Maður er manns gaman

Arne Ungermann myndlýsti söguna um Palla sem var einn í …
Arne Ungermann myndlýsti söguna um Palla sem var einn í heiminum eftir Jens Sigsgaard sem upphaflega kom út í Danmörku 1942.

Í kófinu sem nú ríkir í heiminum á tímum kórónuveirunnar þar sem sífellt fleiri leita í sóttkví – ýmist að beiðni yfirvalda eða sjálfviljug – hafa listirnar aldrei verið mikilvægari. Þær stytta okkur ekki aðeins stundir á þessum erfiðu tímum einverunnar og veita okkur til dæmis færi á að hitta fjölbreytt persónugallerí hvort heldur er á blaði eða skjá. Því þegar best lætur opna listirnar augu okkur fyrir ýmsum áskorunum heimsins og veita okkur kærkomið tækifæri til að skoða hvert leiðin gæti legið ef samkennd og manngæska fá ekki að ráða för.

Silja Björk Huldudóttir, blaðamaður á menningardeild Morgunblaðsins, beindi sjónum sínum að nokkrum bókum sem kallast sterklega á við samtímann í pistli sem birtist í Morgunblaðinu á mánudag. 

Sjö dagar (2017)

Öll höfum við þörf fyrir að spegla okkur í aðstæðum annarra. Því gæti verið kærkomið að lesa skáldsöguna Sjö dagar eftir Francescu Hornak sem nýverið kom út í íslenskri þýðingu Valgerðar Bjarnadóttur. Í bókinni ákveður Birch-fjölskyldan að eyða jólahátíðinni saman í sóttkví á sveitasetri sínu eftir að elsta dóttirin, Olivia, snýr heim frá Afríku þar sem hún hefur sem læknir verið að sinna sjúklingum með bráðsmitandi sjúkdóm. Allar persónur bókarinnar eiga sér leyndarmál sem leysast úr læðingi eftir því sem á vikuna líður.

Garðurinn (2008)

Spænska veikin sem gekk yfir heiminn 1918 til 1919 með miklu mannfalli gegnir lykilhlutverki í spennusögunni Garðinum eftir Gerði Kristnýju. Aðalpersóna bókarinnar er unglingsstúlkan Eyja sem er nýflutt á Ljósvallagötuna, á þriðju hæð í húsi sem stendur gegnt Hólavallagarði, gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Þegar pabbi Eyju kaupir gamlan hægindastól á fornsölu fer undarleg atburðarás af stað sem virðist tengjast stólnum. Í ljós kemur að stóllinn er frá tíma spænsku veikinnar, en pabbi Eyju hefur sérstakan áhuga á því tímabili í íslenskri sögu og ætlar sér að skrifa um það bók. Eftir að hafa setið mikið í stólnum veikist pabbinn og þá fer Eyja að skoða bréf sem pabbinn hefur verið að lesa og skrifuð voru þegar spænska veikin var í gangi, en bréfin hafði pabbinn fundið í stólnum.

Rotturnar (2018)

Hættulegur smitsjúkdómur er leiðarstefið í Rottunum eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur sem tilnefnd var til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í fyrra. Hér er á ferðinni æsispennandi vísindaskáldsaga þar sem metnaðarfullt vísindafólk á sviði líftækni er tilbúið að fórna öllu siðferði og virðingu fyrir manneskjunni fyrir háleit markmið sín. Titill bókarinnar vísar til hóps unglinga sem numinn er á brott og læstur inni til þess að vísindafólkið geti gert á þeim tilraunir sem tengjast svartadauða, einum skæðasta heimsfaraldri sögunnar sem náði hámarki í Evrópu um miðja 14. öld.

Koparborgin (2015)

Plágan gegnir einnig veigamiklu hlutverki í fantasíusögunni Koparborgin eftir Ragnhildi Hólmgeirsdóttur sem tilnefnd var til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016. Sögusvið bókarinnar er órætt, en ýmislegt bendir til þess að um sé að ræða borg í suðurhluta Evrópu á endurreisnartímanum. Í lóninu utan við borgina búa fiskimenn í bátum og kofum sem reistir eru á staurum. Þegar plágan berst til fiskiþorpsins í lóninu grípa borgarbúar til þess örþrifaráðs að brenna fiskiþorpið og þá íbúa með sem plágan hefur ekki lagt að velli. Pietro kemst undan við illan leik, forðar sér á sundi. Hann er nær dauða en lífi þegar norn birtist honum í draumi og læknar hann um leið og hún velur hann til verkefnis sem er ógnvænlegra en drepsóttin. Þessi æsispennandi skáldsaga er einstaklega vel skrifuð, þétt og viðburðarík auk þess sem hún er full af spennandi göldrum.

Í liðinni viku var upplýst að Villueyjar, sem út kom í fyrra og er sjálfstætt framhald af Koparborginni, hefði verið tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Sú bók, sem undirrituð hlakkar til að lesa fljótlega, fjallar um munaðarlausu systkinin Arildu og Maurice, sem neydd eru í uppgjör við fortíðina.

Eyland (2016)

Á sama tíma og landamærum hefur verið lokað víðs vegar um heim og aðeins eru farnar örfáar flugferðir með farþega til og frá Íslandi er tilvalið að rifja upp frábæra frumraun Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, vísindaskáldsöguna Eyland. Í bókinni leikur höfundur sér með þá hugmynd hvað gæti gerst ef Ísland myndi einangrast alfarið frá umheiminum. Hvers konar samfélag myndi bíða okkar þegar lyf og aðrar nauðsynjar klárast? Og til hvaða aðgerða gætu stjórnvöld gripið þegar ljóst er að matmælaframleiðsla stendur ekki undir þeim 350.000 sem byggja landið? Þetta er hrollvekjandi lesning sem minnir lesendur á að á tímum þrenginga og þegar frumþörfum fólks er ógnað, hvort heldur vegna matvælaskorts eða veiru, er varhugavert að láta lýðskrum og þjóðrembing ráða för. Ef kórónuveirufaraldurinn sem nú geisar kennir okkur eitthvað þá er það hversu heimurinn er í raun tengdur. Veiran virðir engin landamæri og því verða leiðtogar heims og heilbrigðisyfirvöld að vinna vel saman að lausnum.

Palli var einn í heiminum (1942)

Að lokum verður að minnast á klassísku myndabókina Palli var einn í heiminum eftir Jens Sigsgaard frá árinu 1942 sem Arne Ungermann myndlýsti og út kom í íslenskri þýðingu Vilbergs Júlíussonar 1948. Vafalítið tengja margir við titilpersónuna ungu um þessar mundir þegar fáir eru á ferli og markvisst hefur verið dregið úr samneyti við aðra. Fyrstu viðbrögð Palla þegar hann uppgötvar að hann er einn í heiminum eru að gleðjast yfir því að geta gert allt það sem hugurinn girnist án þess að spyrja leyfis, hvort heldur það snýr að því að borða eins mikið súkkulaði og hægt er úti í búð eða gerast sporvagnsstjóri. Fljótlega kemst Palli hins vegar að því að þótt hann geti gert allt sem hann langar til þá er hreinlega ekkert gaman að vera alltaf einn – því maður er manns gaman eins og sagt er. Gott er að ylja sér við þá speki þar til við getum aftur farið að umgangast vini okkar og ættingja áhyggjulaus að kófi loknu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson