Ást sem er þess virði að deyja fyrir

Ljósmynd/Aðsend

Jökull – banvæn ástarsaga eftir metsöluhöfundinn Camillu Läckberg og hinn rómaða leikara Alexander Karim er komin út sem hljóðbók á Storytel. Leikararnir Halldóra Geirharðsdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson lesa íslensku útgáfuna. 

Hljóðbókin Jökull er sérstaklega skrifuð fyrir Storytel Original. Stutt er síðan kvikmyndin Jökull var frumsýnd en þar er sögð saga bláókunnugs fólks sem hvort um sig verður að dvelja í algjörri einangrun á hótelherbergi á sama tíma og banvænn vírus ógnar mannkyninu. Þau rjúfa einangrunina fyrir mistök og þá tekur svimandi, lífshættuleg ást völdin.

Storytel Original-útgáfan af Jökli, sem byggist á kvikmyndahandritinu, er gefin út á alþjóðavísu. Það eru Halldóra Geirharðsdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson sem ljá Jökli raddir sínar í íslensku útgáfunni.

„Að vinna með sögu með þessum hætti, í svona ólíkum miðlum, býður upp á einstök tækifæri fyrir söguna. Í hljóðbók gefst hlustendum kostur á kynnast sögupersónunum mun nánar og sjá ólíkar hliðar þeirra; það er hægt að þróa söguþráðinn með öðrum hætti, fara óvæntar krókaleiðir – og endirinn getur orðið allt annar. Jökull er saga án landamæra sem við Alexander erum virkilega ástríðufull fyrir. Við getum ekki beðið eftir því að áheyrendur fái notið, hver með sínum hætti“, segir Camilla Läckberg.

„Þetta er dramatísk saga sem stendur hjarta okkar nærri og við höfum virkilega gefið allt okkar í þetta verkefni. Söguþráðurinn er vissulega innblásinn af þeim raunveruleika sem við höfum búið við síðastliðið ár. Þetta hefur verið magnþrungið og ótrúlegt ár og ég er virkilega spenntur fyrir því að fá loksins að deila þessum frábæra árangri með öðrum,“ segir Alexander Karim.

Sögusvið Jökuls er lúxushótel þar sem kvenkyns læknir og karlkyns sóknarprestur dvelja, hvort í sínu herbergi. Þau vita ekki af tilvist hvort annars. Heimsfaraldur geisar úti fyrir sóttkvínni, sem er bæði skjól þeirra og ógnvaldur. Til að tryggja að þau komist af er þeim haldið í algjörri einangrun en í raun hafa þau haldið sjálfi sínu í einangrun svo árum skiptir. Ógnvænleg mistök leiða til forboðins fundar – og fræi magnþrunginnar og yfirþyrmandi ástar er sáð. Ást sem er þess virði að deyja fyrir.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fólk tekur óvenju vel eftir þér í dag og þú munt sennilega eiga mikilvægar samræður við foreldra þína.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Fólk tekur óvenju vel eftir þér í dag og þú munt sennilega eiga mikilvægar samræður við foreldra þína.