Guðný Sif og Árni eru á góðri leið að sigra Selfoss

Stoltir eigendur á opnunardegi Fröken Selfoss.
Stoltir eigendur á opnunardegi Fröken Selfoss. Ljósmynd/Aðsend

„Það má segja að sagan okkar sé bæði hefðbundin og óhefðbundin. Við vorum vinir í langan tíma áður en við tókum samband okkar á annað stig og þess vegna þekkjum við vel hvort annað og vinnum vel saman hvort sem er á heimili eða vinnustað.“ Þetta segir Guðný Sif Jóhannsdóttir, eigandi og markaðsstjóri Áb veitinga, fyrirtæki sem hún á og rekur ásamt eiginmanni sínum, Árna Bergþóri Hafdal Bjarnasyni. 

Hjónin eru ung og ástfangin og reka tvo glæsilega veitingastaði á Selfossi ásamt litríkri og skemmtilegri ísbúð. Bæði eru þau óvenju atorkusöm en Guðný Sif starfaði sem sjúkraliði á bráðamóttöku Landspítalans í nokkur ár áður en hún dembdi sér út í veitingageirann, en það hefur lengi verið heimavöllur Árna, enda matreiðslumaður á heimsmælikvarða. 

„Ég tók stefnuna á heilbrigðisgeirann“

„Ég vissi aldrei almennilega hvað mig langaði að verða þegar ég yrði stór og gerði þónokkrar tilraunir til að komast að því. Ég prófaði bæði hannyrðir og myndlist í menntaskóla en fann mig ekki þrátt fyrir listaáhuga,“ útskýrir Guðný Sif, sem ákvað að fresta náminu og einbeita sér að öðru um tíma. „Ég hélt út á vinnumarkaðinn og sinnti ýmiss konar störfum og kynntist meðal annars starfsemi Landspítalans, en ég starfaði sem eldhússtarfsmaður í stærsta eldhúsi landsins.“

Guðný Sif og Árni fundu ástina eftir nokkurra ára vinskap.
Guðný Sif og Árni fundu ástina eftir nokkurra ára vinskap. Ljósmynd/Aðsend

Eftir tæplega tveggja ára skólahlé ákvað Guðný Sif að setjast á skólabekk á ný og var það árið 2012. „Ég tók stefnuna á heilbrigðisgeirann og fór í sjúkraliðanám, þar fann ég hilluna mína og naut mín loksins að læra,“ útskýrir hún, en margt gott, gefandi og þroskandi gerðist í lífi Guðnýjar Sifjar í framhaldi. „Ég og Árni féllum fyrir hvort öðru árið 2016 eftir átta ára vináttu og byrjuðum fljótlega að búa saman. Við tókum þá stóru og spennandi ákvörðun að flytja út á land þar sem okkur langaði að prófa að lifa fjarri ysi og þysi höfuðborgarinnar og settum því stefnuna á Þorlákshöfn.“ Parið keypti fyrstu eignina sína á Þorlákshöfn eftir tveggja ára búsetu í bænum. 

Guðný Sif útskrifaðist sem sjúkraliði einu ári eftir flutningana og byrjaði strax að starfa á bráðamóttöku Landspítalans. „Það var gríðarlega áhugaverð upplifun, enda starfið uppfullt af spennu og hamagangi. Þetta voru langar og erfiðar vaktir og búandi á Þorlákshöfn þá var nokkuð löng keyrsla heim. Yfirleitt var ég að keyra heim upp úr miðnætti þar sem ég vann iðulega kvöldvaktir.“

Guðný Sif starfaði sem sjúkraliði á bráðamóttöku Landspítalans.
Guðný Sif starfaði sem sjúkraliði á bráðamóttöku Landspítalans. Ljósmynd/Aðsend

„Það tók lengri tíma en við bjuggumst við“

Samband Guðnýjar Sifjar og Árna þróaðist hratt um leið og vinskapurinn breyttist í ást. „Við byrjuðum snemma að láta reyna á barneignir en það tók okkur lengri tíma en við héldum. Eftir tvö ár var vonin um að þetta myndi gerast náttúrulega byrjuð að fjara út,“ segir Guðný Sif, sem ákvað þá að leita til Livio Reykjavík í von um aðstoð. „Þetta var um mitt sumar og flestallt starfsfólk í sumarfríi. Við þurftum því að bíða í dágóðan tíma til þess eins að komast í biðlistann og sáum fyrir okkur að biðin eftir barni yrði löng.“

