„Sögur sem staðsetja okkur“

„Að hlusta á og segja sögur er frumþörf. Við notum …
„Að hlusta á og segja sögur er frumþörf. Við notum sögur til að spegla okkur sjálf og skilja hver við erum,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Leiðarstef okkar í verkefnavali leikársins eru sögur sem staðsetja okkur, í nærumhverfi, í borginni, á Íslandi og í okkar innsta kjarna,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins um komandi leikár. „Að hlusta á og segja sögur er frumþörf. Við notum sögur til að spegla okkur sjálf og skilja hver við erum,“ segir Brynhildur og tekur fram að óhjákvæmilega setji heimsfaraldur síðustu átján mánaða mark sitt á komandi leikár.

„Á sama tíma og nokkrar sýningar frá fyrra leikári verða sýndar áfram, þar sem færri komust að en vildu vegna samkomutakmarkana, þurftum við líka að haga seglum eftir vindi. Þegar fjórða bylgja skall á var ljóst að við yrðum að breyta fyrri plönum og fækka verkefnum, sem þýðir að nýjar frumsýningar verða færri en í venjulegu ári. Við erum þó hæstánægð með leikárið eins og það lítur út og stolt af verkefnum og þeim listamönnum sem að þeim koma,“ segir Brynhildur og tekur fram að meðal kjörorða leikhússins séu áræði, metnaður og fjölbreytni.

„Leikfélag Reykjavíkur, sem fagnar 125 ára afmæli 11. janúar, hefur verið ómissandi hluti af menningarlífi borgarbúa og landsmanna allra til áratuga. Við erum alþýðuleikhús og leggjum mikið upp úr því að bjóða upp á sýningar sem höfða til fjölbreytts hóps áhorfenda og tala til alþýðu manna. Á sama tíma viljum við vera áræðin í þeim gæðasýningum sem við berum á borð fyrir áhorfendur okkar. Áræðið birtist m.a. í því hvernig við tölum við nærumhverfi okkar, bjóðum nýja Íslendinga velkomna og í fjölbreytni leikarahópsins,“ segir Brynhildur og bendir á að svo skemmtilega vilji til að 80 ár skilji að yngsta og elsta leikara Borgarleikhússins í vetur, en Margrét Guðmundsdóttir sem leikur í Ein komst undan er 88 ára og Þórunn Obba Gunnarsdóttir sem leikur Ídu í Emil í Kattholti er átta ára.

Valur Freyr Einarsson í hlutverki sínu sem Sátti-Bubbi í söngleiknum …
Valur Freyr Einarsson í hlutverki sínu sem Sátti-Bubbi í söngleiknum Níu líf. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

Heiminum snúið á hvolf

Sýningar frá fyrri leikárum sem halda áfram eru Veisla, Útlendingurinn, Gosi, Er ég mamma mín?, Allt sem er frábært og Níu líf, en leikhúsið veltir nú á undan sér 18 þúsund seldum miðum á Bubbasöngleikinn. „Uppselt er á Níu líf fram í desember og sýnt verður út leikárið hið minnsta,“ segir Brynhildur og tekur fram að leikhúsið sé einstaklega stolt af þessari alíslensku stórsýningu sem endurspegli tíðarandann með sterkum hætti. „Það er ólýsanleg tilfinning að vera komin af stað eftir alla þessa bið. Hér hefur verið hlegið og grátið af tómum létti.

Í nóvember frumsýnum við Emil í Kattholti á Stóra sviðinu með glæsilegum hópi leikara og tónlistarmanna. Við hlökkum óskaplega til að bjóða gestum inn í ómótstæðilegan heim Astrid Lindgren í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárns. Þórunn Arna Kristjánsdóttir leiðir hópinn og Agnar Már Magnússon er tónlistarstjóri. Hér verður talað inn í hjörtu allra barna í salnum, sama í hversu gömlum líkama þau eru.“

Síðasta frumsýningin á Stóra sviðinu er Room 4.1 live eftir Kristján Ingimarsson í samstarfi við Íslenska dansflokkinn. „Þetta verður upplifunarleikhús í anda Kristjáns þar sem heiminum er bókstaflega snúið á hvolf,“ segir Brynhildur. Bendir hún á að sýningin, sem stóð til að frumsýna á síðasta leikári, sé fyrsta sýningin sem sett er upp undir merkjum Yggdrasils, sem er nýtt samnorrænt tengslanet sem Borgarleikhúsið tekur þátt í. „Við erum að opna samstarf við erlent listafólk á næstu misserum,“ segir Brynhildur og tekur fram að það sé mikil gjöf fyrir listafólk hússins að fá ferska vinda og aðrar vinnuaðferðir inn í leikhúsið.

„Fyrsta frumsýning okkar á Litla sviðinu er 16. september á Þétting hryggðar eftir Halldór Laxness Halldórsson í leikstjórn Unu Þorleifsdóttur. „Hér er á ferð háðskt og hárbeitt verk eftir Dóra DNA sem fer alla leið í að opinbera óþægilegar skoðanir fólksins í hinum póstnúmerunum,“ segir Brynhildur og hrósar hnyttni höfundar í textagerð.

Kjarval nefnist sýning sem frumsýnd verður í september og fjallar …
Kjarval nefnist sýning sem frumsýnd verður í september og fjallar um listmálarann Jóhannes Kjarval. Hér má sjá hann umkringdan verkum í sölunum við Sigtún 7 sem hann hafði sem vinnustofur um árabil. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

„Næsta frumsýning okkar er 25. september, einnig á Litla sviðinu, en það er Kjarval eftir Stefán Hall Stefánsson í leikstjórn höfundar. „Hugmyndin að sýningunni er sprottin upp úr bók Margrétar Tryggvadóttur um Kjarval, málarann sem fór sínar eigin leiðir og er unnin í góðu samstarfi við Listasafn Reykjavíkur. Kjarval er maðurinn sem kenndi okkur að elska og virða íslenska náttúru og sjá fegurðina og myndlistina í landslaginu.

Í október verður danski einleikurinn Ég hleyp eftir Line Mørkeby í leikstjórn Hörpu Arnardóttur frumsýndur. Þetta er sannsögulegt verk um missi. Maður missir dóttur sína og til að lifa af sársaukann byrjar hann að hlaupa,“ segir Brynhildur, en með hlutverk föðurins fer Gísli Örn Garðarsson sem hleypur allan tímann meðan á sýningunni stendur.

Reynslumiklar dívur á sviðinu

„Nokkrum dögum fyrir 125 ára afmæli Leikfélags Reykjavíkur í janúar frumsýnum við Ein komst undan eftir Caryl Churchill í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. „Þetta verður í þriðja sinn sem Caryl Churcill er leikin á Íslandi,“ segir Brynhildur og rifjar upp að Alþýðuleikhúsið hafi sett upp Klassapíur árið 1985 og Borgarleikhúsið Sjö gyðingabörn 2009. „Churchill er beittur penni og flottur,“ segir Brynhildur og lýsir Ein komst undan sem „sérkennilegu og óvæntu verki sem skrifað er fyrir fjórar leikkonur sem komnar eru yfir sjötugt“, en leikkonur uppfærslunnar eru Edda Björgvinsdóttir, Guðrún Ásmundsdóttir, Kristbjörg Kjeld og Margrét Guðmundsdóttir. „Það verður hreinn unaður að sjá þessar dívur saman komnar á sviðinu. Verkið er marglaga og það sem virðist saklaust spjall eldri kvenna yfir tebolla breytist í glundroðahugsanir heims á hverfandi hveli þar sem loftslagsváin er í forgrunni. Það á því brýnt erindi á núverandi tímapunkti.

Stækka sjónarsviðið

Í nóvember frumsýnum við Njálu á hundavaði í meðförum Hunds í óskilum sem þeir Eiríkur Stephensen og Hjörleifur Hjartarson skipa. Er það fyrsta frumsýningin á Nýja sviðinu. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. Þetta verður fyrsta flokks alþýðuskemmtun. Þarna fer Hundur í óskilum höndum um ódauðlega sameign allra Íslendinga eins og þeim Eiríki og Hirti er einum lagið.

Fyrrverandi nefnist verk úr smiðju Common Nonsense sem við frumsýnum í mars. Hér er um að ræða nýtt leikrit eftir Val Frey Einarsson, sem áður hefur skrifað Tengdó og Dagbók jazzsöngvarans. Að þessu sinni leikstýrir hann eigin verki, sem mér finnst gríðarlega spennandi enda Valur ákaflega flinkur og næmur leikhúslistamaður. Ilmur Stefánsdóttir hannar bæði leikmynd og búninga,“ segir Brynhildur og tekur fram að hér sé á ferðinni frábært verk „um fólkið sem við héldum að við værum hætt að búa með; fyrrverandi. Þetta er meinfyndið og ljúfsárt verk sem klípur í taugaendana en leyfir okkur líka að hlæja dátt,“ segir Brynhildur og tekur fram að það sé Borgarleikhúsinu mjög mikilvægt að setja ný íslensk leikrit á svið til þess að „fjölga röddum og stækka sjónarsviðið okkar,“ segir Brynhildur og tekur fram að leikhúsið finni fyrir miklum áhuga á íslenskum leikskáldum erlendis frá.

„Sem dæmi má nefna að leikrit eftir Matthías Tryggva Haraldsson, sem er leikskáld Borgarleikhússins um þessar mundir, verður leiklesið á New Nordic Festival í London í næsta mánuði. En verk eftir hitt leikskáld Borgarleikhússins, Evu Rún Snorradóttur, var flutt á hátíðinni Our Future Stories í New York fyrr á þessu ári. Tímabil þeirra sem skáld hússins var lengt til að vega upp á móti þeim samkomutakmörkunum sem kófið krafðist. Þau eru bæði að vinna verk sem rata vonandi á svið á næstu misserum,“ segir Brynhildur og tekur fram að forvitnilegt sé að dauðinn sé áberandi stef í verkum beggja höfunda.

