Ruffalo í rigningu

Jóhannes Pálmason og Þórir Georg í hljóðveri Jóhannesar.
Jóhannes Pálmason og Þórir Georg í hljóðveri Jóhannesar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tónlistarmennirnir Þórir Georg og Jóhannes Pálmason sendu á dögunum frá sér breiðskífuna Hvörf  Music Library 02 en eins og nafnið gefur til kynna er þetta önnur skífa Hvarfa. Fyrsta platan kom út árið 2019 en samstarf og vinátta þeirra Jóhannesar og Þóris hófst í plötubúðinni Lucky Records sem þeir störfuðu báðir í á tímabili.


Jóhannes segir þá Þóri fljótlega hafa komist að því að þeir hefðu báðir brennandi áhuga á kvikmyndatónlist og þá líka svokallaðri „library“-tónlist sem er sérstakur angi kvikmyndatónlistar, eins og Þórir lýsir því. Þeir félagar segjast hafa velt því nokkuð lengi fyrir sér að vinna saman að tónlist og látið slag standa. Frumburðurinn hafi komið hratt í heiminn, orðið til á viku.

Keimlíkar hugmyndir 


Þessi tónlistarsöfn eða -bankar hafa einkum verið nýtt í gegnum tíðina í ódýrar kvikmyndir og sjónvarpsþætti, þegar ekki hefur verið nægt fjármagn til að ráða tónskáld í að semja tónlist fyrir verkin. Þeir Jóhannes og Þórir segjast báðir hafa áhuga á slíkri tónlist og öllu í kringum hana. „Þetta er allt frekar nafnlaust og látlaust og „fúnksjónal“, snýst bara um að búa til tónlist, að hún sé aðgengileg og skýrt hvað þetta er og þá er auðvelt fyrir fólk að finna það sem það er að leita að,“ segir Þórir og Jóhannes bætir við að þegar hann hafi kynnt sér slíka tónlist hafi hann orðið var við að tónlistarmenn notuðu mismunandi nöfn þegar þeir væru að semja slíka tónlist og gefa út. „Sami tónlistarmaðurinn var að nota kannski fjögur, fimm mismunandi nöfn eftir því hvaða library-verkefni hann var að gera. Það tók dálítinn tíma að kveikja á því,“ segir Jóhannes.

– Þegar þið fóruð að vinna saman að þessu verkefni, Hvörfum, komust þið þá að því að þið væruð með svipaðar hugmyndir um tónlistina eða þurftuð þið að samræma þær?
„Við vorum eiginlega búnir að komast að því áður en við byrjuðum að við værum með mjög keimlíkar hugmyndir. Mér fannst við ekki þurfa að samræma mikið, það tók kannski tvær, þrjár tilraunir að finna út úr því hvernig við unnum vel saman. Það hafði kannski minna með tónlistina gera og meira með vinnuflæðið,“ segir Þórir og Jóhannes tekur undir það. „Þetta var mjög þægilegt, þetta er mjög þægilegt verkefni að vinna,“ segir hann.
Þórir segir þá ekki hafa hist með samin lög heldur einfaldlega mætt í stúdíó og byrjað að skapa. „Sum lög verða til bara á klukkutíma og öðrum þurfum við að vinna meira í,“ segir Þórir og Jóhannes segir flæðið hafa verið hratt í tónlistarsköpuninni og þeir lítið fyrir að hanga yfir lögunum. Þórir segir þá einmitt snúa sér frekar að næsta lagi frekar en að hanga yfir því sama klukkustundum saman. „Þetta var mjög skemmtilegt upp á það að gera,“ segir Jóhannes.

Umslag plötunnar.
Umslag plötunnar.Þeir félagar eru spurðir hvort þeir eigi sér uppáhaldskvikmyndatónskáld og nefnir Jóhannes ítölsk tónskáld á sjöunda og fyrri hluta áttunda áratugarins. Þórir segir eitt og eitt kvikmyndatónskáld í uppáhaldi en þó frekar tónlist úr stökum kvikmyndum. Hann nefnir sem dæmi tékknesku hryllingsmyndina Valerie and Her Week of Wonders eða Valerie a týden divù eins og hún heitir á frummálinu og Jóhannes nefnir franska teiknimynd, La Planète sauvage eða Fantastic Planet eins og hún heitir á ensku. Þeir nefna líka sígildar myndir Johns Carpenters, tónlist Ennios Morricones og svo tónverk Jóhanns Jóhannssonar og Hildar Guðnadóttur.

Úr frönsku teiknimyndinni La Planète sauvage sem hefur að geyma …
Úr frönsku teiknimyndinni La Planète sauvage sem hefur að geyma frábæra kvikmyndatónlist, að sögn Jóhannesar.

Yfirþyrmandi og ágeng


Við veltum fyrir okkur hvað einkenni góða kvikmyndatónlist og Þórir nefnir að hún þjóni fyrst og fremst kvikmyndinni. Hann nefnir sem nýleg dæmi tónlist Hildar við Jókerinn sem verði nánast hluti af myndinni, falli svo vel inn í hana, og svo tónlist Daniels Lopotins við Uncut Gems sem sé brjálæðislega yfirþyrmandi og ágeng allan tímann. Tónlist Lopotins sé ekki „underscore“ heldur „overscore“, þ.e. ofan á því sem sé að gerast í myndinni en ekki undir. Jóhannes segir þetta líka einkenna margar eldri kvikmyndir. „Í mörgum af þessum gömlu myndum er tónlistin eiginlega miklu áhugaverðari en myndin sjálf,“ bendir hann á og að hann eigi mikið safn tónlistar úr hryllingsmyndum sem hann hafi þó fæstar séð.

Fyrri plata Hvarfa var töluvert ólík þeirri nýju. Á henni voru þeir Jóhannes og Þórir að vinna meira með akústísk hljóðfæri á borð við gítar og píanó en á þeirri nýju eru hljóðgervlar meira áberandi og platan í heild rytmískari og rafrænni, að sögn þeirra félaga. Þórir segir að þeir Jóhannes stefni að því að gera þriðju plötuna og líklega fleiri. Vínilútgáfan er takmörkuð, aðeins 150 eintök voru gerð af nýju plötunni og kostnaðurinn það mikill að þeir félagar koma út á sléttu, að sögn Þóris.

Passar vel við rökkurmyndir 


En ætla þeir að kynna þetta lagasafn sem möguleika fyrir kvikmyndagerðarmenn að sækja í? Þeir segjast ekki hafa velt því fyrir sér en mögulega ættu þeir að skoða þann möguleika, að koma tónlistinni í einhverja gagnabanka. „Þetta myndi svínvirka við margt,“ segir Jóhannes og Þórir segir þessa hugmynd alls ekki út í hött. Tónlistin á nýju plötunni henti til að mynda vel rökkurmyndum, „film noir“.
Jóhannes og Þórir spila sjálfir á öll hljóðfæri sem koma við sögu á plötunum tveimur, hvort sem það er gítar, bassi eða trommur. „Ég er gítarleikari í grunninn,“ nefnir Þórir sem hefur gefið út fjölda platna sem sólótónlistarmaður og Jóhannes hefur m.a. verið liðsmaður í hljómsveitunum Epic Rain og Dalalæðu.

Lagatitlarnir eru forvitnilegir og halda mætti að þeir væru lýsandi fyrir lögin, til dæmis „Killer in the Rain“ og „Rings of Saturn“. En svo er þó ekki heldur eru þeir sóttir í titla vísindaskáldsagna frá sjöunda og áttunda áratugnum. Þeir Jóhannes og Þórir hlæja að þessu og blaðamaður bendir á að þeir hafi sparað sér vesenið að finna titla á lögin sem eru öll án söngs og texta.
Við hlustum á hið fyrrnefnda „Killer in the Rain“ og veltum fyrir okkur hvað gæti verið að gerast í kvikmynd á meðan það ómaði undir. Einkaspæjari situr inni í bílnum sínum og reykir. Það er dimmt og rigning og myndin er svarthvít. Leikarinn mögulega Mark Ruffalo af því hann tekur sig svo vel út í svarthvítu. 

Úr tékknesku hryllingsmyndinn Valerie and her Week of Wonders.
Úr tékknesku hryllingsmyndinn Valerie and her Week of Wonders.Þannig býr tónlistin auðveldlega til myndir í huga manns sem verður þó ekki vel lýst í blaðaviðtali en viðtalið við þá félaga með tóndæmum má finna hér fyrir neðan. Plötuna má svo t.d. finna á bandcampsíðu Hvarfa með því að smella hér.  

Leikarinn Mark Ruffalo sést hér í lit en tekur sig …
Leikarinn Mark Ruffalo sést hér í lit en tekur sig ábyggilega vel út í svarthvítu. AFP
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Passaðu þig á því að einblína ekki svo mikið á praktíska hluti, að þú missir sjónar á gleði þinni og sköpunargáfu. Mundu að ekki hafa allir sömu skoðanir á hlutunum og það ber líka að virða.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Passaðu þig á því að einblína ekki svo mikið á praktíska hluti, að þú missir sjónar á gleði þinni og sköpunargáfu. Mundu að ekki hafa allir sömu skoðanir á hlutunum og það ber líka að virða.