Guðný Sif og Árni sneru sér að öðrum hugðarefnum til að dreifa huganum yfir sumarið en það var þá sem þau fengu loksins jákvætt þungunarpróf, í júní 2019. „Það er oft þannig að þegar maður hættir að reyna þá fara hlutirnir að gerast. Ég veit ómögulega hvað það var sem fékk mig til að taka þungunarpróf en ég hafði einhverja tilfinningu og þurfti að róa hugann,“ útskýrir hún. Guðný Sif sá tvær mjög skýrar línur á tveimur þungunarprófum. „Ég hljóp strax til Árna og við bara hlógum og grétum til skiptis.“

Guðný Sif fékk myndarlega óléttukúlu.
Guðný Sif fékk myndarlega óléttukúlu. Ljósmynd/Aðsend

Verðandi móðirin sinnti starfi sínu sem sjúkraliði á Landspítalanum nær alla meðgönguna. „Þegar styttist í fæðingu dóttur okkar þá kaus ég að hætta starfi mínu á bráðamóttökunni, en meginástæða þess var sú að ég vildi vera nær barninu mínu. Það kom mjög reglulega fyrir, sérstaklega á veturna, að það var lokað á milli Reykjavíkur og Þorlákshafnar.“ Guðný Sif fékk síðar starf á sambýli fyrir geðfatlaða í Þorlákshöfn. 

„Reynum að sýna gott fordæmi“

Frumburður Guðnýjar Sifjar og Árna, Maídís Dúa, kom í heiminn í mars 2020, en tveimur árum síðar eignuðust þau aðra dóttur, Ástrós Lóu. „Seinni þungunin kom alveg flatt upp á okkur. Við vorum búin að ræða það að hafa stutt á milli barnanna okkar og fórum því að huga að því þegar eldri stelpan okkar var rúmlega eins árs, en við bjuggumst alveg við að það tæki jafnlangan eða lengri tíma eins og í fyrsta skiptið. Svo var ekki, það tókst í fyrstu atrennu, en það eru tvö ár og einn mánuður á milli dætra okkar,“ segir Guðný Sif. „Það var allt önnur upplifun að eignast Ástrós Lóu, en maður var auðvitað betur viðbúinn. Þegar þú ert búin að ganga í gegnum þetta áður þá þekkirðu inn á það sem koma skal.“

Hvernig breyttist lífið eftir að þið urðuð foreldrar?

„Heimilislífið er síbreytilegt. Ég sé meira um börnin og heimilið á meðan Árni sinnir rekstrinum. Þetta er þó ekki alveg svona klippt og skorið. Við erum dugleg að hjálpast að á öllum vígstöðvum og styðja við bakið á hvort öðru.“

Fjölskyldan fór í myndatöku rétt áður en Ástrós Lóa kom …
Fjölskyldan fór í myndatöku rétt áður en Ástrós Lóa kom í heiminn. Ljósmynd/Aðsend

Hvað leggið þið áherslu á í uppeldinu?

„Við leggjum mikið upp úr því að vera innvinkluð í allt sem viðkemur börnunum okkar. Ég legg mikla áherslu á jákvætt uppeldi og vill því frekar hrósa heldur en skamma. Við hjónin viljum að börnin okkar verði framsækin og óhrædd við að fara á eftir draumum sínum og reynum því að sýna gott fordæmi, hvetjum þau til að stíga út fyrir þægindarrammann þrátt fyrir ungan aldur.“

„Við ákváðum að slá til“

Guðný Sif og Árni bjuggu í Þorlákshöfn í fjögur ár en á þeim tíma starfaði Árni sem vaktstjóri á Hótel Reykjavík Grand. Keyrslan fram og til baka milli heimilis og vinnustaðar var orðin ansi lýjandi og ákvað hann því að kanna hvort það væru störf í veitingageiranum nær heimili fjölskyldunnar á Þorlákshöfn. 

Miðbær Selfoss opnaði sumarið 2021 og ákvað Árni að sækja um stöðu rekstrarstjóra þónokkru fyrir opnun. Tíminn leið og ekkert svar barst. Einu ári síðar var hringt vegna umsóknarinnar og hann boðaður í viðtal en hlaut þó ekki ráðningu. Þetta reyndist mikilvægt símtal þar sem Árni og Guðný Sif fréttu af lausu plássi í Miðbæ Selfoss fyrir nýjan veitingastað. 

Árni að störfum í eldhúsinu.
Árni að störfum í eldhúsinu. Ljósmynd/Aðsend

„Þarna byrjaði rekstrarboltinn óvænt að rúlla. Þetta var ekki eitthvað sem við vorum búin að sjá fyrir okkur að gera í framtíðinni, það að opna veitingastað. Við tókum okkur nokkra daga til að hugsa málið en eftir nokkrar andvökunætur þá hringdi Árni og staðfesti að við tækjum plássið. Við ákváðum bara að slá til,“ segir Guðný Sif. 

„Þarna fæddist Samúelsson Matbar. Við fengum aðeins átta vikur til að skapa veitingastað en okkur tókst það og meira að segja með Maídísi Dúu rúmlega ársgamla.“ Samúelsson Matbar, nefndur í höfuðið á Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins og hönnuði mjólkurbúsins á Selfossi, opnaði dyr sínar í júní 2021. 

Samúelsson Matbar er sá vinsælasti á Suðurlandi samkvæmt Tripadvisor.
Samúelsson Matbar er sá vinsælasti á Suðurlandi samkvæmt Tripadvisor. Ljósmynd/Aðsend

„Tímasetning var kannski ekki sú besta, svona í miðjum kórónuveirufaraldri. Á þessum tíma var bóluefnið nýkomið til landsins og flestallir byrjaðir í bólusetningu, en það dugði ekki til að drepa óværuna og hertar samkomutakmarkanir tóku því gildi á ný. Það var auðvitað erfitt fyrir glænýja veitingarekstraraðila en það gekk upp á einhvern ótrúlegan máta. 

Það sem kom einna mest á óvart var að þremur mánuðum eftir að við opnuðum Samúelsson Matbar komumst við að því að ég var ófrísk að Ástrós Lóu, hún hafði verið að laumast þarna með okkur allan tímann.“

Guðný Sif ásamt Ástrós Lóu.
Guðný Sif ásamt Ástrós Lóu. Ljósmynd/Aðsend

„Eltu tækifærin á Selfoss“

Samúelsson Matbar hefur blómstrað í Miðbæ Selfoss frá opnun og situr í fyrsta sæti á Tripadvisor yfir veitingastaði á öllu Suðurlandi. Guðný Sif og Árni urðu fljótt vör við velgengni staðarins og vildu því ólm opna annan veitingastað og stækka reksturinn, enda uppfull af góðum hugmyndum. 

„Við vorum mjög spennt fyrir tilhugsuninni en vissum ómögulega hvernig við færum að því að fjármagna verkefni af þessari stærðargráðu. Það var velt við hverjum steini og allir möguleikar grandskoðaðir en við sáum enga skynsamlega leið til þess að láta þetta gerast, það var annað hvort að selja Samúelsson Matbar og byrja upp á nýtt, setja húsið okkar á sölu eða hætta við nýja veitingastaðinn. Ekkert af eftirfarandi valmöguleikum heillaði okkur, en við enduðum á að setja fallega húsið okkar í Þorlákshöfn á sölu og eltum tækifærin á Selfoss.“

Guðný Sif og Árni ásamt dætrum þeirra, Ástrós Lóu og …
Guðný Sif og Árni ásamt dætrum þeirra, Ástrós Lóu og Maídísi Dúu. Ljósmynd/Aðsend

Lífið á Selfossi tók sinn tíma að komast í réttar skorður. Dætur Guðnýjar Sifjar og Árna fengu ekki leikskólapláss fyrr en einhverjum mánuðum eftir flutninga og varð fjölskyldan því að keyra til Þorlákshafnar daglega fyrir leikskólann. Húsið í Þorlákshöfn var einnig á sölu í töluverðan tíma. „Þetta var annasamur tími en um leið og jólatörninni lauk héldum við austur á land til foreldra Árna í tveggja vikna afslöppun bara til að kúpla okkur burt frá stressi og amstri hversdagsins,“ segir Guðný Sif, en fríið fór ekki alveg eins og parið hafði séð fyrir sér. 

„Árni fékk flugu í höfuðið, en hann er alltaf að spekúlera, og sagði við mig: „Er ekki ísbúðin að loka? Hey, hvernig lýst þér á að opna núðlustað?“ Ég horfði bara sviplaus á hann og áður en ég náði að svara var hann kominn í símann að spyrjast fyrir um rýmið,“ útskýrir Guðný Sif, en það tilheyrir Kjörís og verður því að vera einhvers konar ísbúð. „Þar fór sumarfríið eða restin af því, en þarna fæddist „fjórða barnið“ okkar, Groovís - Ice Cream & Donuts.

Það er mikið fjör í Groovís.
Það er mikið fjör í Groovís. Samsett mynd

Þetta verkefni er með þeim skemmtilegri sem ég hef tekið þátt í, enda er þemað gleði og litadýrð. Við bjóðum upp á ljúffengt vöruúrval í lifandi og skemmtilegu andrúmslofti, fólk á að ganga út með bros á vör. Á Groovís færðu ljúffengan ís með kandífloss, heita nýbakaða kleinuhringi og flottasta trúðaísinn á landinu.“ 

Herra, Frú og Fröken Selfoss

Það má með sanni segja að Guðný Sif og Árni séu með kraftinn, hungrið og drifkraftinn, en þau bættu í veitingastaðaskarann nýverið með opnun Fröken Selfoss. Það er þriðji staðurinn sem hjónin opna á örfáum árum. „Núna gafst tækifærið og við stukkum á það. Samúelsson og Groovís ganga vonum framar og það er enginn betri tími en akkúrat núna. Við erum örugglega ekki hætt,“ segir hún og hlær, en salan á húsi þeirra í Þorlákshöfn hjálpaði þeim að fjármagna Groovís og Fröken Selfoss, sem er gómsætur smáréttastaður. 

Frá opnunardegi Fröken Selfoss.
Frá opnunardegi Fröken Selfoss. Ljósmynd/Aðsend

Áður en Guðný Sif og Árni opnuðu dyrnar á Fröken Selfoss fyrir almenningi héldu þau sérstakt einkasamkvæmi, en brúðkaupsveisla parsins var haldin á staðnum aðeins dögum fyrir opnun. „Í miðri standsetningu á nýja veitingastaðnum vorum við einnig að skipuleggja brúðkaupið okkar. Ég fékk þá hugdettu að halda veisluna á veitingastaðnum og Árna leist sem betur fer vel á hana. 

Tíminn flaug og það komu upp hinar ýmsu hindranir og vandamál, en það þurfti að rífa niður vegg, færa vatns- og rafmagnslagnir og ýmislegt fleira. Ágústmánuður kom og fór og aðeins voru vikur í brúðkaupið. Málningin á veggjunum var blaut, parketið ekki komið niður og eldhústækin föst í vöruhúsi á Ítalíu, það var allt í toppstandi eða ekki,“ segir hún og hlær, en parið var sett á að takast áætlunarverkið. „Við hringdum út fleiri iðnaðarmenn og húsið fylltist af fólki á augabragði. Í sameiningu tókst okkur að klára þetta einum degi fyrir brúðkaupið. 

Hjónin buðu til brúðkaupsveislu á Fröken Selfoss.
Hjónin buðu til brúðkaupsveislu á Fröken Selfoss. Ljósmynd/Aðsend

Brúðkaupsdagurinn var dásamlegur í alla staði. Við giftum okkur í lítilli kirkju og buðum vinum og vandamönnum til veislu á Fröken Selfoss, en það gerði daginn einstakari, að sjá alla sem okkur þykir vænst um stíga fæti inn á staðinn sem við lögðum alla þessa vinnu í að skapa. Minningin um þennan dag er mér sérstaklega ánægjuleg og mun ilja mér um hjartarætur það sem eftir er,“ segir Guðný Sif, sem hvetur alla til að kíkja á Selfoss í gómsætar kræsingar, kokteila og ís.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu ekki aðra þurfa að velkjast í vafa um meiningar þínar. Bjóddu vinunum heim í kvöld.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sigríður Dúa Goldsworthy
2
Patricia Gibney
4
Þóra Karítas Árnadóttir og Sahara Rós Blandon
5
Lucinda Riley
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu ekki aðra þurfa að velkjast í vafa um meiningar þínar. Bjóddu vinunum heim í kvöld.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sigríður Dúa Goldsworthy
2
Patricia Gibney
4
Þóra Karítas Árnadóttir og Sahara Rós Blandon
5
Lucinda Riley