Leikið á fleiri málum en íslensku

Boðið verður upp á þrjú samstarfsverkefni í Borgarleikhúsinu í vetur. „Fyrst ber þar að nefna Tjaldið í leikstjórn Agnesar Wild sem sett er upp í samstarfi við leikhópinn Miðnætti og frumsýnt á Nýja sviðinu í október. Þetta er dásamlegt skynjunarleikhús fyrir börn frá þriggja mánaða til þriggja ára,“ segir Brynhildur og bendir á að sýningin, sem verði leikin á morgnana á virkum dögum, sé tilvalin fyrir foreldra í fæðingarorlofi.

„Í febrúar frumsýnum við á Litla sviðinu gamanleikinn Tu jest za drogo – Úff hvað allt er dýrt hérna eftir Ólaf Ásgeirsson í leikstjórn Salvarar Gullbrár Þórarinsdóttur í samstarfi við leikhópinn PólíS. „Hér býðst gestum að fylgjast með samskiptum Íslendinga og Pólverja, sem lifa hér í góðri sambúð,“ segir Brynhildur og tekur fram að sýningin verði leikin á pólsku og textuð yfir á íslensku, en frá 2019 hefur verið boðið upp á pólska og enska textun sýninga á Stóra sviði Borgarleikhússins.

„Í samstarfi við leikhópinn Sel frumsýnum við í mars sýninguna Þoku eða Mjørki eftir Aðalbjörgu Árnadóttur, Sölku Guðmundsdóttur og leikhópinn í leikstjórn Aðalbjargar,“ segir Brynhildur og bendir á að sýningin verði leikin jöfnum höndum á íslensku og færeysku, en „mér finnst alveg stórkostlegt að geta boðið upp á sýningar á fleiri tungumálum en íslensku.“

Karlmennskan til skoðunar

Boðið verður upp á fjögur verkefni undir merkjum Umbúðalauss í vetur. „Umbúðalaust er vettvangur þar sem sviðslistafólk morgundagsins fær tækifæri og frelsi til þess að þróa hugmyndir sínar og gera áhugaverðar formtilraunir. Afraksturinn getur orðið með fjölbreyttu móti, allt frá lifandi innsetningum og verkum í vinnslu til fullbúinna sýninga. Í nóvember verður frumsýnt dans- og hljóðverkið Ertu hér? sem fjallar um vináttu stelpna í lífsins ólgusjó. Í desember rýnir sviðslistahópurinn Slembilukka inn í geymslur Íslendinga í verkinu Á vísum stað. Í mars er komið að sviðslistahópnum Baðmenn sem sýnir How to Make Love to a Man þar sem karlmennskan er til umfjöllunar með fallegum hætti. Í maí er síðan komið að uppfærslu uppistandshópsins Fyndnustu mínar á FemCon sem greinir markaðssetningu kvenleikans.“

„Borgarleikhúsið er gríðarstór atvinnuveitandi í sviðslistum og mikilvæg menningarmiðja í …
„Borgarleikhúsið er gríðarstór atvinnuveitandi í sviðslistum og mikilvæg menningarmiðja í borginni,“ segir Brynhildur Guðjónsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki starfandi án stuðnings

Ekki er hægt að sleppa Brynhildi án þess að forvitnast hvort og hvernig tekjufalli Borgarleikhússins vegna kófsins hafi verið mætt. „Við erum stolt borgarleikhús og án stuðnings Reykjavíkurborgar værum við ekki starfandi,“ segir Brynhildur og tekur fram að leikhúsið hafi einnig fengið nokkra aðstoð frá ríkinu til að mæta tekjufalli ársins 2020 í kjölfar samkomubannsins. „Borgarleikhúsið er gríðarstór atvinnuveitandi í sviðslistum og mikilvæg menningarmiðja í borginni. Í núverandi landslagi væri eðlilegt að Borgarleikhúsið væri sett á fjárlög til einhverra ára til að rétta kúrsinn svo við megum óhindrað halda áfram okkar vegferð, jafnfætis ríkisstofnunum, og til þess að áhrifa heimsfaraldurs gæti ekki lengur en þörf krefur,“ segir Brynhildur og bendir á að það gefi augaleið að krafan á Borgarleikhúsið um 60% sjálfsafla gangi ekki upp samhliða samkomutakmörkunum og -banni inn á þriðja leikár þar sem öll veitingasala hefur líka verið óheimil. 

„Það er því gríðarlega mikilvægt að okkur verði mætt og haldið verði utan um þetta stóra batterí sem hefur sýnt það og sannað að það getur starfað með 60% sjálfsafla, sem er óþekkt hlutfall í nágrannalöndum okkar. Við ætlum áfram að segja mikilvægar sögur. Jafnframt munum við af krafti horfa til framtíðar með þá von í brjósti að stjórnvöld standi við þau orð sín að menning, listir og skapandi greinar verði efldar til muna samfélaginu til heilla,“ segir Brynhildur að lokum. Viðtalið við Brynhildi birtist fyrst á menningarsíðum Morgunblaðsins fimmtudaginn 9. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú veist ekki hversu miklu þú kemur í verk ef þú bara hefst handa. Þú hefur aldrei farið troðnar slóðir og ættir ekkert að vera að byrja á því núna.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson