„Við það að fara að gjósa“

„Þegar ég las bókina heillaðist ég af spennuelementinu,“ segir Tinna Hrafnsdóttir kvikmyndaleikstjóri um skáldsöguna Stóri skjálfti eftir Auði Jónsdóttur sem varð kveikjan að kvikmyndinni Skjálfta, sem er fyrsta kvikmynd Tinnu í fullri lengd og frumsýnd er í vikunni. 

Í kynningu á myndinni segir að þegar Saga (sem Aníta Briem leikur) vaknar upp eftir heiftarlegt flogakast á Klambratúni man hún lítið sem ekkert hvað gerðist í aðdraganda þess. Í leit hennar að upplýsingum um sjálfa sig og sína nánustu fara minningar sem Saga bældi niður sem barn að koma upp á yfirborðið, minningar sem neyða hana til að horfast í augu við sjálfa sig og fjölskyldu sína sem tekist hafði að þegja ógnvænlegt leyndarmál í hel.

Óhugnaðurinn býr innra með Sögu

„Auður flettir smátt og smátt ofan af þessari fjölskyldu og því sem er að hjá henni. Bókin er byggð upp eins og rannsóknarlögreglusaga þar sem þú ert smám saman að komast að því hver er vondi karlinn og hvað gerðist. Mér fannst það eitthvað sem ég gæti nýtt mér í handritaskrifunum, þ.e. að byggja þetta upp eins og rannsóknarsögu, en í stað þess að rannsaka glæp þá er verið að rannsaka sjálfið,“ segir Tinna og bendir á að óhugnaðurinn sem býr innra með Sögu sé eins og kvika.

Dramatísk saga fjölskyldu

„Í grunninn er þetta fyrst og fremst dramatísk saga fjölskyldu, mannleg saga af harmleik sem fjölskyldan á erfitt með að takast á við. Um leið er myndin spennandi af því að þú veist ekki hvað gerðist fyrr en líður á,“ segir Tinna og tekur fram að sér hafi þótt mikilvægt að bæta ákveðnum léttleika, húmor og von inn í myndina. 

Í myndinni er áberandi hvernig Tinna vinnur markvisst með liti til tjáningar. „Rauði liturinn, sem Saga klæðist stóran hluta myndarinnar, er táknrænn fyrir ólguna sem býr innra með henni. Þetta er svolítið eins og rennandi rautt hraun sem er við það að fara að gjósa. Hvíti liturinn er hvort í senn tákn dauðans og nýs upphafs,“ segir Tinna og segir að snjórinn í útitökunum hafi nánast verið eins og pantaður og nýst einstaklega vel. 

Aníta Briem í hlutverki sínu sem Saga í kvikmyndinni Skjálfti …
Aníta Briem í hlutverki sínu sem Saga í kvikmyndinni Skjálfti í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur. Ljósmynd/ Lilja Jónsdóttir

Leitin að rétta róluhljóðinu

Tinna leggur mikið upp úr góðu hljóði í kvikmyndum. „Fyrir mér er mynd með vont hljóð vond mynd, alveg sama hversu gott handritið er eða hversu vel hún er leikin. Mér finnst hljóðið skipta gríðarlega miklu máli. Hljóðið er eins og persóna í myndinni. Framan af myndinni nota ég hljóðið þegar minningar eru brjótast upp á yfirborðið. Það er ekki fyrr en líða fer á myndina sem ég fer að nota myndir í formi endurlita eða flashback,“ segir Tinna og tekur fram að hún hafi, í samvinnu við Gunnar Árnason hljóðmann, lagt mikið á sig til að finna réttu róluhljóðið sem tengist einni minningu Sögu. 

„Það þurfti að vera ákveðin tegund af róluhljóði, því um leið og það er komin sögn í hljóðið þá þarf það að hljóma rétt. Þetta er næstum eins og hljóðfæri. Við áttum dásamlegt samstarfi og hann sýndi mikla þolinmæði í leit minni að rétta róluhljóðinu, sem við svo fundum.“

Viðtalið við Tinnu má horfa á í heild sinni í Dag­mál­um Morg­un­blaðsins. 

Aníta Briem í hlutverki sínu sem Saga í kvikmyndinni Skjálfti í leikstjórn Tinnu Hrafnsdóttur. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þótt þú sért skipulagður sjálfur geturðu ekki ætlast til að aðrir séu eins. Vandamálin geta vel verið fyrir hendi, þótt enginn sjá þau nema þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Harry Whittaker og Lucinda Riley
2
Sólveig Pálsdóttir
3
Moa Herngren
4
Ragnar Jónasson
5
Jojo Moyes