi sem nýtur sín vel í þessum magnaða tónleikasal. Alvöru rokkstjörnur þarna.

 

Leonard Cohen rústar Manhattan árið 1988 

Ok, þetta er reyndar í Austin í Texas. En hversu heitur var Cohen árið 1988 þegar hann var að fylgja eftir I'm Your Man? Tónleikarnir sem voru teknir upp á Hrekkjavökunni eru kynntir sem fyrstu sjónvarpstónleikar Cohens í Bandaríkjunum, sögulegt stöff. 

Joni Mitchell í London 1970

Mögnuð frammistaða hjá ótrúlegri hæfileikamanneskju. Það eru ekki margir sem ná að skila svona frábærum tónleikum af sér algerlega upp á eigin spýtur.  

Björk í Þjóðleikhúsinu árið 1999 með strengjasveit og Mark Bell

Auðvitað eru til flottari Bjarkartónleikar á netinu en þetta er náttúrulega rosalegt dæmi. Björk að fylgja Homogenic eftir. Búin að festa sig í sessi sem einn framsæknasti og besti listamaður sinnar kynslóðar komin heim í Þjóðleikhúsið að geirnegla nokkur af sínum allra bestu lögum! 

N.W.A. í Houston 1989 

Hárrétt augnablik til að sjá N.W.A. á tónleikum hefði líklega verið á klúbbunum í L.A. áður en þeir urðu heimsfrægir. Á þessum tímapunkti var samt allt í gangi hjá Dre og félögum og sjálfstraustið löðrar af þeim á þessum tónleikum. 

Guns N' Roses í Los Angeles 1988

Það er hægt að segja ýmislegt um Guns N' Roses en það verður aldrei tekið af þeim hversu ótrúlega góð hljómsveit þeir voru þegar þeir voru upp á sitt besta. Þarna eru þeir nýbúnir að gefa út eina bestu rokkplötu allra tíma og eru bara svölustu naglar á plánetunni. Axl Rose í dúndrandi eróbikkfílíng og Slash að negla inn sóló sem eru bara ópusar út af fyrir sig. 

Beastie Boys í Glasgow 1999

Þeir Adam, Mike og Adam hafa greinilega verið að taka lýsið sitt á þessum árum. Orkan á þessum tónleikum er algerlega yfirgengileg. Brjálaðar rímur, smitandi grúv og eitrað pönk. Allt soðið saman í einhvern óskiljanlega góðan graut sem Glasgow-búar átu upp til agna. MTV-auglýsingarnar auka bara á nostalgíuna fyrir okkur gamla fólkið.

Radiohead í Chicago 2016

Radiohead á tónleikum er yfirleitt jafn gott og það hljómar en stundum ná þeir bara einhverjum hæðum sem eru alveg óskiljanlegar. Það gerist þegar Thom Yorke er í ham og drífur bandið áfram á einhverri orku sem er eiginlega alveg ótrúleg. Á þessum tónleikum lítur út fyrir að einhver hafi blandað einhverru skrýtnu í drykkinn hans því gamli (48 ára) er gjörsamlega á útopnu þarna og það smitast út í hverja nótu sem er spiluð á þessum tónleikum. Ég hef horft á ansi marga tónleika á netinu þetta eru þeir bestu án vafa. Frábært hljóð og fín mynd.

Kendrick Lamar DAMN Tour 2019

Er einhver ágreiningur um hver er konungur rappsins í dag? Ég hélt ekki. Kendrick Lamar hefur náð að gæða formið sál, merkingu og boðskap sem væri ómögulegt ef hann væri ekki svona mikil stjarna sem sést vel á tónleikum.

Pink Floyd í Pompeii

Þarna var Pink Floyd upp á sitt besta. Þeir stilltu upp litlum magnarakastala í miðju rómversku hringleikahúsi og mjökuðu sér af stað í „Echoes“ sem er náttúrlega besta Pink Floyd lagið sem Syd Barrett var ekki með í. Myndavélum var stillt upp á lestarteinum og skotin eru hæg og löng. Klárlega einn af hápunktum áttunda áratugarins. Í myndinni má líka sjá sveitina við upptökur á Dark Side of the Moon í Abbey Road.    

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason