Eldgosaþemað algjör tilviljun

Úr myndbandinu við lagið 10 Years.
Úr myndbandinu við lagið 10 Years. Skjáskot/Youtube

Guðný Rós Þórhallsdóttir leikstýrði myndbandinu við Eurovisionlagið 10 Years með Daða og Gagnamagninu en myndbandið kom út í dag. Það er ákveðið eldgosaþema í myndbandinu sem talar beint inn í samtímann en Guðný segir það algjöra tilviljun. Skoti af eldgosinu í Geldingadölum var þó bætt við á síðustu stundu. 

Guðný og samstarfskona hennar Birta Rán Björgvinsdóttir kvikmyndatökukona gerðu einnig myndbandið við lagið Think About Things í fyrra.

„Daði kom til okkar með þessa hugmynd. Hann hafði langað að gera þessa pælingu í svolítið langan tíma. Þarna var loksins komið tækifæri til þess þar sem það voru meiri peningar og hægt að leggja meira í þetta, það var minni áhætta en áður. Við höfðum gert Think About Things sem sló í gegn,“ sagði Guðný í viðtali við mbl.is rétt eftir að myndbandið var frumsýnt. 

Í myndbandinu leikur Ólafur Darri Ólafsson borgarstjóra Íslands sem biður Daða og Gagnamagnið um hjálp. Ástæðan er skrímsli úr Eyjafjallajökli sem stefnir til Reykjavíkur. Auðvelt er að túlka skrímslið sem eins konar eldgos og eldgosið í Eyjafjallajökli er mörgum í fersku minni. Tökur fóru fram í febrúar og því ansi mikil tilviljun að nú gýs á Reykjanesi.

„Þetta var tilviljun, algjör. Við hugsuðum líka hvort við ættum að breyta textanum, að hann myndi segja eldgos á Reykjanesskaga eða eitthvað svoleiðis,“ segir Guðný en að lokum var ákveðið að halda sig við upphaflega handritið. Skotum af eldgosinu í Geldingadölum var bætt við myndbandið rétt áður en því var skilað inn á laugardaginn.

Þrír tökudagar voru um miðjan febrúar. Þá var akkúrat ár liðið frá því að myndbandið við lagið Think About Things kom út en það kom út 14. febrúar 2020. 

„Það var brjálað veður í útitökunum okkar. Það var svo vont veður að við gátum ekki farið á kamerubílnum okkar. Við þurftum að skipta okkur niður á minni bíla og keyra yfir Hellisheiðina. Kamerubíllinn kom svo bara seinna með allar græjurnar okkar. Þetta heppnaðist bara vel. Það var bara eins og við hefðum verið með risastóra vindvél. Það var svo ótrúlega mikil vindur. Það var bara flott fyrir hárið á þeim öllum.“

Myndbandið fékk strax mikið áhorf og hefur Guðný verið dugleg að fylgjast með viðbrögðunum. Hún gerir ráð fyrir að fagna á einhvern hátt í kvöld, ein hugmynd er að skála á Zoom. 

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert uppfullur af hugmyndum og fleiri streyma að þér úr öllum áttum. Forðastu margmenni og settu mörk í félagslífinu.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert uppfullur af hugmyndum og fleiri streyma að þér úr öllum áttum. Forðastu margmenni og settu mörk í félagslífinu.