Varð skyndilega vinsæll í Hollywood

„Þá vildu þeir ekki hitta mig en nú vildu þeir …
„Þá vildu þeir ekki hitta mig en nú vildu þeir það allir,“ segir Alex Michaelides um nýfengnar vinsældir sínar í kvikmyndaiðnaðnum. Ljósmynd/Andrew Hayes-Watkins

Alex Michaelides var við það að gefast upp á ferli sínum sem rithöfundur. Hann hafði skrifað handrit að þremur myndum sem voru gerðar, tvær þeirra komu út, önnur þeirra fór í kvikmyndahús. Báðum gekk illa þótt úrval leikara hafi tekið þátt í þeim.

„Árin liðu hjá en mér fannst ég ekki komast neitt áfram,“ segir Alex. „Í kvikmyndum eru svo margir sem koma að verkefninu, svo margt getur farið úrskeiðis og ég sá það gerast aftur og aftur.“

Síðasta atlaga Alex að rithöfundardraumnum var að skrifa sína fyrstu skáldsögu. Þar gæti hann verið við stjórnvölinn. „Þegar þú ert rithöfundur á kvikmyndasetti ertu minnst mikilvæga manneskjan. Það var því mjög sársaukafullt að sjá því sem þú vannst að í fimm ár breytt á fimm sekúndum. Ég vildi þess vegna sjá hvort ég gæti skrifað bók.“

Bókin sem um ræðir, Þögli sjúklingurinn, kom út á ensku í febrúar á síðasta ári og fór beint á topp metsölulista New York Times og varð næstmest selda skáldsagan á Amazon árið 2019. Hún kom út á íslensku á dögunum en það er Útgáfan sem gefur út.

Vann á geðdeild

Þögli sjúklingurinn fjallar um Aliciu Berenson sem lifir að því er virðist fullkomnu lífi þar til hún skýtur eiginmann sinn fimm sinnum í höfuðið á heimili þeirra í London. Eftir atburðinn segir hún ekki nokkurt orð og er þess vegna dæmd geðveik og gert að dvelja á geðsjúkrahúsinu Lundi. Sálmeðferðarfræðingurinn Theo Faber vill komast til botns í málinu og færir sig því frá Broadmoor-geðsjúkrahúsinu til Lundar.

Rétt eftir þrítugt fór Alex í skóla og ætlaði að verða sálmeðferðarfræðingur. „Ég útskrifaðist ekki því ég er of sjálfselskur til að vera meðferðaraðili; ég verð alltaf rithöfundur. En ég vann á geðdeild fyrir unglinga í tvö ár. Og það var mögnuð lífsreynsla því ég kynntist fólki með miklu alvarlegri vandamál en ég sjálfur. Það var mjög gott fyrir mig.“ 

Alex þurfti því ekki að fara í mikla undirbúningsvinnu fyrir skrif bókarinnar. „Það hefði tekið mig nokkur ár að undirbúa skrifin byggi ég ekki yfir minni reynslu,“ segir hann. Fyrir utan námið og vinnuna þurfti Alex sjálfur á sálmeðferð að halda í um tíu ár sem ungur maður. „Það var stór hluti lífs míns í langan tíma.“

Óendurgoldin ást og vanræksla er meginþema í Þögla sjúklingnum. Rithöfundurinn Agatha Christie og glæpasögur hennar höfðu mikil áhrif á Alex. „Ég vildi skrifa bók eins og hún hefði skrifað ef hún hefði mína lífsreynslu. Ég vildi blanda söguþræði bóka hennar við dýpri og dimmari tilfinningar. Það var það sem ég hugsaði í hvert skipti sem ég tapaði þræðinum í skrifunum.“

Hann telur vinsældir bókarinnar stafa af þessari blöndu. „Mér hefur verið sagt aftur og aftur af fólki sem les vanalega ekki spennusögur að því hafi líkað bókin. Því hún er ekki bara spennusaga heldur líka sálfræðilegs eðlis.“

Súrsæt tilfinning

Framleiðslufyrirtækin Plan B, sem meðal annars er í eigu Brads Pitts, og Annapurna Pictures hafa tryggt sér réttinn að kvikmynd um Þögla sjúklinginn. Þau unnu saman að óskarsverðlaunamyndinni Vice meðal annars. Alex mun ekki skrifa handritið.

„Ég hafði unnið fimm ár að bókinni og ég vildi ekki eyða öðrum fimm árum í vinnu að handriti fyrir myndina. Ég hef ekki jafn mikinn áhuga og ég hafði á þessu sviði.“

Uppboð fór fram á kvikmyndaréttinum. „Allt í einu voru framleiðendur úr Hollywood að reyna að hringja í mig seint á kvöldin. Það var skrítin og súrsæt tilfinning því ég hafði reynt að hitta þá í 20 ár. Þá vildu þeir ekki hitta mig en nú vildu þeir það allir. Ég er ánægður að þetta kom fyrir mig núna, orðinn fertugur, en ekki um tvítugt.“

Viðtalið í heild sinni má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Svo virðist sem vandamál hjartans séu ekki alvarlegri en það, að á þeim megi sigrast með réttu tónlistinni, góðum mat og fjörugum félagsskap.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Svo virðist sem vandamál hjartans séu ekki alvarlegri en það, að á þeim megi sigrast með réttu tónlistinni, góðum mat og fjörugum félagsskap.